Í gegnum söguna hafa kertin átt mikilvægan þátt í trúarlegum tilbeiðslum, þjóðháttum, rýni eða spádómum og göldrum. Kertalogar eru rómantískir en það má einnig nota þá til að særa fram anda, ákalla guði og gyðjur og fremja galdra.

Kertin nýta hið forna og máttuga frumefni eldsins, sem oft hefur verið kallað hið helga frumefni magískrar umbreytingar frá því til forna.

Uppruni kerta er óljós, en vísbendingar eru til um að bývax hafi verið notað í Egyptalandi og Krít allt aftur til um 3000 fyrir Krist. Í gamla daga voru einnig notuð tólgarkerti. Á 4. öld eftir Krist voru kerti og lampar notuð sem verkfæri hjá spámönnum. Áttu slíkar spáathafnir sér stað í hellum og átti spámaðurinn að vísa í suður og rýna í kertalogann þar til hann fengi guðlegar sýnir. Þá sofnaði hann og féll í draumkenndan trans og fékk svör við spurningum sínum í þar til gerðum draumi.

Á 5. öld voru kirkjunnar menn farnir að nota kerti í athöfnum sínum. Þau urðu hins vegar ekki almenn fyrr en á 13. öld. Kaþólska kirkjan notaði helguð kerti í andasæringum, blessunarathöfnum og syndaaflausnum. Þau voru einnig talin vernda mann fyrir ásóknum norna, samkvæmt Nornahamarnum.

Á brennuöld Evrópu var því trúað að nornir kveiktu á kertum í svörtum messum til að sýna hollustu sína við myrkahöfðingjann. Fólk sá djöfulinn fyrir sér með geitarhöfuð og leikandi sér að svörtu kerti milli hornanna. Það var sagt að áhangendur hans kveiktu á kertum sínum með loga af versta illskukerti hans fyrir svartagaldur og andasæringar. Fólk á þessum tíma trúði því einnig að nornir settu töfruð kerti í knyppið á kústum sínum og ferðuðust svo á þeim á Sabbat athafnir sínar.

Á 17. öld var gefin út bók sem hét Dives and Pauper og var í henni haldið fram að þeir sem stunduðu svartagaldra gætu lagt hræðileg álög á óvini sína með bæn og kerti. Áttu þau þá að fara með Pater noster (faðir vorið á latínu) og kasta helgu kerti á þrep óvinar síns.

Á 18. öld var sagt að áhangendur hins illa gerðu kerti úr fitu af óskírðum börnum og glæpamönnum sem teknir höfðu verið af lífi. Því var trúað að slík kerti innihéldu lífsorku og væru þess vegna sérstaklega máttug verkfæri galdurs. Margar galdraskræður frá þessum tíma innihéldu leiðbeiningar til að búa til svona kerti og galdra sem nota átti þau í. Yfirleitt voru þeir til þess gerðir að vekja fólk upp frá dauðum og til að finna falin fjársjóð sem oftast var gætt af draugum.

19. aldar galdraskræðan Petit Albert gerði grein frá hvernig galdrakerti gert úr mennskri tólg gæti gert manni kleift að finna falda fjársjóði. Helguð og töfruð með voldugum særingum áttu kertin að vera sett í miðju skeifulaga kertastjaka úr hesli (tré sem lengi hefur verið sett í samband við spámenn, nornir og hið yfirnáttúrulega). Síðan átti að fara með það í helli eða einhvern stað neðanjarðar þar sem fjársjóðurinn átti að vera. Þegar maður var nálægt rétta staðnum átti kertalogin að flökta mikið og framkalla hvæsandi hljóð, svipað og í nöðru. Því nær sem maður var því meira flökti loginn og hvæsti. Á sama hátt átti loginn að lýsa minna þegar maður fór fjær fjársjóðnum. Þegar maður var á réttum stað átti loginn að slökkna af sjálfu sér. Ásamt því að vera með mannatólgarkertin voru fjársjóðsleitarmennirnir einnig með helgu kerti sem áttu þá að vernda þá gegn öndunum sem gættu fjársjóðsins, ásamt því að lýsa upp myrkrið.

Í upphafi 20. aldar kom út bók eftir Francis Barret sem kölluð var The Magus, þar sem sagði að kerti, sem gerð væru úr álíka og mannafitu og merg, fitu úr svörtum ketti og heila úr kráku eða hrafni, sem slökkt væru í nýlega dauðum manni, myndu valda þeim miklum hryllingi og ótta sem horfðu á það loga væri kveikt á því eftir á.

Eftir að lögin í Bretlandi sem bönnuðu galdra voru afnumin 1951 og birtingu bóka Geralds Gardner um galdra (Witchcraft Today og The Meaning of Witchcraft) jókst áhugi almennings á dulspeki og fengu hin gömlu trúarbrögð norna fleiri áhangendur. Galdraiðkun var endurvakin sem nýheiðni sameinuð með heiðnum siðum, gyðjudýrkun og þáttum úr evrópskum þjóðháttum og formlegum göldrum (ceremonial magick).

Mikill meirihluti þeirra karla og kvenna sem skilgreina sig sem samtíma nornir leitast við að lifa í sátt og samlyndi við móður náttúru og nota hæfni sína til að galdra aðeins til góðs. Kristallar og jurtir eru algeng efni í galdra og eru kertagaldrar ein vinsælasta aðferð galdra bæði hjá nornum sem vinna einar sem og nornasveimum.


Þýðing úr bókinni Exploring Spellcraft, How to Create and Cast Effective Spells, eftir Gerina Dunwich


Kveðja,
Divaa