Orðablóm kærleikans.


Í kirkjunni sérðu sorgarinnar tómu, tárvotu augun, allra fallegu en ósögðu orðanna. Orðanna sem ég ekki sagði.Ég legg afskorin blóm, blóm dauðans á gröf þína, græt vegna orðablómanna sem ég gaf þér ekki meðan ég gat. Ég beið of lengi með að gefa þér kærleikans orðablóm , svo að nú færð þú bara eftirlíkingu allra fallegu orðanna sem ég ekki sagði en vildi sagt hafa. Hélt ég hefði nægan tíma en tíminn varð á undan mér. Eitt af þessu hef ég lært, með tárvot augu, gefðu orðablóm kærleikans meðan þú getur.Ekki bíða svo lengi að ég verði í gröfina komin , og gefa mér þá blóm, sem liggja á gröf minni eina andrá, næstu stund horfin. Gefðu mér frekar orðablóm, blóm sem fylgja mér áfram á nýjum stað um eilífð alla. Þá getur þú glaðst og brosað við gröf mína, vitandi að ég vissi og veit hug þinn og hjarta til mín, alltaf. Því þá veist þú að ég veit. Þá getur þú brosað gegnum tárin og glaðst með mér þó að ég sé flutt , en aldrei farin , því þú gafst mér orðablóm kærleikans. Ekki bíða svo lengi að þú þurfir að láta þér nægja afskorin blóm. Ef þú bíður of lengi þá veist þú ekki að ég veit , hug þinn og tilfinningar allar til mín. En þú veist ekki að ég veit, þess vegna situr þú með tárvot augu og sorg í hjarta við gröf mína , í stað þess að geta glaðst með mér og brosað gegnum tárin og þakkað fyrir öll árin og tímann sem áttum saman. Við vitum að ef við gefum öllum orðablóm kærleikans, þurfum við ekki að sitja í kirkjunni með tárvot augu , orðanna fallegu en ósögðu.

Kveðja agny.