Ýmislegt bendir til þess að töluverður samgangur hafi verið á milli Indlands og Mið-Austurlanda sem hafði mikil áhrif á þróun trúmála. Skip Salómons konungs fóru í verslunarferðir til S-Indlands (sjá 1Kon 10.22) og konungur frá Assýríu flutti inn fíla frá Indlandi um 800 f.Kr.

Um svipað leyti og Gyðingar voru í útlegðinni í Babýloníu lifði og starfaði Shakyamuni Búddha á Indlandi. Þegar Asóka var keisari á Indlandi um 269-232 f.Kr. hófst mikill uppgangur búddhadóms. Asóka lét reisa klaustur, musteri og sjúkrahús um víðfeðmt ríki sitt og sendi trúboða út um allan heim, svo sem til Grikklands (Hellas) og Egyptlands. Velmegun óx mjög í stjórnartíð hans. Hann var umburðarlyndur gagnvart öðrum trúarbrögðum.

Þekkt eru áhrif grískrar menningar á Indlandi sem herseta Alexanders mikla leiddi af sér en litlar sögur fara af áhrifum indverskrar menningar á Miðausturlöndum. Mikil menningarblöndun og trúarleg víxlverkan áttu sér í raun stað um gervallt hellenska heimsveldið sem náði frá Róm í vestri til Indlands í austri. Vitað er um grískan kóng í Baktríu (Afganistan), Menandros (100 f.Kr.), sem varð búddhamaður. Búddhískar heimildir greina frá því að þúsundir Grikkja tóku búddhadóm á þessum tímum.

Karma- og endurburðarkenningin ásamt fleiri indverskum trúarhugmyndum má finna hjá til að mynda grísku heimspekingunum Platóni, Plótínusi, Pýtagorasi og Origen kirkjuföður (185-254 e.Kr.). Heimildir eru fyrir því að Platón og Pýtagoras hafi ferðast til Indlands. Plótínus og Origen voru í læri hjá búddhamanninum Ammeníusi Sakkusi. Origen reyndi að bræða saman stefnu Platóns við kristindóm. Kristnir menn, sem rituðu Nýja testamentið á grísku, urðu að taka mið af hinni sterku heimspekihefð sem ríkti á grísk-rómverska heimsveldinu til að ná til menntamanna og ráðamanna. Kristnin var kynnt sem æðsta uppfylling markmiða platónsku og stóísku heimspekinganna.

Líkja má andlegu gróskunni á hellenska menningartímabilinu við hina gróskumiklu menningarblöndun á milli Austurs og Vesturs á okkar tímum sem þakka má greiðum samgöngum og frjálsum tjáskiptum. Kristnin tók upp eingyðistrú og siðfræði Palestínumanna, frá Grikkjum fengu þeir listir og heimspeki, af Rómverjum lærðu þeir reglu og skipulag, og dulhyggju og tilbeiðslu frá Austurlöndum. Stór hluti guðspjallanna hefur sennilega verið skrifaður í Alexandríu í Egyptalandi eða í grennd við þessa miklu menningarborg. Það olli vestrænni menningu óbætanlegu tjóni þegar að bókasafnið í Alexandríu brann um 400 e.Kr.

Líkt og Jesús taldi Búddha sig vera siðabótamann innan ríkjandi trúarhefðar (sjá Mt 17.26). Eftirmenn hans gerðu búddhadóm að nýjum átrúnaði sem greindist svo í nokkrar meginstefnur. Þar á meðal kom fram í Gandhar Mahayana búddhastefnan sem boðaði trú á bódhisattva (verðandi Búddha, hinn uppljómaða). Sökum kærleika og hluttekningar til allra lifandi vera fórnar bódhisattvann búddhadómi sínum, þ.e. afsalar sér tilkalli sínu til himnaríkis og algleyminu Nirvana, til að leysa mennina undan oki þjáninga, girnda og vanþekkingar. Hann vekur mennina til vitundar um guðlega köllun sína eftir að hafa gleymt uppruna sínum og greint sig frá Guði. Mýrarljós efnishyggjunnar villir mönnum um sýn svo þeir gefa sig blekkingunni á vald (Maya).

Þá voru stefnurnar ekki eins einskorðaðar og síðar meir því að mahayana hugmyndir um bódhisattva og dýrkun á guðdómi Búddha var einnig að finna á meðal Þeravadamanna hinayanastefnunnar sem komu síðar við sögu kristninnar.

Í Kasmír voru höfuðstöðvar Mahayana búddhadóms en þar dvaldi Jesús lengstum á för sinni um Austurlönd fjær samkvæmt Issahandritunum (sjá grein í hugi.is/dulspeki eftir hbraga). Að mati Tíbetbúa sem þekktu Issaritin var Jesús sannur bódhisattva. Sagan um vitringana frá Austurlöndum sem leituðu uppi Jesúbarnið minnir á leit búddhamanna í Tíbet í hvert sinn sem nýr bódhisattva fæðist í líki Dalai Lama.

Alexander mikli hafði með sér Þeravada búddhamenn frá stórmenningarborg þeirra í Taxíla úr herleiðangri sínum í Indlandi um 325 f.Kr. Þeir settust að í Alexandríu. Um það vitna meðal annars grafarsúlur með búddhiskum áletrunum og tilvísanir í bæinn A'lasadda (Alexandría). Í Egyptalandi voru þeir nefndir Þerapautar. Munkareglan gat sér gott orð fyrir lækningar enda hefur heitið alþjóðlega skírskotun til þeirra sem stunda meðferð á líkama og sál.

Þegar komið var á fót munkalífi og klaustrum í kristninni á 4. öld fengu kirkjufræðingar áhuga á verkum Fílós og líferni Þerapauta. Líferni þeirra líktist svo mjög munkalífi að litið var á þá sem kristna munka. Á 6. öld var heiti þeirra notað á latínu fyrir kristið meinlætalíf. Mönnum varð ekki ljóst fyrr en á 8. öld að Þerapautar voru til löngu fyrir kristindóm. Kirkjufræðingarnir Jerome og Eusebíus fullyrtu að kristnu munkareglurnar hafi þróast samhliða samfélögum Þerapauta í Alexandríu. Epifaníus kallaði frumkristna menn Þerapauta og Jesiana sem gæti verið orð sem er leitt af Esseni. Lagskipt embættisstaða þjóna kirkjunnar í biskupa, presta og meðhjálpara samsvarar stigveldi Þerapautanna. Helgir, dómar, skriftir og talnabönd eiga sér einnig langa hefð innan búddhadóms.

Essenar voru þjóðernissinnuð gyðingaregla. Fræðimenn hafa þóst greina gnóstísk, platónsk, babýlónsk, persnesk, pýtagorísk og búddhísk áhrif í ritum þeirra (sjá grein um Essena eftir hbraga á þessum vef). Meint áhrif Þerapautanna á Essena kom meðal annars fram í neyslu þeirra á jurtafæðu, andúð á dýrafórnum og förumunkahefð sem hafði til þessa verið næsta framandi á meðal Gyðinga. Áhrifin stöfuðu líklega af því að samgöngur voru miklar milli gyðinganýlendna i Egyptalandi og Palestínu, samanber dvöl Jesú og foreldra hans í Egyptalandi fyrstu ár ævi hans.

Samfélag Þerapauta og Essena var byggt á munkareglu og óbreyttum leikmönnum. Fjölskyldan helgaði oft frumburðinum til einlífis með munkunum í hellaklaustrunum. Við bænahald sneru Essenar sér til austurs en ekki í átt til helgihússins í Jesúsalem eins og aðrir Gyðingar. Þeir voru sóldýrkendur og dagatal þeirra miðaðist við gang sólar að hætti Indverja, en ekki tungls eins og hjá Gyðingum. Essenarnir höfðu áttfalda greiningu á andlegum þroska sem minnir nokkuð á hina áttföldu leið búddhadóms, þeir trúðu á fortilveru sálarinnar. Þeir voru dulhyggjumenni og hugleiddu á austræna vísu. Fornleifagröftur vísar þó að ekki allir flokkar Essena hafi verið jurtaætur eða meinlætamenn.

Í Jerúsalem-útgáfu Biblíunnar er nafnið Jesús frá Nasaret þýtt sem Jesús Nasírei (sbr. Mt 2.23; P 22.8) en Nasírear var trúflokkur sem var skyldur Essenum. Æðstuprestarnir höfðu andúð á þeim vegna þess að Nasaritarnir afneituðu blóðfórnum. Eftir krossfestingu Jesú fór bróðir hans Jakop fyrir þessum söfnuði sem boðaði þjóðfélagslegri stefnu en Páll postuli. Jesús og lærisveinar hans voru förumunkar: “Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að halla” (Mt 8.19-20). Jesús bauð lærisveinum sínum að yfirgefa allt og taka aðeins með sér einn staf til ferðarinnar (sjá Mk 6.8; Mt 4.22; 19.27-29). Hvergi er þess getið í Nýja testamentinu að Jesús hafi neytt kjöts. Tómasarguðspjall (k. 20) sem fannst í Nag Hammadi eyðimörkinni í Egyptalandi árið 1945, staðfestir orð Jesaja spámanns (7.14-15): “Við súrmjólk og hunang skal hann alast þá er hann fer að hafa vit á hinu illa og velja hið góða”. Jesús var á móti dýrafórnum (sjá Mt 12.6; Jh 2.13-15; Hs 6.6). Jóhannes skírari var einnig jurtaæta (sjá Mt 3.4). Ágreiningur á meðal kristinna manna var um rétt mataræði þar til að málamiðlun Páls postula skar úr um að hugarfarið skipti meira máli en hvað menn létu í sig (sjá P 14.1-7). Samkvæmt sköpunarsögunni tóku menn að neyta kjöts eftir syndaflóðið (sjá 1M 1.29; 9.2-4).


HEIMILDASKRÁ

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elmar R. Gruber & Holger Kersten. The Original Jesus. The Buddhist Sources of Christianity. Element. Shaftesbury, Dorset, 1955.

Helstu trúarbrögð mannkynsins. AB, Reykjavík, 1962.

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Radhakrishnan, Eastern Religions and Western Thought. Oxford University press, Delhi, London, NY, 1989.