STOFNUN GUÐSPEKIFÉLAGSINS

Madame Helena P. Blavatsky stofnaði Guðspekifélagið árið 1875 ásamt Henry S. Olcott og William Q. Judge. Helsta markmið guðspekinnar var að opinbera almenningi dýpri þekkingu á eilífðarmálunum.

Hún hélt því fram árið 1880 að hún væri í sambandi við uppstigna andlega meistara sem hefðu hvatt hana til að stofna Guðspekifélagið. Í ritum sínum eins og The Secret Doctrine kynnti Blavatsky meðal annars kenningar meistaranna. Meistararnir eru sagðir heita nöfnum eins og El Morya, Kúthúmi, Dkwal Khul, Serapis Bey og svo framvegis. Þeir veiti mönnum innblástur í listum, vísindum, menntun, stjórnun og andlegum málum. Þeir vinni að framþróun lífsins út frá hærri tilverustigum í samvinnu við mannkynið óháð kyni, trúar- og þjóðfélagsstöðu.

Þessi félagsskapur nefnist innra helgivaldið eða Hvítbræðralagið. Í Opinberunarbókinni (7.13-17) er vísað til þess: “Þessir sem skrýddir eru hvítu skikkjunum… frammi fyrir hásæti Guðs.” Spámenn Biblíunnar og annarra trúarbragða eru sagðir vera talsmenn þess. Sagt er að meistararnir séu eldri bræður okkar og systur sem vísi veginn til eilífs lífs. Fyrir okkur liggi að feta í fótspor þeirra þegar við höfum tekið út fullan þroska á jarðsviðinu.

Blavatsky lenti síðar í illskeyttum deilum þar sem henni var meðal annars borið á brýn um að vera svikamiðill. Að henni látinni hélt Judge því fram að hann væri einnig í sambandi við meistarana. Evrópskir guðspekisinnar drógu í efa eða höfnuðu alfarið meintu sambandi hans við meistarana. Judge hafði orðið eftir í Bandaríkjunum þegar Blavatsky og Olcott fluttu höfuðstöðvarnar til Indlands.

Blavatsky fól efnilegustu nemendum sínum Annie Besant og Judge yfirstjórn alþjóðlegrar deildar Guðspekifélagsins. Judge og Besant áttu í valdabaráttu sem leiddi til að bandaríska deildin dró sig út úr alþjóðasamtökum Guðspekifélagsins árið 1895. Judge dó árið eftir og tilnefndi efnilegasta nemanda sinn, Katherin Tingley, sem eftirmann sinn. Besant og Tingley voru sterkir og óvenjulegir leiðtogar en hvorug þeirra voru talin vera í sambandi við meistarana.

Trúnaðarmaður Besants, Charles W. Leadbeater, hafði miklar dulargáfur en hann var heldur ekki álitinn vera sendiboði meistaranna. Um síðir lagði hann línurnar fyrir alþjóðasamtök Guðspekifélagsins fyrir komandi öld þegar hann valdi ungan dreng, Jiddu Krishnamurti, sem útvalinn talsmann fyrir komandi Messías, boðbera heimsins. Vænst var að Krishnamurti kæmi til móts við óskir margra um samskipti við meistara Hvítbræðralagsins. Krishnamurti hafnaði tilnefningunni sem heimsfræðarinn árið 1929, tíu árum eftir útnefningu, sem leiddi til klofnings innan félagsins.

Eftir að Judge lést gat enginn gert tilkall til þess að vera í beinu og stöðugu sambandi við meistarana. Aðeins skilaboðin sem Blavatsky fékk voru álitin gild fyrir utan nokkrar orðsendingar sem Judge og Olcott fengu frá meisturunum. Árið 1920 kvaðst Alice A. Bailey hafa fengið skilaboð frá meistaranum Djhwal Khul sem almennt er nefndur Tíbetinn. Hún gaf út fyrsta ritið með boðskap Tíbetans árið 1920 sem brátt varð að mörgum bindum. Bailey og maður hennar Foster yfirgáfu Guðspekifélagið ári eftir vegna ágreinings og stofnuðu eigin samtök að nafni Arcane skólinn.


NÝ-HUGUN

Í Bandaríkjunum komu fram svonefndar ‘ÉG ER’ hreyfingar sem byggja á kenningum guðspekinnar í anda Hvítbræðralagsins en með kristnu ívafi. Forveri þeirra voru samtökin New Thought (Ný-hugun) sem Emma C. Hopkins stofnaði ásamt nemanda sínum Annie R. Millitz. Hopkins var ritstjóri tímaritsins Christian Science Journal (Kristna vísindablaðið) þar til að hún sleit sig úr tengslum við Marry Baker Eddy árið 1885. Mary Baker veitti Kristnu vísindahreyfingunni forstöðu sem orðið hefur vel þekkt á Vesturlöndum.

Hopkin lagði stund á bænaáköll ættuð frá Kristnu vísindahreyfingunni sem kalla má uppbyggilegar staðhæfingar. Ýmis afbrigði af slíkum bænaáköllum eru mikið stundaðar innan nýaldarstefnunnar. Hún notaðist við hugtakið ‘ÉG ER’ á sérstakan hátt sem síðar tilkomnar ‘ÉG ER’ kristnihreyfingar tileinkuðu sér. Hugtakið vísar til þess þegar Guð svaraði Móse hver hann væri með orðunum, “Ég er sá sem ég er” 2M 3.14). ‘ÉG ER’ er nafn eða auðkenni Guðs. Þar með sagt vísar maðurinn til Guðs í sér með ávarpinu "'ég er', í bænum sínum.

Militz tók við af Hopkins látinni. Hún útfærði kenningar hennar og stofnaði miðstöðvar sem nefndust The Home of Truth (Sannleiksheimilið). Sem kristin kona trúði hún á upprisuna en féllst á að maðurinn þyrfti að endurfæðast oft í jarðneskum líkama til að þroskast og gera upp syndir sínar (karmaskuldirnar) áður en hann gæti risið upp til eilífs lífs.


‘ÉG ER’ REGLAN

Dag einn árið 1929 var maður að nafni Guy W. Ballard á fjallgöngu við Mount Shasta í Bandaríkjunum þegar á leið hans var maður sem kallaði sig Saint Germain (sem þýðir heilagi bróðir). Hann kvaðst vera uppstiginn meistari. Ballard fullyrti að St. Germain hefði valið hann til að verða sendiboði sinn og samstarfsmanna sinna í Hvítbræðralaginu. Hann vildi innleiða nýja og betri tíma og stuðla að andlegri fullkomnun mannsins hér á jörðu. Þar sem honum hefði ekki auðnast að finna boðbera í Evrópu hefði hann snúið sér til Ameríku. Leit hans hefði borið niður hjá Ballard.

Árið 1931 stofnaði Guy Ballard The I AM Movement ('ÉG ER' reglan) en nafnið og hugmyndafræðina má rekja til áðurnefndra áhrifa frá Ný-hugun. Hreyfing Ballards hefur haft ómæld áhrif á þróun guðspekinnar innan Bandaríkjanna fram á okkar dag. Ballard kvaðst reglulega taka á móti skilaboðum og fyrirmælum frá St. Germain og Jesú auk annarra vera sem Blavatsky hafði lýst sem drottnum sjögeislanna – þ.e. meistarar sem mest eru orðaðir við framþróun lífsins á jörðinni. Hann nafngreindi ýmsa aðra meistara helgivaldsins sem mæltu fyrir munn hans. Sumir þeirra væru sérstaklega tengdir Bandaríkjunum eins og frelssigyðjan sem frelsisstyttan við mynni New York borgar er kennd við. Föðurlandsást er einkennandi fyrir ‘ÉG ER’ regluna eins og Bandaríkjamönnum er títt.

Ballard gaf út á fjórða áratugnum mörg rit með fyrirmælum og leiðbeiningum Hvítbræðralagsins, auk rita með grunnkenningum, bænaáköllum og trúarsöngvum hreyfingarinnar. Hreyfingin breiddist út um Bandaríkin með trúarmiðstöðvum í öllum helstu stórborgum undir stjórn Ballards og Ednu konu hans. Eftir lát Ballards árið 1939 kom upp tilvistarkreppa og átök innan reglunnar.


LJÓSVITINN Á TINDINUM OG HEIMSKIRKJAN SIGURSÆLA

Næsti boðberi ÉG ER stefnunnar sem eitthvað kvað af hét Mark L. Prophet. Hann vildi ekki blanda sér i gömul deilumál svo að hann stofnaði árið 1958 hreyfinguna Summit Lighthouse (Ljósvitinn á tindinum) og innan hennar Heimskirkjuna (The Church Universal and Triumphant).

Að sögn birtist honum eitt sinn hvítklæddur austurlenskur maður að nafni El Morya sem kvaðst vera uppstiginn meistari. Hann kvaðst vilja gera Mark Prophet að boðbera Hvítbræðralagsins, sá sami sem Madame Blavatsky kvaðst hafa verið í sambandi við. Prophet hafnaði boðinu þar sem hann gat engan veginn samrýmt austurlenskri ásýnd og boðskap meistarans við djúpstæða trú sína á Jesú. Nokkrum árum síðar kveðst hann hafa gerst lærisveinn El Morya, St. Germains og Maríu guðsmóður eftir að hann hafði komist að raun um að meistarar Hvítbræðralagsins störfuðu í sama anda og Jesús. Um árabil hélt hann fyrirlestra um kristna og austurlenska dulspeki þar til að hann tók að birta boðskap Hvítbræðralagsins í tímaritinu The Pearl of Wisdom (Viskuperlan).

Árið 1963 giftist hann Elizabeth Clare Wulf. Hún hafði víða komið við í andlegri leit sinni og meðal annars verið félagi í trúarreglu Kristinna Vísinda hjá Mary Baker. Hún tók fljótlega að taka við boðsendingum meistaranna eftir stutta og einbeitta þálfun hjá Mark Prophet og meisturunum. Prophet hjónin sögðust fyllast heilögum anda þegar meistararnir taka að mæla boðskap sinn fyrir munn þeirra. Í þessu upphafna vitundaástandi halda þau fullri vöku sem ekki megi líkja við leiðsluástand miðlara sem andar dauðlegra manna mæla í gegnum.

Heimskirkjan byggir á þeim grunni sem meistararnir höfðu lagt með Guðspekifélaginu og ‘ÉG ER’ hreyfingunum. Þau komu einnig fram með nýjar kenningar frá meisturum sem upprunalega mæltu fyrir munn Blavatskys og Ballards. Prophet hjónin hafa verið leiðarar fyrir ýmsa aðra uppstigna meistara, suma vel þekkta innan ýmissa trúarbragða auk annarra minna þekktra.

Ævaforn trúarboðskapur mannkynsins er lagaður að þörfum nútímans með kristnum áherslum þar sem vestræn menning og trú er gegnsýrð kristnum gildum. Heimskirkjan boðar að betri tímar séu í nánd. Til að létta undir með fæðingarhríð móður jarðar inn í nýja tímann þurfi ljósberar allra landa að sameinast og hlýða kalli Jesú Krists og St. Germains um að hreinsa og græða lífið á jörðini af dreggjum fortíðarinnar. Á síðustu árum hefur Heimskirkjan tekið að breiða út boðskap sinn til annarra landa.


HEIMILDIR:

James R. Lewis R. Lewis & Gordon Melton (ed.). Church Universal and Triumphand In Scholarly Perspective. Journal of Alternative Religion and Culture. Center for Academic Publication. Stanford, California, 1994.