Mér finnst mjög merkilegt að hlusta á fólk sem þykist hafa skyggnigáfu og slíkt tala um “orku” og “strauma”, “árur” og “fylgjur” og svo framvegis.

Hvaðan fær fólk þessi orð, og hvað segir því að þessi orð eigi við um það sem þau vilja meina að þau upplifi?

Svo ekki sé talað um það þegar fólk vill meina að ákveðinn fjöldi, ákveðinnna bæna, sé akkúrat nægilegur til að reka á brott drauga, eða þegar einhver segir að einhver fjörusteinn geymdur á réttum stað hafi óskaplega mikil áhrif á “orkujafnvægið milli heima” eða eitthvað álíka.

Það er til ógrynni af misgóðum bókum sem eiga að vera skrifaðar í transi eða undir handleiðslu anda og framliðna, og eru margar hverjar stútfullar af uppskálduðum fræðiheitum og mælieiningum. Eða ægilegum fyrirlestrum um afleiðingu þess að bægja frá sér þessum og hinum “orkum”, nota “innri frumkraft” og fleira í þessum dúr.

Ég hef gluggað í nokkrar svona bækur og það sem mér finnst mest slándi við til að mynda ritin sem t.d. þróunarheimspeki-fólkið er að lesa, er að þar eru ógrynni óljósra skilgreininga á hugmyndum og hugsunum sem umsvifalaust hljóta einhvert nafn eins og “alpha orka” eða álíka háfleygt.

Ég ætla að gefa mér hér að það sé einhvert líf eftir dauðann og það gildi ýmis lögmál hjá öndum sem eru okkur framandi. Og ég ætla að einnig að gefa mér að það séu til miðlar og skyggnt fólk.

Mér þykir líklegt að ef manneskja dayr og fer í framhaldi af því að þvælast á efnislausu formi í kringum fólk og hlýði jafnvel kalli miðla, að þá sé viðkomandi ekkert ofsalega frábrugðin sér í lifandi lífi, sérstaklega þar sem menn tala oft um að framliðnir séu að hafa áhyggjur af hinum smávægilegustu hlutum hjá lifandi ættingjum.

Mér þykir það alger óþarfi að missa sig út í hjátrú og bullfræði þó að eitthvað komi fram á sjónarsviðið sem stingur í stúf við núverandi skilning vísindamanna á heiminum. Þegar vísindamenn ramba á eitthvað nýtt eru settar fram kenningar og allt reynt til að heimfæra það á þau lögmál sem menn eru sammála um að gildi, ef það gengur ekki fara þeir að reyna að átta sig á því í hverju mismunurinn liggur og hvort breyta þurfi skilgreiningunni á lögmálinu.

Ef við gefum okkur að draugar séu á sveimi og sumir sjái þá en aðrir ekki, þá finnst mér ekkert að því að ræða það á hinn jarðbundansta hátt.

Jói: “heyrðu, ég sé drauga, og amma mín sálug situr hérna og blaðrar upp í eyrað á mér”
Gunna: “já hvað segirðu, geturðu spurt hana afhverju ég sjái hana ekki og beðið hana að skipta um stöð á sjónvarinu, því hún situr nær”

En ekki allt þetta með að þá sé ójafnvægi á spectral sviðinu og tíu vígðir biskupar verði að mæta og aðstoða kerlu við að brjótast í gegnum orkusviðið milli andaheims og himnaríkis.

Ef allir tækju þessum hlutum með sömu ró og þegar ný djúpsjávar fiskategund finnst eða þegar uppgötvanir verða á sviði stjarneðlisfræði væri kannski hægt að ræða þessa hluti af einhverri skynsemi, og þá myndi kannski ekki einangrast einhver hópur af fólki sem leitar skjóls hjá hvoru öðru með hversu skrítið það sé að finnast heimsmyndin ekki rúma sínar upplifanir.

Hvað finnst ykkur?