Er vúdútrúin djöfladýrkun?

Eftir Pannox

Vúdú er fyrst og fremst stundað í Benin í Afríku og á Haiti, en einnig er talsvert um vúdúiðkun í New Orleans í Bandaríkjunum. Afbrigði af vúdú fyrirfinnast líka annarsstaðar og er trúin þá ýmist kölluð Santería, Macúmba, eða Candomblé.

Sú útgáfa af vúdú sem stundað er á Haiti varð til þegar þrælarnir frá Afríku voru neyddir til að taka kaþólska trú. Upphaflega stunduðu þeir fjölgyðistrú þar sem ýmiskonar náttúrukraftar og frummyndir eru persónugerðar, og þegar kaþólskunni var þröngvað upp á þá skiptu sumir þessara guða einfaldlega um nafn. Í kaþólskum sið er aðeins um einn guð, eða þrí-einan guð að ræða, en dýrlingarnir eru hinsvegar fjölmargir. Flestir þeirra eru verndarar einhvers tiltekins málefnis, Heilagur Kristófer er t.d. verndari ferðalanga og heilög Sesselja verndardýrlingur tónlistarinnar. Má því segja að hver dýrlingur standi fyrir ákveðna þætti í mannlegum reynsluheimi, menningu eða náttúrunni í kring. Það var því einfalt fyrir þrælana að “flytja” afrísku guðina á milli trúarbragðanna og halda áfram að dýrka þá undir yfirskyni kaþólskrar dýrlingadýrkunar og tilbeiðslu Krists og Maríu meyjar. Þannig varð þrumuguðinn Chango að verndardýrlingi hermanna, heilagri Barböru, og móðurgyðjan mikla, gyðja hafsins, Yemaya, varð að Maríu mey. Ennfremur sjá sumir Jesú Krist í guðinum Guede, eins og ég mun víkja að síðar.

Neikvæð ímynd
Vúdútrúin hefur ákaflega neikvæða ímynd meðal almennings og finnst mörgum hún vera ómerkileg og “lægra form” andlegrar iðkunar, eins og fram kom í miklum illindum hér á Huga á sumri liðnu. Þessa neikvæðu ímynd má rekja til atviks sem sagt er að hafi átt sér stað í Port-au-Prince í Haiti árið 1863. Lítil stúlka sem hét Claircine hvarf og Haitibúar leituðu að henni árangurslaust. Síðar kom í ljós að hún hafði verið myrt og étin af ofsatrúarfólki sem aðhylltist einhverskonar “djöfullega” vúdútrú. Fimmtán manns komu við sögu og voru þeir allir settir í fangelsi. Sex vikum síðar tók hópur af Haitibúum lög og reglur í sínar hendur og skaut glæpamennina til bana.

Ekki er víst að þetta atvik hafi raunverulega gerst, t.d. eru engar lagalegar skrár því til staðfestingar. En einhvernvegin magnaðist samt upp fjölmiðlafár, og sagan, sem var hugsanlega bara kjaftasaga til að byrja með, gaf ímyndunarafli blaðamanna og rithöfunda byr undir báða vængi. Kynþáttafordómar hjálpuðu til og þótti þarna vera komin enn ein staðfestingin á villimennsku svertingja. Allskonar ógeðsleg smáatriði bættust við söguna eftir því sem á leið, og á endanum töldu sig allir vita að vúdú væri ekkert annað en djöfladýrkun og fordæðuskapur. Bandarískur kvikmyndaiðnaður hefur svo bætt gráu ofan á svart.

Dans, trans og trumbusláttur
Orðið “vúdú” þýðir guð, eða andi. Eins og ég sagði áðan er hér um fjölgyðistrú að ræða; ótalmargir guðir koma við sögu og eru þeir af öllum stærðum og gerðum. Þessir guðir eru tilbeðnir með trumbuslætti og söng, ennfremur dansar fólk sig í hálfgert leiðsluástand í athöfnunum.

Að dansa sig í trans er aðferð sem er ekki einskorðuð við vúdú. Fólk var dansandi og greinilega í annarlegu ástandi í Laugardalshöllinni þegar sjónvarpspredikarinn Benny Hinn var þar með einhverskonar vakningarsamkomu fyrir fáeinum árum síðan. Er það hugsanlega ástæðan fyrir því að kraftaverk voru sögð eiga sér þar stað. Samkvæmt dulspekinni getur dans og tónlist “losað” um andlega orku, og þegar margir eru saman komnir í slíkri tilbeiðslu magnast upp mikill kraftur sem hægt er að nota til lækninga eða einhvers annars. Bænheitir bókstafstrúarmenn eru því ekki bara haldnir móðursýki, mætti ætla.

Í vúdú er þó gengið lengra en í kristnum sértrúarsöfnuðum. Hver guð á sína táknmynd, kölluð veve, sem venjulega er dregin með hveiti eða kornmjöli á jörðina áður en guðinn er ákallaður. Þessar myndir eru grundvöllur tilbeiðslunnar, þær eru tákn guðsins sem á að ákalla. Stundum eru matarfórnir settar á miðja táknmyndina, eða þá að hænu, og jafnvel stærri dýrum, er fórnað og blóðið látið falla þar á. Reyndar fórnar ekki allt vúdútrúarfólk dýrum, og sumir eru alfarið á móti slíkri iðju.

Áður en fólk byrjar að signa sig er rétt að minna á að blóðfórnir voru daglegt brauð í þeim heimi sem Gamla testamentið fjallar um, og jafnframt þykir sjálfsagt að dýrum sé slátrað svo við getum borðað. Við drekkum líka blóð Krists og etum hold hans á táknrænan hátt í altarisgöngu kirkjunnar. Þrátt fyrir þetta hafa Santeriaiðkendur í Bandaríkjunum (Santeria er kúbanska útgáfan af vúdú) lent í allskyns vandræðum út af dýrafórnum í trúarathöfnum sínum, verið stefnt af dýraverndunarsamtökum og þess háttar.

Tilgangurinn með matar – eða blóðfórnum er að beisla orkuna sem býr í hvoru tveggja. Samkvæmt dulspekikenningum þarf guðinn, sem er ákallaður, orku til að gera sig áþreyfanlegan, rétt eins og andar framliðinna þurfa kraft frá miðli til að ná sambandi við okkur.

Veröld hinna ósýnilegu
Fleira er talið nauðsynlegt til að guðirnir nái að stíga niður, og í vúdúathöfn eru allskonar táknrænar gjörðir til að brúa bilið á milli heimanna. Í athöfnunum sem eru iðkaðar í New Orleans eru oft teiknaðir svokallaðir vatnsvegir út frá hverri hlið táknmyndar guðsins sem verið er að ákalla. Í hinum efnislega, sýnilega veruleika eru þetta aðeins vatnsrákir á jörðinni, en í astralveröldinni, sem er heimur anda og guða, eru þetta táknrænir vegir sem guðirnir ganga á til okkar mannanna. Minnir þetta á hugmyndina um Bifröst í Ásatrúnni, regnbogabrúna sem guðirnir stíga upp eftir til Valhallar, eða þaðan niður til okkar mannanna.

Astralheimurinn, þar sem hinir ósýnilegu í Vúdútrúnni hafast við, er sá veruleiki sem reynt er í helgiathöfnum vúdútrúarfólks að tengja við mannlega skynjun. Vúdútrúin tengist þannig dulspekinni sterkum böndum, og samkvæmt vúdútrúnni hefur hver einstaklingur bæði líkama og sál, og yfirgefur sálin líkamann þegar maður deyr, en hún getur einnig farið burt um stundarsakir. Þetta eru engin nýmæli. Flestir kannast við allt dulræna fólkið sem heldur því fram að það geti “farið út úr líkamanum”. Stundum virðist ekki þurfa dulræna hæfileika til, því ef marka má frásögn margra venjulegra manneskja hafa ýmsir upplifað sálfarir. Í vúdú-athöfnum, er einmitt reynt að aðskilja sálina frá líkamanum, án þess þó að viðkomandi deyi. Sál þess sem tekur þátt í athöfninni skreppur bara frá af fúsum og frjálsum vilja. Á meðan koma hinir yfirskilvitlegu guðir og taka sér bólfestu í hinum sálarlausa, en lifandi líkama. Þannig geta guðirnir talað við fólk, læknað sjúka og gefið allskyns ráð.

E.t.v. hljómar þetta eins og ósköp venjulegur, íslenskur miðilsfundur, en þó er munur þar á. Hann felst í því að verurnar sem “koma í gegn” eru ekki einhver amma eða Elvis Presley, heldur kraftar sem tengjast ólíkum frummyndum. Þessir guðlegu kraftar eru fjölmargir eins og áður sagði, og heita oft kostulegum nöfnum. Margir þeirra eru titlaðir barónar, eins og Barón Samedhi, Mánudagsbaróninn, Barón Geidei, og Barón Zombí. Einnig verður að nefna snákaguðinn Simba, himnaguðinn Damballah, akuryrkjuguðinn Azaka og Papa Legba, sem er ætíð ákallaður fyrst, því hann er talinn opna hliðið á milli heimanna. Alltaf er einn prestur sem stýrir athöfninni og getur hún tekið marga klukkutíma.

Tilgangurinn með þessu öllu er að komast í snertingu við Æðri mátt, ekki að stinga prjónum í einhverjar dúkkur eins og margir halda. Helgiathafnirnar byggja á andlegum grunni og þannig séð eru þær ekkert frábrugnar þeim sem stundaðar eru í öðrum trúarbrögðum. Eini munurinn er sá að guðirnir heita öðrum nöfnum og tilbeiðsluformið er óheftara en við eigum að venjast.

Mystískar upplifanir
Hvað andsetningu varðar þarf hún ekki að þýða fullkomið meðvitundarleysi þess sem á í hlut. Raunverulegar trúarreynslur, eða “mystískar upplifanir” eins og guðspekingarnir kalla þær, virðast líka eiga sér stað í vúdúhelgiathöfnum. Um það ber Maya nokkur Deren vitni, en hún fór upphaflega til Haiti til að kynna sér framandi dansa, en heillaðist svo af vúdútrúnni að hún skrifaði fræga bók um hana, Divine Horsemen. Deren lýsir reynslu sinni þegar hún var “yfirskyggð” af Erzulie, vúdúgyðju ástarinnar, og lýsingar hennar eru mjög áþekkar þeim sem maður hefur heyrt að jógar verði fyrir í djúpri hugleiðslu.

Þess má geta að bengalski dýrlingurinn Sri Ramakrishna lagði á tímabili stund á helstu trúarbrögð mannkyns, þó ekki öll í einu! - og taldi sig komst að því að þau leiði á endanum að því sama, sem er eining við einhverskonar alheimslega vitund. Afhverju skildi það ekki einnig eiga við um Vúdútrúna?

Að mínu mati er vúdútrúin síst merkilegri en önnur trúarbrögð, og til að fara nánar í dýpri hliðar hennar ætla ég aðeins að fjalla um guðinn Guede, sem sumir líkja við Krist eins og ég greindi frá í upphafi. Guede er drottinn lífsins eilífa; getnaðar, fæðingar, dauða og tilvistar í öðrum heimi, og er oft málaður á veggi og striga sem maður á krossi. Krossinn er þrunginn táknrænni merkingu, lárétta lína hans stendur fyrir skilin á milli sýnilega heimsins og hins ósýnilega, en lóðrétta strikið merkir tenginguna á milli veruleikanna tveggja sitthvoru megin við lárétta strikið. Það má því líta á lóðréttu línuna sem leið frá hinu veraldlega til hins andlega og aftur til baka. Guede/Kristur á miðjum krossinum er þannig tákn um ódauðleika sálarinnar; að hún lifi líkamsdauðan af, eða rísi upp frá dauðum.

Guede er þó miklu alþýðlegri en Jesú, og þar sem vúdútrúarmenn líta á hann sem kraftinn á bak við getnað, getur hann verið ákaflega klúr og dónalegur þegar hann birtist í vúdúathöfnum. Hann glottir, segir klámbrandara og gerir at í þeim sem haldnir eru tepruskap. Þar að auki finnst honum romm gott og hann elskar vindla. Hann hefur mikinn gálgahúmor og heimtar að fá að vera í búningi útfararstjóra. Með látunum í sér er hann að undirstrika hverfulleika lífsins; að við erum getin með kynlífi en á endanum munum við þrátt fyrir allt deyja. Þessvegna er Guede stundum í þungu skapi, og þá setur hann venjulega upp sólgleraugu. Ef þetta er vúdúútgáfan af Jesú Kristi, þá er þetta furðulegur Jesú! Samt er þessi guð einn af þeim sem mest er beðið til. Hann er fæðingin, dauðinn, lífið og upprisan. Krossinn er efnislíkaminn sem deyr og rotnar, en maðurinn á krossinum hin ódauðlega sál sem rís upp frá dauðum.

Andatrú og íslenskir miðlar
Þó guðhræddir Íslendingar samþykki ekki þessa túlkun á Jesú, hlýtur að vera ljóst af því sem hér hefur komið fram, að vúdú er ekki eitthvert svartagaldursbull. Að vísu eru galdrar innan vúdútrúarinnar iðkaðir, og eitthvað af þeim hefur vissulega neikvæðan tilgang en auðvitað er ekki hægt að meta heil trúarbrögð eftir iðju nokkurra illmenna. Jákvæðu galdrarnir eru líka miklu algengari, en þar er reynt að ná sambandi við anda hinna framliðnu og þeir beðnir um greiða. Það er ekkert frábrugðið því sem íslenskir læknamiðlar stunda. Einar á Einarsstöðum var að eigin sögn í sambandi við tólf lækna að handan, sem fengu efnislegan kraft úr líkama hans svo að þeir gætu hjálpað fólki. Vúdú-galdrar ganga yfirleitt út á nákvæmlega það sama. Eini munurinn er sá að hver sem er getur verið verið í hlutverki miðilsins.

Í heild byggist vúdútrúin á litríkum goðsagnaheimi og helgisiðahefð, og margir sem stunda hana segjast komast nær Guði. Hvort andlegu upplifanirnar sem fólk telur sig verða fyrir í vúdúhelgiathöfnum séu “sannar” er svo annað mál. Hver og einn verður að gera upp við sjálfan sig hverju hann trúir; tilvist Guðs, guða, anda og þess háttar hefur eftir því sem ég best veit hvorki verið sönnuð né afsönnuð. Persónulega ætla ég ekki að taka afstöðu, tilgangur minn er einfaldlega að benda á að vúdú sé alls ekki “lægra form andlegrar iðkunar”, ekkert frekar en önnur trúarbrögð.