1. Mósebók

Kristin heimsmynd og lífssýn hefur í aldanna rás byggt á frásögn fyrstu Mósebókar um sköpun heimsins og mannsins. Samkvæmt fyrri útgáfu sköpunarsögunnar skapaði Guð heiminn og síðan jurtir, skepnur og menn á sjö dögum fyrir rúmum sex þúsund árum framreiknuðum (1M 1.1-4). Í spádómsbókunum kemur fram að Guð muni að lokum eyða heiminum, sennilega í náinni framtíð, og skapa nýjan himin og jörð þar sem hinir sáluhólpnu lifa að eilífu.

Alkirkjuráðið og Lútherska heimssambandið hefur í raun aldrei komið með afgerandi endurskoðun á viðteknum skilningi kristninnar á sköpunarsögunni þrátt fyrir að hann stangast á við niðurstöður vísindanna um milljarða ára þróun heimsins og lífveranna. Jafnvel hinn íhaldsami páfadómur hefur látið í veðri vaka að sætta verði andstæð sjónarmið trúar og vísinda. Eflaust myndi slíkt uppgjör ógna einingu kirkjunnar þar sem “rétttrúarfólk” heldur til streitu bókstaflegri túlkun á heimsmynd Biblíunnar. Það beitir jafnvel “vísindalegum rökum” til þess að véfengja niðurstöður vísindanna, samanber bók Harolds Coffins, “Óvæntar staðreynir um sögu jarðar”. Þó það sé ekki einhlítt hvernig túlka megi margræðan texta sköpunarsögunnar má finna dæmi um viðleitni til nútímalegrar guðfræðilegrar túlkunar á sköpunarsögunni, samanber athyglisverðar greinar eftir guðfræðingana Sigurð Pálsson og Gunnar Kristjánsson.

Tvískinungurinn og togstreitan á milli vísinda og kristni hefur líklega stuðlað að sálarlegum klofningi og firringu vestrænnar menningar öðru fremur. Þetta hefur vafalaust skapað tortryggni, efasemdir, meinhæðni og tómlæti í hugum þenkjandi manna í afstöðunni til trúmála og leitt til óverðskuldaðrar trúar á framfaramátt vísindanna. Guðstrú hefur verið lögð að jöfnu við bókstafstrú á sköpunarsögu Biblíunnar. Nútíma vísindi með þróunarkenninguna að bakhjalli hafa hins vegar verið lögð að jöfnu við efnis- og efahyggju.


Goðsagnaheimur sköpunarsögunnar

Sköpunarsaga Biblíunnar á sér margar hliðstæður við goðsögur og átrúnað “ósiðmenntaðra” ættbálka frumbyggja. Lengi vel litu þess vegna félagsvísindamenn og ýmsir mennngarvitar á goðsöguna sem leifar frumstæðs átrúnaðar og hindurvitni sem nútímamenning væri vaxin upp úr. Kristnum mönnum þykir skiljanlega súrt í broti að fallast á að Guðs orð hljóti slíkan dóm.

Hins vegar hafa mannfræðingar og sálgreinendur, á borð við Malinowsky, Jung og Campbell hafið á ný goðsagnir, þjóðsögur, sagnaminni og ævintýri til vegs og virðingar. Þeir álíta að goðsögur birti myndræn og lifandi minni og tákn djúpstæðrar visku sem spretti úr sameiginlegri undirvitund mannsins. Viskan tjái sig í gegnum táknmyndir í draumum, vitrunum, innblæstri og leiðsluástandi seiðmanna og spásagnamanna. Goðsögum megi líkja við söng eða ljóð sem hafi sína eigin innri merkingu sem höfða til tilfinninga og innsæis utan við svið almennrar skynsemi. Í tengslum við goðsöguna fái hverdagsleg fyrirbæri og umhverfisáhrif djúpa og óræða merkingu sem lýsi því ólýsanlega. Malinowsky segir að í augum innfæddra Kyrrahafseyjaskeggja séu goðsögurnar sönnun þess að til sé stórfenglegri og mikilvægari veruleiki sem stjórni lífi, starfi og örlögum mannsskepnunnar – og öllu lífi á himni og jörðu.

Jesús hafði lag á því að koma dýpri sannindum til skila með dæmisögum og líkingum: “Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum” (Mk 4.11) Vissulega ruglar skynsamt kristið fólk ekki saman vísindum annars vegar og myndlíkingum og dæmisögum trúarinnar hins vegar. Sköpunarsagan og Biblían í heild birta í raun djúpvitur sannindi sem hafa verið leynd og innsigluð “þar til að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana og þekkingin mun aukast” (Dn 12.4). “Því að jörðin mun verða full af þekkingu á dýrð Drottins eins og djúp sjávarins vötnum hulið” (Hb 2.14). “Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt” (Lk 12.2-3).

Þekkingin á leyndardómum Biblíunnar sem opinberast við endalokin vísar ekki til heimsenda eða ragnaraka. Hér er átt við “fæðingarhríðir” sem framundan eru við lok 2000 ára tímabils Fiskaaldarinnar, merki kristninnar, sem markar upphafs nýja tímans, þ.e. gullaldartímabils sem kennt er við Vatnsberamerkið.


Þróunarkenning vísindanna og dulspekinnar

Þróunarkenning Darwins á sammerkt með dulvísundunum að líta á að efnisheimurinn og lífverurnar hafi þróast á milljörðum árum í samræmi við náttúrulögmálin sem eru alls staðar að verki. Þótt frumspekilegar ályktanir liggi utan við svið raunvísindanna telja margir þróunarsinnar að vitundin sé afrakstur efnabreytinga í anda efnis- og vísindahyggjunnar og því ekki þörf fyrir guðfræðilegar skýringar.

Í kristinni trú er Guð skapari heimsins aðgreindur frá sköpunarverki sínu líkt og smiðurinn frá byggingarverki sínu. Það er hið sígilda tvíhyggjusjónarmið. Í dulhyggju og algyðistrú er byggingarverkið hluti af smiðnum sjálfum sem er allt í öllu. Sálin í sköpunarverkinu er ein en birtist í mörgu.

Efnisheimurinn myndaðist smám saman úr stigvaxandi, þéttandi umbreytingu og sundurgreiningu á vitund andans sem birtist í margbreytilegum lífverum á innri og ytri sviðum, samkvæmt algyðistrúnni. Samt sem áður er eilífur andi guðdómsins alltaf í innsta eðli sínu hrein og tær, óskipt og ódeilanleg vitund. Guð eða heimsandinn birtist í náttúrunni, bæði í sál mannsins og í hinum ytri veruleika.

Þróun lífsins fer þannig fram að andinn gæðir efninu smám saman meiri sál (aukið lífmagn) með Orði sínu (Kristi) og birtir í því eigindir guðlegs eðlis síns (sbr. 1M 2.7: “Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leir jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál”). Lífið þróaðist í efninu úr steinaríkinu yfir í lífræn efnasambönd, einfrumunga og fjölfrumunga, plöntu- og dýraríkið sem samsvarar lýsingu fyrstu Mósebókar (1M 1.1-4) sem vitnað var til í byrjun greinarinnar. Þess ber að minnast að hjá Guði er hver dagur sem þúsund ár eins og fram kemur í þjóðsöngnum. Hver hinna sjö daga í sköpun Guðs á sér skýringu í dulspekilegum fræðum sem komið verður inn á í síðari greinum. Maðurinn kom svo fram á jarðsviðið þegar efnið var orðið hæft starfstæki fyrir mannkynið sem beið síns vitjunartíma í móðurskauti guðdómsins. Hliðstætt kenningunni um margra milljóna ára þróun lífveranna þarf maðurinn, samkvæmt dulvísundunum, margar jarðvistir til að sálin geti náð fullkomnun og þroska til að sameinast uppruna sínum.

Með aukinni sjálfsvitund hefur maðurinn sífellt meiri ábyrgð á framþróun sinni. Hann lýkur síendurteknum jarðvistum sínum að endingu með upprisu sálarinnar sem rennur saman við anda Guðs fyrir meðalgöngu Krists. Maðurinn birtist þá að fullu í mynd Guðs sem hann er skapaður í (sjá 1M 26-27). Í upprisunni endurfæðist maðurinn (barn Guðs) sem sonur eða dóttir Guðs þegar hann verður eitt í Kristi. Þorri mannkyns á eftir að ganga í gegnum sams konar reynslu og Jesús Kristur og aðrir dýrlingar ólíkra trúarbragða. Hinir uppstignu meistarar mynda innra helgivald sólkerfisins, Hvíta bræðralagið, í þjónustu við lífið. Sérstaða Jesú er hin mikla fórn sem hann tók á sig á krossinum vegna synda mannkynsins. Í ríki andans er eilíf sæla, vitundar- og viskuþroski, þ.e. Sat, Chit, Anandam, skv. vedaritum Indverja, því að í húsi föðurins eru margar vistarverur (sbr. Jh 14.2). Þróunin heldur stöðugt áfram í eilífri hringrás sköpunar og eyðingar alheimsins þar sem hver sköpun samsvarar andadrætti Brahmans eins og það er orðað í vedunum.

Í næsta hluta verður haldið áfram með sköpunarsöguna, nánar tiltekið hlutverk dóttur Guðs, konunnar sem ímynd Móðurguðjunnar eins og hún birtist í Evu og Maríu guðsmóður og Quan Yin gyðju búddhatrúarmanna. Þar er og einnig að finna ítarlegri heimildaskrá.