Eftir Jónas Sen

Fræga fólkið í Bandaríkjunum er ekki bara á kafi í Kabbalisma, dulhyggjuhefð Gyðinga, eins og fram hefur komið hér á Huga. Fyrir ekki svo löngu síðan bárust þær fréttir að Pamela Anderson hefði gengið í dularfullan sértrúarsöfnuð í Kaliforníu, sem stofnaður var af Indverja nokkrum. Þetta var eftir tímabundinn skilnað við Tommy Lee, sem var óhjákvæmileg afleiðing þess að Pamela hafði komið að honum í dónalegum faðmlögum við einhverja ljósku. Fréttin var í Mogganum, og með henni var mynd af Pamelu með stút á munninum, á leið upp tröppur að einhverju sem ekki sást.

Ef ég man rétt var sagt í Mogganum að meðlimir safnaðarins kyrjuðu nafn Guðs án afláts. Einnig var minnst á byggingarframkvæmdir guðsfólksins, og að fyrirhuguð væri bygging risamusteris sem ætti að kosta eitthvað stjarnfræðilegt og óguðlegt. Svo væntanlega hafa margir hugsað með sér að nú væri Pamela lent í slagtogi við fjárplógsmafíu, sem blekkti fólk með því að selja þeim ómerkilegar hugleiðsluaðferðir, fyrirskipa skírlífi, banna sundboli og annað í þeim dúr.

Þessi dularfulli söfnuður er sem betur fer ekki þannig. Hann nefnist Self-Realization Fellowship, og var stofnaður í Kaliforníu árið 1920. Margir íslendingar eru í félaginu, sem kennir svokallað Kriya-jóga í gegnum bréfaskóla. Fæstir meðlimirnir kyrja nafn Guðs daginn út og daginn inn, eins og sagt var frá í Mogganum, og eiginlega er ekkert dularfullt við þetta félag - hvað þá að það sé sértrúarsöfnuður. Ég ætti að vita það, vegna þess að ég var einu sinni í því sjálfur. Aldrei var ég beðinn um að söngla Guð, Guð, Guð í tíma og ótíma, vera með starandi augnaráð og almennt haga mér eins og geðsjúklingur. Og lexíurnar sem komu vikulega í póstinum kostuðu sáralítið - reyndar miklu minna en Mogginn kostar. Enda er engin fjárplógsstarfsemi í Self-Realization Fellowship eins og ráða mátti af umræddri frétt; fjárhagsáætlunin sem þar var gefin upp var ýkt, og hafði a.m.k. einu núlli verið bætt við upphaflegar tölu.

Self-Realization Fellowship var stofnað af jógameistaranum Paramahansa Yogananda. Hann var fæddur árið 1893, sama ár og annar jógi - Swami Vivekananda - hélt frægt erindi á fyrsta heimsþingi allra trúarbragða sem átti sér stað í Bandaríkjunum. Það var mikill viðburður í sögu andlegra fræða, því Vivekananda var fyrsti jóginn frá Indlandi sem kom til Vesturlanda að kynna heimspekina á bak við jógaiðkun. Yogananda fetaði síðar í fótspor hans; hann flutti til Bandaríkjanna árið 1920 og stofnaði í Kaliforníu Self-Realization Fellowship, sem í dag eru ein þekktustu jógasamtök heims.

Yogananda naut góðs af því að Vivekananda hafði farið á undan honum og brotið ísinn. Í þá daga voru Vesturlandabúar ekki mjög móttækilegir fyrir andlegum fræðum; efnishyggjan var í algleymingi og því mikið afrek að vekja áhuga almennings á þessum málum. Vivekananda tókst það og lyfti þar með Grettistaki. Fólk horfði líka eftir honum hvar sem hann fór; hann var með vefjarahött og mælskari en sjálfur Kölski. Vitsmunir hans voru ofurmannlegir, hann hafði gífurlegt minni og las hraðar en gengur og gerist. Einhverju sinni er hann lá veikur og hafði ekkert að gera, tók hann upp á því að lesa 30 binda alfræðirit. Vinur hans, sem kom í sjúkravitjun, varð starsýnt á bókastaflana við rúmið hans, og hafði á orði að það hlyti að taka heila mannsævi að lesa þetta allt. Vivekananda sagðist þá vera hálfnaður með ellefta bindi. Vinurinn trúði því ekki, tók upp eitt af bindunum ellefu, fletti einhverju upp af handahófi, og spurði sjúklinginn út úr. Og varð dolfallinn, er hann gat ekki aðeins svarað rétt og skilmerkilega, heldur vitnað orðrétt í textann.

Jógaaðferðin sem Pamela Anderson hefur verið bendluð við nefnist Kriya-jóga, eins og áður hefur komið fram. Það er blanda af ýmsum jógaaðferðum en er þó heilsteypt iðkunarkerfi í sjálfu sér. Það er bæði íhugunartækni og líkamsrækt og þykir henta Vesturlandabúum sérlega vel. Aðferðin er geysilega áhrifarík og þarf ekki að iðka hana langan tíma dag hvern. Því er hún tilvalin leið fyrir fólk sem vill lifa andlegu lífi án kvalræða og sjálfspíningar. Hin ýmsu Jógahugleiðslukerfi krefjast nefnilega oft alls kyns meinlætalifnaðar; maður verður að hætta að borða kjöt, hætta að lifa kynlífi, hætta að drekka kaffi, vera síbrosandi, væminn í hugsun, vera með allskyns slagorð á takteinunum og óþolandi leiðinlegur. Ég gleymi því aldrei þegar ég fór á vakningasamkomu og hugleiðslunámskeið hjá Ananda Marga, sem er jógafélag með starfsemi víða um heim, þar á meðal hér á landi. Þá var ég tólf ára gamall, og fólkið á samkomunni virtist vera á annarri plánetu. Það var eitthvað svo friðsælt og háleitt á svipinn, og hafið yfir allt hversdagslegt. Ef maður sagði eitthvað, svaraði fólkið bara með umburðarlyndu og skilningsríku brosi. Jógakennarinn spurði mig hvort ég hefði áhuga á hugleiðslu, sem var undarleg spurning, því hvað er maður að gera á hugleiðslunámskeiði hjá Ananda Marga ef maður hefur engan áhuga á hugleiðslu? Svo ég svaraði bara nei, og í mörg ár á eftir hafði ég ímugust á jóga. Fólkið sem stundaði það virtist vera sí-prumpandi baunaætur; það var plöntufólk og kálhausar sem starði dreymandi á ósýnilegan punkt á veggnum, og sagði svo eitthvað á borð við: “Þegar þú getur ekki verið með þeim sem þú elskar, elskaðu þá þann sem þú ert með”. Eða þá: “Slepptu þeim sem þú elskar út úr búrinu, og hann kemur aftur til þín ef hann á að vera hjá þér.” Og svo kom skilningsríkt bros, og dreymandi augu sem sáu handan við allt veraldlegt og fánýtt.

Jógahugleiðsla verður auðveldlega að fíkn eins og hvað annað. Fíknin hefur mörg andlit, og fátt er eins ömurlegt eins og þegar hún heltekur vini manns. Bertram Russel sagðist eitt sinn hafa misst marga vini sína í klær meginfíknanna þriggja, sem eru áfengi, skák og trúariðkun, og þegar ég var táningur missti ég nokkra vini í klærnar á Ananda Marga, og öðrum trúfélögum. Það var ekki það að ég væri þröngsýnn - en þegar vinirnir fóru að afneita heiminum og predika af sannfæringu, var komið nóg.

Samt er jóga að mörgu leyti heillandi. Hver vill ekki upplifa innri frið, betri einbeitingu, góða heilsu og almennt andlegt jafnvægi? Við fyrstu sýn virðist það þó vera keypt dýru verði. Vinkona mín fór eitt sinn á hugleiðslunámskeið hjá Sri Chinmoy samtökunum, það var mjög fróðlegt og gagnlegt, en í síðasta tímanum var fólki sagt að það þyrfti helst að hætta að lifa kynlífi til að þroskast andlega. Hver vill það? Það er eins og að selja skrattanum sál sína. Svo engan skildi undra þótt fólk hafi fremur neikvæða ímynd af jógahugleiðslu.

Að vísu hefur þetta eitthvað verið að breytast á undanförnum árum. Nú er jóga kennt í Kramhúsinu og víðar, en það er aðallega líkamsrækt - ekki hugleiðsla. Trúlega varð jóga fyrst vinsælt þegar Kripalu-jóga var kynnt hér á landi; á þeim tíma var nýaldarhreyfingin hvað sterkust, og Kripalu-jóga er praktískt líkamsræktarkerfi með nýaldarlegu ívafi. Aðalforsprakki Kripalu-jóga er ógurlega sætur náungi með mikið flírubros, sem heitir Yogi Amrit Desai, betur þekktur sem Gurudev. Hann var mikið dýrkaður af kvenþjóðinni, enda flykktust konur á Kripalunámskeið til að berja jógahönkið augum, sem var í lendarklæði og stóð á haus. Svo var hann enn meira sjarmerandi fyrir þær sakir að hann kvaðst ekki lifa kynlífi; hann átti konu, en það samband var bara platónískt. Eða eins og einhver sagði: Allt í Plató! Kannski var “frelsum homman syndrómið” eitthvað þarna á ferðinni í bjagaðri mynd - hver kannast ekki við goðumlíka hommann sem konur reyna að “frelsa” með því að snúa þeim frá meintri villu?

Gurudev fór óskaplega í taugarnar á mér. Það voru myndir af tannkremsbrosinu hvert sem farið var. Meira að segja á náttborðinu hjá sjálfskipuðum nornum, sem maður fór heim með af balli í góðri trú. Svo þegar fréttist að Gurudev væri ekki alveg sá heilagi maður frá Austurlöndum sem hann þóttist vera, átti sæg af hjákonum og hafði farið illa með þær flestar - og var rekinn frá samtökunum með skömm, varð ég svo glaður að mér fannst ég geta flogið. Þetta vissi maður allan tíma; það var eitthvað bogið við nýaldargúrúinn vemmilega. En þrátt fyrir það er Kripalu-jóga ágætt jógakerfi sem getur vafalaust bætt líðan þeirra sem það iðka. Það er bara gúrúinn sem reyndist ekki vera fullkominn - en margar konur hafa svo sem bara glaðst við það. Loksins tókst að frelsa hann - hann áttaði sig á því á endanum að kynlíf væri miklu betra en hugleiðsla.

Kynlífsbindindi eða stóðlífi er ekki til umræðu þegar Kriya-jóga iðkun er annarsvegar. Að vísu eru margir Kriya-jóga meistarar munkar, en það er ekkert skilyrði til að ná langt í iðkuninni. Lahiri Mahasaya, sem uppi var á öldinni sem leið og var einn helsti Kriya-jógameistarinn, átti fjöruga eiginkonu og börn; hann lifði eðlilegu lífi og var venjuleg skrifstofublók. Um leið var hann andans maður sem framkvæmdi kraftaverk, sveif um í loftinu og gat birst á tveimur stöðum í einu. Sá sem iðkar Kriya-jóga getur því átt venjulega tilveru og um leið komist upp í hæstu hæðir andlegs þroska, verið heilsuhraustur og ánægður með lífið í allri sinni fjölbreytni. Iðkunin hefur djúpstæð áhrif á hvern þann sem stundar hana af einlægni; þeir sem til þekkja segja að neikvæðar venjur hverfi smátt og smátt og maður finni frið og hamingju innra fyrir sér.

Kriya-jóga samanstendur af fjórum aðferðum. Í fyrstu aðferðinni eru orkustöðvarnar í mænunni og heilanum vaktar upp, og líkaminn hleðst upp af orku. Önnur aðferðin er hatha-jóga tækni, en hatha-jóga er sú grein jógaiðkunar sem samanstendur af líkamsæfingum. Æfingin sem stunduð er í Kriya-jóga heitir Mahamúdra; hún er geysiöflug æfing sem nuddar líffærin og styrkir helstu vöðva. Þriðja aðferðin er öndunar - og einbeitingaræfing, sem hefur það að markmiði að vekja upp hina svokölluðu kúndalíní-orku. Fjórða æfingin er einnig öndunaræfing, en er til þess að losa viðkomandi við “neikvæð áhrif stjarnanna”.

Tvennt þarfnast nánari útskýringar. Annarsvegar hvað Kúndalíní-orkan eiginlega er, og svo þetta varðandi “neikvæð áhrif stjarnanna.” Byrjum á hinu fyrrnefnda. Jógarnir segja að Kúndalíní sé gífurlegur, andlegur kraftur sem getur vaknað í okkur og kemur þá inn í gegnum orkustöðina í mænurótinni. Kúndalíni er orkan á bak við dulræna hæfileika; skyggnt fólk hefur kúndalíni að einhverju leyti vakandi, og þegar hún vaknar til fulls verður einhverskonar hugljómun, trúarleg eða “mystísk” upplifun - eins og guðspekingarnir eru alltaf að tala um.

Um Kúndalíní er fjallað í einni af merkilegri bókum sem hefur verið skrifuð um Jóga, “Kundalini - The Evolutionary Energy In Man”. Þessi bók er sjálfsævisaga Indverja að nafni Gopi Krishna, en hann var ósköp venjulegur maður á yfirborðinu. Það sem gerði hann óvenjulegan var reynsla hans af Kúndalíní. Kúndalíní er sanskrítarorð sem þýðir “hinn hringaði”, og er þá átt við snák, eða slöngu. Snákurinn er sofandi, er úr eldi, og er hér auðvitað um táknmynd að ræða. Kúndalíní er andlegur kraftur eða eldur, og þegar hann vaknar, getur hann orðið hættulegur, þ.e. ef maður hefur ekki undirbúið sig með heilbrigðum lifnaðarháttum, eins og jóga-æfingum og öðru. Líkaminn verður nefnilega að þola orkuna, en það er ekkert sjálfgefið. Frægur dulspekingur var einhverntímann spurður: “Myndi ég vita af því, ef Kúndalíní færi í gang í mér?” Svarið var þetta: “Já, þú myndir vita af því, og ef þú værir ekki tilbúinn, myndi geðlæknirinn þinn vita af því líka!” Um allt þetta fjallar bókin eftir Krishna, en honum tókst óafvitandi að vekja eldsnákinn og gat síðan ekki svæft hann aftur.

Krishna lagði stund á jóga hugleiðslu, og iðkaði hana á hverjum morgni í mörg ár. Hugleiðslan fólst í því að sita á gólfinu með krosslagðar fætur og vera beinn í baki. í þessari einföldu stellingu einbeitti hann sér að ímynduðu, hvítu lótusblómi rétt fyrir ofan höfuðið, og reyndi að halda athyglinni þannig eins lengi og hann gat. Þetta hafði hann gert í mörg ár, en einn morgun árið 1937, vaknaði Kúndalíní og Krishna varð aldrei samur eftir það.

Lýsingin í bókinni er mergjuð. Á meðan Krishna var að hugleiða fann hann allt í einu fyrir undarlegri, rafmagnaðri, en samt þægilegri tilfinningu við mænurótina sem eðlilega truflaði hann frá því sem hann var að gera. Um leið og hann hætti að einbeita sér að lótusblóminu fór þó tilfinningin, svo hann taldi að hún hefði bara verið ímyndun. Hann hélt því áfram sem fyrr, en þá gerðist fyrirbærið aftur. Þessi skrýtna skynjun hvarf samt um leið og hann hætti að hugsa um blómið, svo nú virtist greinilegt að það var hugleiðslan sem hafði hin undarlegu áhrif. Hann ákvað því að halda áfram að sökkva sér niður í innri frið, láta ekkert trufla einbeitingu sína og sjá hvað myndi gerast. Þá blossaði rafmagnaða tilfinningin upp, jókst, og reis svo upp mænuna með hávaða sem helst líktist fossnið. Síðan var eins og hann sæi ljós inn í höfðinu á sér sem varð fljótlega eins og blindandi sól, en þá var hávaðinn orðinn bókstaflega ærandi. Um leið fannst honum sem hann ruggaði til og frá, en svo fór hann út úr líkamanum og sveif upp. Í bókinni segir Krishna að það sé erfitt fyrir hann að lýsa þessari reynslu almennilega. Hann upplýsir þó að vitund sín hafi víkkað út yfir öll mörk, og að líkaminn, sem venjulega sé stærstur hluti sjálfsvitundarinnar, hafi “minnkað niður í örsmáan punkt”. Nú var hann bara hrein vitund, baðaður í hafsjó af ljósi, og í upphöfnu, óviðjafnanlegu hamingjuástandi.

Eftir nokkra stund kom hann niður aftur og var þá yfirkominn af þreytu. Hann var allan daginn að jafna sig, en morguninn eftir upplifði hann sama fyrirbærið á ný, þó ekki alveg eins sterkt og áður. Þegar því var lokið var hann enn uppgefnari, og hófst nú skelfileg martröð. Fyrir slysni hafði hann nefnilega vakið upp Kúndalíní kraftinn í líkama sínum, en þar sem hann var ekki undir það búinn varð hann fárveikur. Honum fannst eins og hann logaði allur að innan og gat því nánast ekkert sofið. Mjög lengi á eftir var hann andlegt og líkamlegt hrak, en svo fór, að hann jafnaði sig smám saman. Það þakkaði hann fyrst og fremst ströngu, reglulegu mataræði og almennt heilbrigðu líferni. Þannig tókst honum á endanum að aðlagast orkuflæðinu, og gat þá að skaðlausu farið í alsæluástandið hvenær sem hann vildi.

Takmark Kriya-jóga iðkunar er að vekja upp Kúndalíní. En aðferðin er þannig að orkan vaknar ekki skyndilega, heldur smám saman. Það er því ólíklegt að maður verði fyrir þeirri ógnvænlegu reynslu sem Gopi Krishna lýsir í bók sinni. Kriya-jóga mun vera algerlega hættulaust, segja þeir sem til þekkja.

Hvað varðar “neikvæð áhrif stjarnanna”, sem Kriya-jóga iðkun á að geta hreinsað burt, þá er kenningin sú að stjörnukort manns sýni neikvætt og jákvætt karma. Karma er sanskrít og er venjulega haft um lögmál orsaka og afleiðinga, sem nær út yfir mörk lífs og dauða. Ef maður er voða vondur í þessu lífi lendir maður í vondum málum í næsta lífi, og öfugt. Svo er líka til “instant karma” - sem er það sama, nema afleiðingarnar gerast samstundis, og er í sjálfu sér ekkert dularfullt við það. Maður sparkar í hund og hann bítur mann á barkann, ekki í næsta lífi heldur umsvifalaust.

Kriya-jóga á rætur sínar að rekja til Indlands, þar sem endurholdgunarkenningin er í hávegum höfð. Stjörnuspekin er líka mjög útbreidd, en þess ber að geta að indversk stjörnuspeki er töluvert frábrugðin þeirri vestrænu. T.d. er stuðst við dýrahringinn eins og hann er í alvörunni úti í geimi, sem þýðir að þann 21. mars er sólin ekki á núll gráðum í Hrút heldur u.þ.b. Sjö gráðum í Vatnsbera. Sömuleiðis eru Plútó, Neptúnus og Úranus eru ekki notaðar, afstöðurnar á milli plánetanna eru reiknaðar út á allt annan hátt, o.s.frv. Til gamans má geta að á Indlandi styðst fólk í makaleit enn þann dag í dag aðallega við stjörnuspeki, og er gjarnan farið að á eftirfarandi hátt: Auglýsing er sett í einkamáladálk dagblaðs, og hljómar hún einhvern vegin svona: “24 ára gömul kona er að leita sér að manni. Er vel menntuð og falleg og bla bla bla. Áhugasamir vinsamlega sendi stjörnukort sín.” Svo berast hundrað stjörnukort, og konan fær þá stjörnuspeking til að fara yfir þau, og bera þau saman við hennar eigið. Af kortunum hundrað eru kannski tíu sem “passa”, og hún skrifar þá þessum tíu og biður þá að senda mynd. Svo hringir hún í þann myndarlegasta og býður honum í bíó.

Í indverskri stjörnuspeki eru alltaf tvær plánetur virkar á hverju tímabili, sem getur varað frá nokkrum mánuðum upp í tuttugu ár. Ef önnur eða báðar plánetur eru illa staðsettar í stjörnukortinu, í slæmum afstöðum og í vondu merki eða húsi, má búast við að allskyns hörmungar dynji yfir. Það er þetta sem átt er við með “illum áhrifum stjarnanna”.

Kriya-jógarnir staðhæfa að hið raunverulega stjörnukort sé inn í hryggnum, í orkustöðvunum. Fyrir þá sem ekki vita eru orkustöðvarnar venjulega sjö, í mænurótinni, við kynfærin, magann, hjartað, hálsinn, í miðju höfðinu (oft kölluð ennisstöðin) og á hvirflinum. Merkið sem tunglið er í er alltaf ennisstöðin. Svo ef maður er með tungl í Vatnsbera er Vatnsberinn í ennisstöðinni. Fiskurinn er þá í hálsstöðinni, Hrúturinn í hjartastöðinni, og þannig koll af kolli niður að framan og upp að aftan, uns komið er í ennisstöðina á ný.

Í Kriya-jóga eru orkustöðvarnar hreinsaðar á ákveðinn hátt, og skolast þá ill áhrif stjarnanna smám saman burt í leiðinni. Auðvitað getur enginn umflúið örlög sín, en Kriya-jóga mun hjálpa mikið til að lífið verði bærilegra en áður.

Lahiri Mahasaya, jóginn sem gat birst á tveimur stöðum í einu og fyrr hefur verið nefndur í þessari grein, átti marga lærisveina, og urðu sumir þeirra miklir jógar. Þar á meðal var Sri Yukteswar, en hann var lærifaðir Yogananda sem stofnaði áðurnefnt jógafélag, Self-Realization Fellowship.

Á Vesturlöndum á fyrstu áratugum þessarar aldar þótti Jóga mjög nýstárleg fræði. Er Yogananda byrjaði að kenna Kriya-jóga í Bandaríkjunum einfaldaði hann aðferðina til að sníða hana betur að þörfum, getu og hugarástandi Vesturlandabúa. Frumtæknina var bara hægt að læra á Indlandi, þó líklegt sé að Yogananda hafi kennt fáeinum útvöldum hana líka. Hún er nefnilega nokkuð flókin og því ekkert skrýtið að fólk hafi ekki verið tilbúið fyrir hana á þessum tíma. A.m.k. er hún töluvert frábrugðin og mun viðameiri en sú sem venjulegir einstaklingar lærðu í bréfaskóla Yogananda, og gera reyndar enn þann dag í dag.

Til eru þeir sem telja að óeðlilegt sé kenna jóga með því að senda lexíur í pósti; ekki sé hægt að nema slík fræði öðruvísi en beint frá hugljómuðum meistara. Jóganám sé eins og að læra á hljóðfæri, og þar skipti kennarinn afar miklu máli. Hann verði að vera til staðar - ekki sé nóg að hann sendi manni bara vel orðuð, háleit bréf. En Yogananda varð að grípa til þessa fyrirkomulags á sínum tíma, og hefur væntanlega talið að það væri fyrir bestu eins og málin stóðu þá.

Þeir sem komu til Sri Yukteswars á Indlandi fengu beina, persónulega tilsögn í upprunalegu Kriya-jóga aðferðinni. Hið sama var uppi á teningnum hjá öðrum lærisveinum Lahiri Mahasaya, svo Vesturlandabúar sem á árum áður vildu nema fræðin í sinni réttu mynd urðu að leggja land undir fót og ferðast til Indlands. Það var nefnilega ekki fyrr en árið 1974 að jógameistari að nafni Swami Hariharananda Giri kom í heimsókn til Evrópu, og byrjaði að kenna frumtæknina þar. Hann er talinn vera einn mesti jógi samtímans, og var þar til fyrir skemmstu eini lærisveinn Sri Yukteswars enn á lífi. Hariharananda lést fyrr á þessu ári.

Hariharananda var einn af fáum jógum sem gat farið í Nirvikalpa Samadhi. Það er æðsta hugleiðsluástandið og aðaltakmark allrar jógaiðkunar, en þá er eldsnákurinn Kúndalíní að fullu vaknaður. Kenningin á bak við Nirvikalpa Samadhi er sú, að tilgangur lífsins sé að finna Guð, sannleikann eða hvað sem það nú kallast. Það sé mjög erfitt, því allt mögulegt glepji mann og tæli. Jógarnir segja að í raun og veru séum við sofandi; hin efnislega veröld sé bara blekking - hún virðist vera raunveruleg, en sé það samt ekki. Rétt eins og draumaheimurinn verður að engu þegar maður vaknar, þá upplifir jóginn svipað ferli gagnvart hinum sýnilega heimi er hann hugljómast. Þetta er það sem kallað er Nirvikalpa Samadhi. Nirvikalpa Samadhi á að vera læknifræðilega ómögulegt, vegna þess að hjartað hættir að slá, viðkomandi hættir að anda - klukkutímunum saman. Svo vaknar jóginn aftur úr ofurtransinum, hjartað byrjar að slá á ný og líkamsstarfsemin er þá fullkomlega eðlileg. Samkvæmt þessu var Hariharananda læknisfræðilegt frík, en fjöldi fólks, þar á meðal virtur taugasérfræðingur á Indlandi, var vitni að “dauða og upprisu” Hariharananda, oft og mörgum sinnum.

Tveir lærisveinar Hariharananda komu til Íslands vorið 1996. Þeir eru ekki komnir alveg jafn langt í iðkuninni og Hariharananda, og engum sögum fer af dauða og upprisu þeirra. Þeir eru samt miklir jógar, og uppvakningurinn hugljómaði sendi þá árlega víða um heim til að halda námskeið í Kriya-jóga. Á námskeiðinu hér á landi tóku um fimmtíu manns þátt. Annar jóganna kom svo aftur vorið 1997, og var aðsóknin þá engu minni. Eftir það hafa einhverjir þessara jóga komið hingað til lands einu sinni til tvisvar á ári, nú síðast fyrir um mánuði síðan.

Þó Hariharananda sé fallinn frá halda lærisveinar hans áfram að kenna Kriya-jóga, og sá sem öllu stjórnar núna er Paramahansa Prajnananada Giri. Hann hefur komið hingað til námskeiðahalds a.m.k. tvisvar. Flestir sem hafa tekið þátt í þessum námskeiðum virðast nokkuð ánægðir; samkvæmt sumum þeirra er kriya-jóga byrjun á nýju lífi, með hugljómun og Kúndalíní-upplifunum á klukkutíma fresti. En það besta er, að maður losnar á endanum við bölvaðan Satúrnus og aðrar illgjarnar plánetur í mænunni og himingeimnum. Og það er nú þó nokkuð.