Stjörnuspeki spáir ekki fyrir um mannlega hugsun, hegðun né persónuleika Frá örófi alda hafa menn stuðst við gang himintunglanna til að skýra og spá fyrir um hin ýmsu fyrirbæri. Slíkar hugmyndir má rekja allt aftur til Babýlóníumanna, um 1000 árum fyrir Krist (Crowe, 1990). Grikkir tóku síðar upp hugmyndir Babýlóníumanna en bættu þeirri forsendu við að afstaða himintunglanna við fæðingu fólks gæti haft áhrif á persónuleika þess og framtíð (Crowe, 1990).

Staða sólar, borin saman við staðsetningu tólf stjörnumerkja á himninum, var talin hafa einna mest áhrif á persónuleika fólks (Gunnlaugur Guðmundsson, 1988). Í stjörnuspeki eru þessi stjörnumerki notuð sem heiti á stöðu sólar við fæðingu, og allir kannast við þau úr stjörnuspekidálkum dagblaðanna.

Fjölmargar rannsóknir hafa kannað hvort samband sé á milli persónueinkenna og stjörnumerkja fólks, og niðurstöðurnar benda nær allar í eina átt: Þekking á stjörnumerki fólks bætir að öllu jöfnu ekki forspá um persónuleika þess (Crowe, 1990). Þær örfáu rannsóknir sem benda til hins gagnstæða fá aðeins fram tengsl á milli stjörnumerkja og persónuleika hjá því fólki sem þekkir til stjörnuspeki (Crowe, 1990; Mayo, White og Eysenck, 1978; Rooij, 1994). Það virðist því vera að stjörnumerki ráði ekki persónuleika, heldur geti persónuleiki manna mótast í samræmi við trú manna á hvernig hann skuli vera (self-fulfilling prophecy).

Af hverju finnst þá mörgum að stjörnuspeki segi rétt til um persónuleika sinn? Þetta skýrist að öllum líkindum af svokölluðum Barnum-áhrifum (Gleitman, Fridlund og Reisberg, 1999), sem í stuttu máli er tilhneiging fólks til að finnast mjög almennar lýsingar, sem gætu átt við hvern sem er, eiga sérstaklega vel við um sig.
Í stuttu máli, stjörnuspeki er gervivísindagrein sem spáir ekki fyrir um mannlega hugsun, hegðun né persónuleika.

Calliope

—————-

Heimildir

Crowe, R. (1990). Astrology and the scientific method. Psycological Reports, 67(1), 163-191.

Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: W.W. Norton & Company Ltd.

Gunnlaugur Guðmundsson. (1988). Hver er ég?: Bókin um stjörnuspeki. Reykjavík: Iðunn.

Mayo, J., White, O. og Eysenck, H. J. (1978). An empirical study of the relation between astrological factors and personality. Journal of Social Psychology, 105(2). 229-236.

Rooij, J. J. F. van. (1994). Introversion-extraversion: astrology versus psychology. Personality and Individual Differences, 16, 985-988.