Síðan ég var lítil þá hefur mig dreymt draum sem gengur alltaf út á það sama þó aðstæður breytist. Mig dreymir að ég sé að hlaupa undan úlfum sem eru að reyna að ná mér. Oftast nær þegar ég vakna þá hafa úlfarnir verið um það bil að ná takmarki sínu.

Fyrsta drauminn sem ég man eftir, dreymdi mig þegar ég var 6-7 ára gömul. Þá var ég úti í garði að leika mér með systur minni í heimabæ okkar og við vorum með hund sem við vorum að passa. Í garðinum var kofi sem við höfðum byggt. Allt í einu sáum við tvo úlfa koma hlaupandi til okkar og systir mín hljóp inn í húsið en ég náði ekki að hlaupa á eftir henni svo ég klifraði upp á kofann. Þá mundi ég eftir hundinum sem ég var með og hvatti hann til þess að hlaupa inn til systur minnar. Um það leyti þarna vaknaði ég þegar úlfarnir voru komnir að kofanum mínum, og ég held að hundinum hafi tekist að komast inn.

Aðrir draumar hafa oftast verið á þann veg að úlfar reyna að komast inn í hús sem ég er í, og vitað var að ef þeir komust inn þá var út um okkur. Sumir draumar hafa verið þannig að ég er úti í skógi eða á víðavangi og á flótta frá úlfum. Stundum er einn úlfur en oftast eru þeir margir.

Mig dreymi þessa drauma af og til, 1-2 á ári. Nú er um ár síðan mig dreymdi síðasta drauminn. Hann var ögn frábrugðinn hinum draumunum því þá var ég ekki á hlaupum. Draumurinn var þannig að ég var úti að ganga í úthverfi með vini og það var skógur við úthverfið. Við komum að húsi með sólpalli og var lokað af með rennihurð. Þangað fórum við og sáum að rennihurðin var opin. Síðan sáum við tvo úlfa koma skokkandi og eigandinn kom og fór með okkur inn og lokaði hurðinni á eftir sér. Úlfarnir stoppuðu um tvo metra frá hurðinni og biðu bara. Eigandinn sagði að allt væri óhætt nema ef úlfarnir kæmust inn, og þá eins gott að hafa hurðina lokaða.

Takmarkið með greininni er ekki bara að segja frá draumum mínum, heldur líka að það er boðskapur í þeim. Fyrir um tveim árum var ég orðin mjög forvitin hvað þýddi fyrir mig að dreyma þessa drauma svo ég spurði frænku mína sem er miðill um draumana. Hún sagði mér að þegar mig dreymi þessa drauma þá er draumurinn aðvörun. Þá átti ég að fara varlega í að kynnast karlmönnum á þessu tímabili og vera ekkert að hleypa þeim að mér.

Hún sagði líka að ég hefði sennilega dáið í fyrra lífi við að úlfar dræpu mig. Hún dreymir stundum um að hún sé brennd í báli og í einu lífi hennar var hún brennd á báli, 14 ára gömul tatarastelpa, og hún túlkar drauminn sinn sem svo að hún eigi að passa sig á að rífast ekki við fjölskyldu sína eða vini. Hún sagði líka að oft birtist sterk lífsreynsla frá fyrri lífum, í draumum sem aðvörun og í mínu tilfelli eru það úlfarnir og í hennar tilfelli er að vera brennd á báli.

Takk fyri
Brostu framan í heiminn og þá mun heimurinn brosa við þér.