Inngangur

Talsverðar umræður hafa skapast um heimildagildi guðspjallanna vegna greina um guðfræðilegt efni sem ég hef birt á þessum vettvangi. Ég dustaði því rykið af óbirtri grein sem ég hef skrifað um efnið. Ég vona að hún sé það athyglisverð að menn þrjóti ekki örendi að lesa svo langa grein.


Eldri Biblíurannsóknir

Sennilega hefur enginn guðlegur maður notið jafn mikillar hylli eða andúðar og verið jafn mikið umræðu- og deiluefni á meðal lærðra og leikra og Jesús Kristur. Samt sem áður hefur ekki verið hægt að segja mikið um hann með vissu vegna þess að kristnar heimildir sem við höfum aðgang að eru brotakenndar og í þeim er mikið af helgisögum. Fram að endurreisnartímanum fólst öll umfjöllun um Jesú í því að styðja og breiða út yfirlýstar guðfræðilegar kennisetningar kirkjuyfirvalda á hverjum tíma og stað.

Á endurreisnatímunum í lok miðalda fór fyrst að bera á gagnrýnni umræðu um guðspjöllin sem óx eftir því sem leið á 17. og 18. öldina með tilkomu upplýsingastefnunnar. Heimspekingar eins og Votaire og Holbach drógu jafnvel í efa sögulega tilvist Jesú. Í lok 18. aldarinnar fóru guðfræðingar og fræðimenn að grennslast fyrir um sögulegar forsendur guðspjallanna sem eru helstu heimildirnar um líf Krists.

Frá 19. öld kom fram hin gagnrýna vísindalega sögustefna og nýguðfræðin innan Biblíurannsókna sem áttu rætur að rekja til þýskrar mótmælendaguðfræði. Þeir sökuðu katólsku kirkjuna um að hafa falsað kristnina með heiðindómi. Þeir reyndu að afsanna kenningar hennar með því að finna sönnur fyrir að Kristur hefði meint annað en katókska kirkjan vildi láta í veðri vaka. Þeir töldu að hægt væri að svipta hulunni af leyndardómum sögunnar og væri Guðs heilaga orð ekki undanskilin.

Fræðimenn veltu fyrir sér hver Jesús væri, hvernig hann leit út, hvenær hann væri fæddur, hvenær hann var krossfestur, hvernig og hvar hann dó, hve sannar eða goðsgulegar heimildirnar um ævi Jesú væru, hvort að hann hafi viljað stofna ný trúrbrögð eða verið dómsdagsspámaður. Þeir þrættu um hvort að það væru til skynsamlegar skýringar á kraftaverkunum, hvort að Jesús hafi verið nauðsynlegur fyrir framþróun kristindómsins, hvort að Jóhannesarguðspjallið hefði minna sögulegt gildi en hin guðspjöllin og svo framvegis.

Árið 1835 fullyrti David F. Strauss í bók sinni The Life of Jesus (Líf Jesú) að guðspjöllin væru aðeins guðræknar munnmælasögur um Jesú í anda Gamla testamentisins. Annar þýskur fræðimaður, Bruno Bauer, fullyrti að sögurnar um Jesú og Pál postula væru goðsögulegur tilbúningur sem ofstækismenn hefðu skáldað út frá grískum rómversku og gyðinglegum trúarhefðum. Trúboðinn og læknirinn Albert Schweizer er þekktastur þessara manna. Hann áleit að sögulegar rannsóknir væru sársaukafullar en óhjákvæmilegar fyrir kirkjuna til að glata ekki trúverðugleika sínum.

Meira en 80.000 rannsóknargreinar og fræðigreinar hafa verið birtar um Jesú en með heldur rýrum niðurstöðum. Það hefur staðið fræðimönnum fyrir þrifum að fornar heimildir byggja að mestu á hlutdrægum vitnisburði og ógagnrýnum trúaryfirlýsingum sem ganga út frá því sem gefnu að Jesús hafi verið Guðs sonur og Messías sem kom til að frelsa heiminn. Fræðimönnum ber nú saman um að Jesús hafi verið til en vegna skorts á sögulegum heimildum hefur ekki verið hægt að rita ævisögu hans í nútímalegum skilningi. Hvaða heimildir eru þá til og hverjum er hægt að treysta?


Ekki-kristnar söguheimildir

fyrstu rit um Jesú má flokka í kristin rit og önnur af öðrum toga. Elstu heimildirnar af ekki kristnum uppruna voru ritaðar um sextíu til níutíu árum eftir krossfestinguna. Þau eru svo stutt að lítið er á þeim að græða.

Samtímamaður Jesú, Fíló Judaeus (20 f.Kr.-50 e.Kr.), hefur skrifað um fimmtíu rit um sögu, heimspeki og trúarbrögð. Samt minnist hann hvergi á Jesú þó að hann geti margsinnis Pílatusar. Gyðingurinn Flavíus Jósefus (37-100 e.Kr.), sem gerðist rómverskur borgari, gaf góða lýsingu á samfélagsmálum í Rómaveldi á tímum Jesú sem ætlað var Gyðingum til skýringar á sögu þeirra. Hann minnist á Jóhannes skírara, Heródes og Pontíus Pílatus en nefnir aðeins Jesú í sambandi við að bróðir hans Jóhannes hafi verið grýttur til dauða fyrir atbeinda æðstaprestsins Annasar. Í átjánda söguriti sínu um Gyðinga er haft eftir honum að Jesús hafi verið Kristur og kraftaverkamaður sem snéri mörgum Gyðingum og Grikkjum til kristinnar trúar. Komið hefur í ljós að þessi yfirlýsing Flavíusar var fölsun frá 3. öld. Kristnir guðfræðingar vildu nota sér orðstý hans til að öðlast vottfestar heimildir um ævi Jesú trú sinni til framdráttar þrátt fyrir að þessi tilbúningur væri andstæður sannfæringu Flavíusar. Jústus Tiberias, samtímamaður Jósefusar, skrifaði einnig sögu Gyðinga en án þess að minnast á Jesú.

Seutoníus (37-140 e.Kr.) hafði aðgang að ríkisskjölum Rómverja sem hann notaði til að skrá sögulega atburði á tímum fyrri keisara Rómar. Hann minnist á að kristnir söfnuðir hafi verið reknir frá Róm á tímum Caudíusar um 41 til 54 e.Kr. Fræðimenninn Filó frá Alexandríu, sem var sérfræðingur í trúarbrögðum Gyðinga og samtímamaður Jesú, minnist heldur ekki á hann. Pliny yngri (62-113 e.Kr.) skrifar um kristindóm í Byþyníu en minnist ekki á Krist.

Tacítus, sem var rómverskur sagnaritari, ritaði 116 e.Kr. um vissan “hjátrúarfullan sértrúarsöfnuð” sem kenndur væri við Krist sem krossfestur var a dögum Tíberíusar keisara undir stjórn Pontíusar landstjóra. Hann segir frá ofsóknum keisarans Nerós á kristnum mönnum í því yfirskini að þeir hefðu kveikt í Róm. Það er helst í skrifum Celsusar, sem skrifaði gegn kristindóminum á 2. öld, sem greina má nokkrar sögulegar staðreyndir um Krist.


Guðspjallamennirnir og rit þeirra

Elstu heimildir um Jesú eru rit Páls postula í Nýja testamentinu sem voru rituð á árunum 50-63, þ.e. 20-30 árum eftir krossfestinguna. Nýrri rannsóknir hafa leitt í ljós að Páli sé ranglega eignað ýmis bréf sem við hann eru kennd. Sum þeirra voru felld saman úr reytingum sem til voru eftir hann. Fræðimönnum ber ekki saman hvaða kenningar séu réttilega komnar frá Jesú og hverjar frá Páli postula.

Guðspjöllin eru megin heimildirnar sem til eru um ævi Jesú. Þau eru nefnd eftir Matteusi, Markúsi, Lúkasi og Jóhannesi. Þau ásamt Postulasögunni eru talin vera frá árunum 70-95. Þau voru rituð svo löngu eftir atburðina sem þau lýsa, svo löngu eftir orð Jesú sem höfð voru eftir honum að telja má þær ekki mjög traustar heimildir. Frumrit voru ekki til heldur mestmegnis afrit af afritum. Afritin af guðspjöllunum er þó eldri en flest önnur afrit. Elstu afrit guðspjallanna eru frá 4. öld. Fundist hafa papýrussnifsi sem eru eldri og textabrot af þeim staðfesta texta yngri gerðanna. Talið er að guðspjöllin eins og þau eru í dag megi rekja aftur til miðrar 3. aldar. Þau voru valin úr samansafni af miklu fleiri guðspjöllum sem voru í umferð á meðal ýmissa frumkristinna safnaða áður en Nýja testamentið var formlega tekið saman. Textar sem voru afnumdir eru kallaðir apókrýfar bækur sem þýðir “hulinn” eða “óljós” á grísku. Mörg voru eyðilögð en sum þeirra sem hafa varðveist eru margræð og sýna athyglisverða hlið á Jesú. Engin skrif eru til eftir Jesú og eina skiptið sem sagt er að hann hafi skrifað er í frásögn Jóhannesar um syndugu konuna en þar stendur að hafi skrifað með fingrinum á jörðina (sjá Jh 8.1-11).

Sérfræðingar deila um munnlegar og skriflegar heimildir guðspjallanna en þeir eru sammála að mjög snemma og hugsanlega á meðan Jesús hafi verið á lífi hafi orðið til rituð söfn með ummælum og orðum hans sem frumkristnir menn notuðu og sem guðspjallamennirnir hafi meðal annars haft aðgang að þeim þegar þeir sömdu guðspjöllin.

Viðmiðunin sem höfð var við útvalið var að rekja mætti guðspjöllin til lærisveina Jesú þó að vandkvæðum hafi verið bundið að úrskurða til um það og er enn. Ekki er hægt að ákvarða nákvæmlega hvernig þau urðu til vegna þess að þau rekja söguna á svipaðan eða sama hátt að miklu leyti.

Markús hefur líklega ritað sitt guðspjall um fjörutíu árum eftir krossfestingu Krists en Lúkas og Matteus um tuttugu árum síðar. Tvær til þrjár kynslóðir liðu sem sagt eftir krossfestingu Krists þar til að saga Jesú var færð í letur. Guðspjöllin hafa líklega verið umrituð og ritskoðuð að einhverju leyti áður en þau komu endanlega út í núverandi mynd á miðri 4. öld. Fyrir utan nokkra papýrusbleðla frá 2. öld eru guðspjöllin því ekki til í upprunalegri mynd.

Matteusarguðspjall er haft fyrst í Nýja testamentinu vegna þess að Matteus tengdi boðskap þess við Gamla testamentið. Matteus skráði líklega sitt guðspjall skömmu eftir 70 e.Kr. og er því næst elst.
Matteus sér vonir og drauma Gyðingaþjóðarinnar rætast í Jesú – í honum hafa fyrirheiti Guðs til þjóðar sinnar gengið eftir
(William Barcley, s. 13). Hann hefur ritað fyrir kristna söfnuði í Sýrlandi og í Palestínu. Einkum hefur hann ætlað að sannfæra Gyðinga og vitnar í Gamla testamentið til að sýna að Jesús væri kominn til að uppfylla lögmál Móse og að hann væri sá Messías og frelsari sem að spámennirnir höfðu boðað (sjá Mt 5.17,18). í Jesu Kristi talaði rödd Guðs með valdi sem var jafnvel lögmálinu æðra, taldi Matteus. Boðskapur Jesú væri því ætlaður öllum mönnum en ekki bara Gyðingum. Stundum vitnar hann í spámennina með vafasömum hætti um að orð Guðs hafi ræst í Jesú.

Telja má að Markúsarguðspjall hafi verið skrifað fyrir 70 árum e.Kr. vegna óbeinna tilvísana í Gyðingastríðið (66-73 e.Kr). Textagreining leiðir í ljós að það sé upprunalegast. Hrífandi frásögn, einfaldleiki og einstakt raunveruleikaskyn einkennir það. Í Markúsarguðspjalli komumst við næst hinni sönnu mennsku Jesú, frumleika og valdi, segir guðfræðingurinn A.B. Bruce. Markús fjallar svo blátt áfram um menn og málefni að hinir guðspjallamennirnir hafa stundum fundið sig knúna til að bera í bætifláka fyrir hann (sbr. viðbætur Mt 13.58 og 10.17-18 í sambandi við Mk 6.5 og 19.16-17). Þrátt fyrir slíkar ávirðingar hefur Markús lagt línurnar í allri frásögn af lífi og starfi Jesú.

Markús mun hafa verið á meðal lærisveina Péturs postula enda er guðspjall hans að stofni til prédikanir Péturs að mati Papíasar biskups sem var uppi á fyrri hluta 2. aldar. Hann er gagnorður og lýsingarnar eru því sem næst frá fyrstu hendi enda bera smáatriðin þess vott. Hann var eini guðspjallamannanna sem hefur eftir Jesú orð á aramísku, eins og gæluyrðið Abba sem þýðir í raun pabbi.

Hann mun hafa verið unglingur þegar Jesús var handtekinn og krossfestur. Um þátt hans í atburðarrásinni segir í Markúsi að ungur maður hafi látið eftir línklæði og flúið nakinn þegar átti að taka hann (sjá Mk 15.51-52). Markús fylgdi Pétri til Rómar og hefur sennilega skrifað rit sitt fyrir kristin söfnuð þar.

“Hann boðar Krist sem Guðs son, er vald hafði til að kenna og lækna. Hann lýsir Jesú sem Mannssyninum, er kom til þess að gera líf sitt fyrir aðra” (Bibl. Kynning á bókum Biblíunnar, s. 331). Hann lagði áherslu á að Jesús vildi fara leynt með að hann væri Messías. Markús hefur líklega mótast í suðupotti frumkristninnar. Markúsarguðspjall lýkur í raun með 8. versi 16. kafla þar sem versin 9-19 eru í raun viðbætur við þann hluta frumtextans sem hefur að líkindum glatast (Mk 8.30).

Lúkas hefur sennilega skráð sínar frásagnir um 80-90 e.Kr. Í bréfum Páls postula kemur fram að hann var læknir enda bera skrif hans með sér að hann var vel menntaður fræðimaður sem skrifaði góða grísku. Hann var eini guðspjallamaðurinn sem var ekki Gyðingur. Ireneus kirkjufaðir ritaði að Lúkas skrifaði niður prédikanir Páls. Talið er að hann hafi skrifað guðspjall sitt í Antíókkíu í Sýrlandi fyrir hellensku og rómversku söfnuði Páls við borgirnar í Eyjahafi. Hann skrifaði einnig Postulasöguna sem er í beinu framhaldi af guðspjalli hans. Hann tileinkaði skrif sín fyrirmanninum Þeófílíusi.

Fræðiskrif hans þjóna hagnýtum tilgangi sem verjandi kristninnar en um þær mundir var þegar farið að rægja og ofsækja kristna menn. Hann lýsit því yfir að Jesú væri ekki aðeins kominn fyrir Gyðinga heldur væri frelsari alls heimsins. Hann lagði áherslu á samúð Jesú með lítilmagnanum eins og Samverjum sem Gyðingar fyrirlitu. Konur í sögum hans eru hugþekkar án tillits til bakgrunns. “Markús og Lúkas setja komu guðsríkisins í stað endurkomu Krists” (WB, s. 27). Hugsun Matteusar og Markúsar mótaðist mjög af endurkomu Jesú og nálæg sögulok mannkyns en hjá Lúkasi er tími kirkjunnar kominn og upphaf hjálpræðissögunnar. Hann var fyrsti kirkjusagnfræðingurinn. Jesús Kristur er í kirkjunni.

Guðspjöll Matteusar og Lúkasar fylgja að mestu leyti atburðarás Markúsar. Þau lýsa atburðum í sömu röð þegar þeim ber saman við Markús. Þeir hljóta því að hafa tekið mið af Markúsi. “Markúsaguðspjall geymir 661 vers og styðst Matteus við 606 þeirra og Lúkas 320. Það eru aðeins 31 vers af þessum 661 versum Markúsar sem koma hvergi fram hjá Matteusi og Lúkasi” (WB, s. 18). Þeir hafa auk þess 235 sameiginleg vers sem ekki eru í Markúsi. Því megi fullyrða að Matteus og Lúkas hafi einnig stuðst við aðrar heimildir sem ýmsir fræðimenn telja vera upprunalegustu heimildir sem til eru. Þessar frumheimildir eru kallaðar Q-ræðuheimildirnar (Q = Quelle sem þýðir uppspretta á þýsku). Erfitt hlýtur að hafa verið fyrir þá að greina rétt rit og munnmæli frá röngum sem þeir höfðu sér til stuðnings. Í öryggisskyni hafi þeir því haft með heimildir sem augljóslega stangast á. Þau innihalda töluverðan fjölda ummæla eftir Jesú, líkingar, spakmæli og hvatningarorð, sem sum eru sameiginleg hjá þeim báðum, en skortir alveg hjá Markúsi. Sérheimildir þeirra greina til dæmis á ólíkan hátt á fæðingu Jesú.

Jóhannesarguðspjall er yngst og talið vera frá byrjun 2. aldar. Það er mjög ólíkt hinum þremur. Það er heimspekilegra og dulúðugra en hin og fyllir upp í þau. Það varð því umdeildara heldur en hin guðspjöllin. Í frásögninni er skotið inn vitnisburði sjónarvotts sem sagður er hafa verið vitni að krossfestingunn (sjá Jh 20.2). Lærisveininn, sem Jesús elskaði, er við krossinn (sjá Jh 19.26) og við tómu gröfina. Hans er getið sem höfundar Jóhanesarguðspjalls: “Þessi er lærisveinninn, sem vitnar um allt þetta og hefur skrifað þetta” (Jh 21.2-24). Ýmsar heimildir segja að lærisveinar Jóhannesar hafi beðið hann um að skrifa guðspjallið á gamals aldri. Aðrir nefna vini hans og félaga í þessu sambandi og enn aðrir að biskupar Litlu-Asíu og fulltrúar kirknanna hafi hvatt Jóhannes til þess og hann látið verða af því. Ljóst er að margir hafi komið hér að máli við öldunginn Jóhannes til þess arna hafi hann verið sá sami einfaldi og ólærði fiskimaður og lærisveinn sem Jesús elskaði.

Langar ræður einkenna guðspjallið. Vart er því að búast við því að orðræðurnar hafi varðveist í óbreyttri mynd um sjötíu árum eftir að guðspjallið var skráð. Jóhannes lýsir því yfir að “Hann var í upphafi hjá Guði” (Jh 1.1-3). Guðfræðingar eru almennt sammála Jóhannesi (1.14) um að Jesús sé Orðið sem varð hold, þe.e. Guð sem tók á sig mannsmynd. Guðspjallið hefst á þeim boðskap, "að Jesús sé ‘logos’, hin eilífa hugsun, speki og skapandi orð Guðs í heiminn komið [til að móta hann]“ (Bibl. Kynning á bókum Biblíunnar, s. 332). ”Jesús er Orðið – leið Guðs til fundar við manninn – og tjáning á hugsun Guðs… Logos var hugur Guðs eins og hann birtist i fyrirbærum alheimsins; logos kom röð og reglu á hluti…“ (WB, s. 32). Þetta orðalag skyldu Grikkir betur en hin gyðinglegu hugtök um son Davíðs eða Messías.

”Í huga Jóhannesar er endurkoman daglegur viðburður þegar Jesús Kristur kemur í anda sínum til mannsins [sbr. Jh 14.23]… Dómurinn er í huga Jóhannesar atburður sem á sér stað í hvert sinn sem manneskjan mætir Jesú Kristi [sbr. Jh 5.24]" (WB, s. 31). Kjarninn í boðskap Jóhannesar að leiðin til að þekkja guð er að horfa til Jesú. Jesús er guðs sonur, frelsarinn er veitir öllum líf.


Samræming Nýja testamentisins

Kristnir frumsöfnuðir urðu bráðlega fjölmennir og margleitir hópar sem deildu einatt sín á milli. Rómversku sagnaritararnir Celsus og Ammianus Marcellinus báru því vitni að hver höndin var á móti annarri á meðal frumkristinna safnaða. Eina sem þeir ættu sameiginleg væri að þeir kölluðu sig kristna. Þar á meðal voru ýmsir trúarhópar eins og Essenar, Ebíónítar (gyðing-kristnir menn), Maníkear, Gnóstíkar og fleiri hópar með ólíkar trúarskoðanir. Kirkjufeðurnir sáu að leiðin út úr þessum ógöngum, sem var að kljúfa kirkjuna og hefta framgang hennar, væri að koma skikkan á kenningakerfið með því að löggilda fáein útvalin guðspjöll og kasta öðrum útbyrðis. Ýmsir kirkjufeður reyndu þetta, þar á meðal Papías frá Hierapólis árið 110 e.Kr. og Tatían um 170 e.Kr., en urðu frá að hverfa vegna mótstöðu einstakra safnaða. Í lok 2. aldar tókst Irenaeusi páfa með hótunum um bannfæringu og útskúfun að sameina hina sundurleitu kristnu hjörð um löggildinu guðspjallanna fjögurra sem mynda fram til dagsins í dag samstæðan hluta heilagrar ritningar.

Hætt er við að ýmsum sannleiksmolum kunni að hafa verið fórnað á altari einingar kirkjunnar og sterkrar valdastöðu. Enginn veit hve mikið kirkjan hafi glutrað af upprunalegum kenningum sem ef til vill má finna ´brotum á víð og dreif. Ekki verður hjá komist að sú áleitna spurning komi upp í hugann hvað sé vitað með vissu um hinn sögulega Jesú? Hversu mikið af því sem stendur skrifað um Jesú í guðspjöllunum er bókmenntalegur tilbúningur og hvað er sannleikur? Aðeins með því að komast að snoðir um hvað Jesús sagði raunverulega er hægt að greina hinn sanna boðskap guðspjallanna frá síðar tilkomnum tilbúningi.


HEIMILDASKRÁ

Biblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og Nýja testamentið. Ný útgáfa, HÍB, Reykjavík, 1981.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Years of Jesus. On the discoveries of Notovitch, Abhedananda, Roerich, and Caspari. Summit University Press, NY, 1994.

Elizabeth Clare Prophet. The Lost Teachings of Jesus 1-4. Summit University Press, 1993.

Elmar R. Gruber & Holger Kersten. The Original Jesus. The Buddhist Sources of Christianity. Element. Shaftesbury, Dorset, 1955.

Gunnar Kristjánsson. Ritskýring og túlkun Biblíunnar. Úr Mál og túlkun. HÍB, Reykjavík, 1981.

Herbert Sundermo. Biblíuhandbókin þín. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík, 1974.

Holger Kersten. Jesu Lived in India. Element, Shaftesbury, Dorset, 1994.

Jakob Jónsson dr. theol. Um Nýja testamentið. Menningarsjóður. Reykjavík, 1973.

William Barclay. Leiðsögn um Nýja testamentið. Skálholtsútgáfan, Reykjavík, 1993.