Um vísindin og stjörnuspekina

eftir Jónas Sen

Einhver þyrfti að gera úttekt á frösum sem fólk notar á börum þegar það er að reyna við hitt kynið. Sumt sem heyrist eru klisjur, annað er hreint ótrúlegt. Eins og til dæmis: “Ég sé að þú ert rosalega villt”. Eða: “Varst þú ekki í fegurðarsamkeppni í fyrra?”. Svo er auðvitað þetta gamla góða: “Höfum við ekki hist áður?” Sumir karlmenn eru öllu frumlegri þegar þeir segja bara: “Villtu banana?”.

Einn og einn hættir sér inn á nýaldarlínuna með frösum á borð við “mér er sagt að við höfum þekkst í fyrra lífi”. Eða þá: “Ég er norn”. Enn vinsælla er samt: “Þú ert greinilega í sporðdrekamerkinu”.

Með þessu síðastnefnda er verið að skírskota til goðsagnarinnar um að sporðdrekar séu kynæsandi og góðir rekkjunautar. Að segja að einhver sé augljóslega sporðdreki er því mikið hrós. Eiginlega er sporðdrekinn það merki sem nýtur mestrar virðingar innan dulspekifræðanna; sporðdrekar eiga að vera með dáleiðandi augnaráð og ofboðslega sjarmerandi. Einnig ástríðufullir og útsjónasamir, og samkvæmt mörgum stjörnuspekibókum eiga þeir alltaf að segja sannleikann - hversu óþægilegur sem hann kann að vera. Kenningarnar um sporðdrekann eru flestum kunnar, svo ef einhver ókunnugur segir rogginn við þig: “Gettu í hvaða merki ég er?” og horfir á þig með starandi augnaráði, þá geturðu verið nokkurnvegin viss um að viðkomandi er sporðdreki. Og er montinn af því.

Þegar ég var lítill fannst mér voða töff að vera sporðdreki. Ég hafði lesið bók um stjörnuspeki eftir Lindu Goodmann, og eftir það tók ég að reyna að haga mér eins og sönnum sporðdreka sæmir. Ég fór að stara á fólk og segja sannleikann, alveg sama hversu andstyggilegur hann var. Einhverju sinni var gömul kona að passa okkur systkynin, og eldaði fyrir okkur plokkfisk. Mér fannst hann vondur, en vildi ekki særa gömlu konuna. En svo hugsaði ég: ég er sporðdreki. Sporðdrekar segja alltaf sannleikann. Svo ég sagði hátt: “Þetta er ógeðslegur plokkfiskur. Hann er alltof saltur!” Og ég horfði starandi á gömlu konuna. Gamla konan varð auðvitað hvummsa en systir mín húðskammaði mig í einrúmi og sagði mér að ég hefði verið dónalegt barn. Eftir þetta áttaði ég mig á því að það er til tvennskonar sannleikur - sannleikurinn og hinn bitri sannleikur. Og ég ákvað að segja sannleikann bara stundum, en halda kjafti þess á milli.

Stjörnufræðingar og aðrir vísindamenn hafa ekki mikið álit á stjörnuspekinni. Af og til birtast greinar í blöðum eftir hinn eða þennan vitringinn, þar sem stjörnuspekin er rökkuð niður í svaðið. Rökin eru venjulega þau að pláneturnar séu í alltof mikilli fjarlægð til að hafa áhrif á okkur. Án sólarinnar værum við auðvitað ekki til, og ekki er ólíklegt að tunglið togi eitthvað í okkur líka. En Venus? Nei varla, hvað þá Plútó sem er einhversstaðar í svo mikilli fjarlægð að hann sést ekki með berum augum - og getur ekki lyft dauðri flugu á jörðinni með þyngdarafli sínu. Samkvæmt vísindamönnunum geta kenningar stjörnuspekinnar því ekki verið sannar, því einu hugsanlegu áhrif plánetanna séu þyngdaraflið.

Annað sem líka er tínt til er að stjörnumerkin eru ekki lengur þar sem stjörnuspekin segir að þau séu. Þau eru á rólegri ferð aftur á bak og voru bara á “sínum stað” fyrir u.þ.b. 2000 árum síðan. Þar sem stjörnuspekingar gangi út frá 2000 ára gamalli heimsmynd geti ekki verið mikið að marka kenningar þeirra. Reyndar hreyfist dýrahringurinn ekki; það er öxulhalli jarðarinnar sem er ekki alltaf sá sami. Og það þýðir að 21. mars, á vorjafndægrum, er sólin ekki lengur á núll gráðum í Hrútsmerkinu heldur á u.þ.b. sjö gráðum í Fiskum. Þess vegna er sagt að nú sé öld Fiskanna. Eftir rúmlega hundrað ár verður hún á þessum sama tíma aftast í Vatnsbera, og þá hefst öld Vatnsberans. Hipprnir höfðu því ekki rétt fyrir sér þegar þeir sungu að nú væri öld Vatnsberans gengin í garð.

Best er að skoða þetta aðeins nánar. Fæstir stjörnuspekingar halda í alvörunni að sólin sé að fara inn í Hrútsmerkið á vorjafndægrum, eða Vogarmerkið á haustjafndægrum. Þeir vita að séð frá jörðinni hefur dýrahringurinn færst úr stað. En það er viðeigandi að Vogarmerkið byrji á haustjafndægrum, svo dæmi sé tekið - því þá eru nótt og dagur í jafnvægi. Sömuleiðis að Geitin, gamla djöflamerkið, hefjist á vetrarsólstöðum þegar myrkrið er mest. Einnig að Hrúturinn, sem er vormerki og tákn upprisu - eins og vikið verður að hér fyrir neðan, hefjist á vorjafndægrum.

Saga Krists tengist þessum dýrahring árstíðanna, og það er merkilegt hversu fáir virðast hafa áttað sig á því. Afhverju á Kristur að hafa fæðst á vetrarsólstöðum (sem voru í kringum 25. desember fyrir 2000 árum, eða 3-4 dögum síðar en nú)? Jú, hann er sólartákn - fæðing hans er fæðing ljóssins - þegar sólin fer að rísa á himninum og daginn að lengja. Sömuleiðis eru páskarnir hafðir á fyrsta fulla tunglinu eftir vorjafndægur - þegar Kristur sigrar myrkrið og dauðann, og rís upp til himna. Þá er líka dagurinn orðinn lengri en nóttin - sólin er orðin myrkrinu yfirsterkari - og lambið/Kristur upprisinn hrútur.

Þetta síðastnefnda er dálítið áhugavert; Hrúturinn er fornt sólartákn og samkvæmt stjörnuspekinni er sólin sterkust í Hrútsmerkinu. Lambið er bæði tákn Krists og hinnar nýfæddu sólar/jesúbarnsins á vetrarsólstöðum; svo vex sólin og verður að hrút í Hrútsmerkinu. Samkvæmt þessari táknfræði er Kristur upprisinn ekki lengur lamb heldur hrútur.

Eiginlega má segja að saga Krists sé byggð á goðafræði, sem á rætur sínar að rekja til stjarnfræðilegra fyrirbæra, árstíðaskipta o.s.frv. Þetta er ástæðan fyrir því afhverju sumir eiga erfitt með að trúa því að Kristur hafi verið til - a.m.k. eins og guðspjöllin lýsa honum. Saga hans er svo goðsagnakennd að hún er einhvernvegin ekki sennileg.

Í öllu falli meina stjörnuspekingar það ekki í alvörunni þegar þeir tala um að sólin sé að fara inn í Hrútsmerkið. Þetta er bara táknmynd - rétt eins og upprisan. Hún þýðir að áhrif sólarinnar verði lituð af voráhrifum hrútsins næstu þrjátíu daga. Dýrahringur vestrænnar stjörnuspeki er eiginlega fyrst og fremst táknmál rétt eins og saga Krists, og stjörnuspekingar telja að sem slíkur eigi hann fullan rétt á sér þó hann sé ekki byggður á neinum vísindalegum staðreyndum.

Hin rökin á móti stjörnuspeki, að pláneturnar hafi engin áhrif, eru öllu sterkari. Það er erfitt að ímynda sér að pláneta lengst úti í himingeimi hafi einhver áhrif á örlög manns. En margir stjörnuspekingar trúa því reyndar ekki heldur. Þeir ganga út frá kenningum sálfræðingsins Carls Jung, sem taldi að tveir atburðir geta verið tengdir þannig að annar endurspegli hinn án þess að orsök og afleiðing spili þar inn í. Dæmi um þetta er þegar einhver dreymir fyrir dauðsfalli, happdrættisvinningi eða öðru. Draumurinn endurspeglar hinn tiltekna atburð en orsakar hann ekki. Hvers vegna þetta gerist er mönnum hulin ráðgáta - en Jung upplifði þetta svo oft sjálfur - bæði persónulega og hjá sjúklingum sínum, að hann leit á þessi fyrirbæri sem staðreynd. Hann kallaði þetta Synchronicity á Ensku; nokkurs konar lögmál um ósýnileg tengsl tveggja eða fleiri atburða. Stjörnuspekingar halda dauðahaldi í þessa kenningu þegar áhrif plánetanna ber á góma; samkvæmt henni orsaka pláneturnar ekki neitt, en staða þeirra endurspeglar samt atburði á jörðinni á einhvern dularfullan hátt.

Vísindamenn hafa gert fjölmargar rannsóknir á stjörnuspeki. Hún er líka þess eðlis að auðvelt er að kanna sannleiksgildi hennar með tölfræðina að vopni. Lengi vel kom ekkert fram sem benti til að einhver fótur væri fyrir henni. T.d. hefur verið rannsakað vísindalega hvort fólk í tilteknu stjörnumerki sé í alvörunni eins og fræðin segja, en í ljós komið að svo er ekki.

Ein slík rannsókn var gerð árið 1978. 122 fullorðnum einstaklingum var raðað í þrjá hópa eftir því hvort þeir voru vel að sér í stjörnuspeki (þ.e.a.s. þekktu persónueiginleika hvers merkis), höfðu bara óljósar hugmynir um stjörnuspeki, eða vissu ekkert um hana. Svo átti fólkið að merkja við fyrirfram gefna persónueiginleika sem því fannst eiga best við sig. Þessir eiginleikar voru fengnir úr stjörnuspekinni - ljónið á að vera stolt, rausnarlegt, stjórnsamt, hrokafullt og haldið sýniþörf; meyjan er rökföst, smámunasöm, iðin, skiptir sér af öllu og er tilfinningalega heft; nautið nautnalegt, praktískt, íhaldssamt og eigingjarnt, o.s.frv. Stjörnumerkin voru þó ekki nefnd í könnuninni, aðeins persónueiginleikarnir.

Útkoman var sú að þeir sem vissu ekkert um stjörnuspeki lýstu sér á engan hátt eftir kenningum hennar. Nautin gátu allt eins verið fiskar, sporðdrekarnir ljón, og ljónin vatnsberar. Þeir sem þekktu vel stjörnuspekina komu allt öðruvísi út - þar voru nautin með horn og hala, sporðdrekarnir eitraðir, og hrútarnir stangandi allt og alla. Miðhópurinn var svo eins og við var að búast, mitt á milli hinna.

Nú mótmæla væntanlega þeir sem hafa kafað aðeins í stjörnuspekina, og segja að sólarmerkið svokallaða - merkið sem sólin var í þegar maður fæddist - sé ekki nema brot af hinu eiginlega stjörnukorti. En hefðbundin túlkun á ýmsum öðrum þáttum kortsins - eins og Mars í spennuafstöðu við sól eða tungl í vatnsbera - hefur líka verið gerð skil af tölfræðingum. Gott dæmi um það var þegar franskur vísindamaður að nafni Michel Gauquelin auglýsti í dagblaði ókeypis stjörnukort og nákvæma túlkun fyrir hvern sem var. Fólk átti bara að senda inn fæðingartíma sinn - og væntanlega frímerki til að fá sendar niðurstöðurnar. Gauquelin sendi svo stjörnukort til baka ásamt ýtarlegri túlkun, með þeim formerkjum að kortið væri ekta. Sem það þó ekki var; það var alltaf sama kortið og var - ásamt túlkuninni - fengið frá vinsælli og virtri stjörnuspeki-tölvuþjónustu í París. Kortið var reiknað út frá fæðingartíma og fæðingarstað einhvers illræmdasta fjöldamorðingja Frakklands, Dr Petiot, sem framdi ódæðisverk sín í seinni heimstyrjöldinni með því að þykjast geta hjálpað mönnum til að flýja Frakkland, er Nasistar höfðu lagt það undir sig. Þegar fólkið kom til hans með eignir sínar og peninga, myrti hann það hinsvegar og hirti féð.

Þeir sem fengu kortin voru beðnir um að svara hvort túlkunin passaði við þá. Ekki stóð á svörunum og voru flestir mjög jákvæðir. Menn voru á því að túlkunin passaði afar vel - og ættingjar og vinir voru á sama máli. Sumir voru meira að segja svo ánægðir með þjónustuna að þeir buðu peninga til að fá meira.

Michel Gauquelin er sá sem lengst hefur gengið í rannsóknum á stjörnuspeki. Hann er með doktorsgráðu í sálfræði frá Sorbonne háskóla - þar sem hann lærði tölfræði líka. Þegar hann var lítill fékk hann brennandi áhuga á stjörnuspeki, og strax á táningsaldri var hann orðinn afar vel að sér í fræðunum. Er hann hafði lokið námi sínu í tölfræði fór hann að gamni sínu að gera vísindalegar kannanir á ýmsu sem sumir stjörnuspekingar halda fram, eins og því að atvinnuhermenn séu oftast hrútar eða sporðdrekar, en sjaldnast krabbar. Eða þá að Satúrnus sé vondur og valdi dauða oftar en hinar pláneturnar. Út úr öllum þessum könnunum fengust neikvæð svör. En svo gekk hann lengra og fór að rannsaka stjörnukort einstaklinga sem höfðu náð mjög langt á einhverju tilteknu sviði, eins og leiklist eða læknisfræði. Þá tók hann eftir því að ákveðnar plánetur virtust “hafa tilhneigingu” til að vera á sérstökum stöðum í stjörnukortunum. Gat þá verið eftir allt saman að himintunglin hefðu áhrif á örlög fólks? Það virðist óhugsandi út frá sjónarmiði vísindanna. Gauquelin fannst þetta samt svo merkilegt að hann eyddi mörgum árum í að rannsaka áhrif stjarnanna. Kona hans, sem líka er sálfræðingur, kom honum til aðstoðar, fór yfir niðurstöður hans og endurtók kannanirnar eins og lög gera ráð fyrir. Og alltaf fékkst sama svarið: Pláneturnar hafa á einhvern dularfullan hátt áhrif á okkur.

Fyrstu jákvæðu niðurstöður Gauquelins komu þegar hann kannaði stjörnukort 576 meðlima frönsku læknaakademíunnar, á öllum aldri. Kort læknanna, sem höfðu náð langt á sviði rannsókna og höfðu hlotið viðurkenningu fyrir störf sín, voru ótrúlega oft með Mars eða Satúrnus nýrisna (þ.e. aftast í tólfta húsi) eða nýlega farna fram hjá miðhimni (þ.e. aftast í níunda húsi). Fyrir þá sem ekki vita þýðir “nýrisin” pláneta að hún sé rétt komin upp fyrir sjóndeildarhringinn í austri. Miðhiminn er sá punktur á himninum sem er mitt á milli þess sem pláneta rís í austri og sest í vestri, þ.e. hádegisstaður.

Gauquelin notaðist við húsakerfi eins og í hefðbundinni stjörnuspeki, þar sem stjörnukortinu er deilt í tólf svæði, svokölluð hús. Húsakerfi Gauquelins miðaðist við það að hver pláneta ætti að vera jafn lengi í hverju húsi, einn tólfta af tíma sínum á braut sinni umhverfis sólu. Gauquelin paraði síðan húsin, tólfta með níunda, ellefta með áttunda, o.s.frv. Það þýddi að það væru 16.7% líkur á að ákveðin pláneta væri í hverju húsapari hjá læknunum sem hann var að rannsaka. En töluvert meira var um að Mars eða Satúrnus væri í 12. og 9. húsi en öðrum svæðum.

Til að vera viss um að þetta væri ekki tilviljun náði Gauquelin sér í stjörnukort jafnmargra einstaklinga úr öllum stéttum, ekki bara læknisfræði, og var fæðingartíminn fenginn af handahófi úr kjörskrá. Enginn mátti þar vera eldri en elsti læknirinn og enginn yngri en sá yngsti. Í þessum hópi var dreifing plánetanna jöfn meðal húsaparanna. Svo niðurstaða fyrri könnunarinnar var greinilega stórmerkileg.

En þar sem Gauquelin hafði áður gert svo margar rannsóknir á hinum og þessum kenningum stjörnuspekinnar, alltaf með neikvæðum niðurstöðum, voru tölfræðilegar líkur á því að einhver könnunin myndi koma jákvætt út, bara fyrir tilviljun. Gauquelin gerði sér grein fyrir þessu, og þessvegna endurtók hann fyrri rannsóknina. Í þetta sinn á stjörnukortum 508 lækna sem höfðu fengið viðurkenningu fyrir störf sín - þetta voru samt aðrir læknar en í fyrri könnuninni. Og niðurstaðan var eins: læknarnir voru ótrúlega oft með Mars eða Satúrnus á sömu stöðum og hinir læknarnir.

Þá var komið að því að kanna stjörnukort fólks í öðrum löndum og sömuleiðis á öðrum sviðum en læknisfræði. Gauquelin lagði því land undir fót og fór til Þýskalands, Ítalíu, Hollands og Belgíu og safnaði saman hvorki meira né minna en 25.000 fæðingartímum. Svo hélt hann rannsóknunum áfram og bar saman stjörnukort 5100 listamanna við kort 3647 vísindamanna. Hvor hópurinn um sig samanstóð af fólki sem hafði náð mjög langt á sínu sviði. Þá kom í ljós að Satúrnus aðgreindi þessa tvo hópa; vísindamennirnir voru áberandi oft með Satúrnus nýrisna eða nýlega farna fram hjá miðhimni, en listamennirnir voru á hinn bóginn grunsamlega sjaldan með Satúrnus á þessum stöðum. Það var nánast eins og listafólkið hefði forðast að fæðast þegar Satúrnus var sterkur.

Of langt mál væri að fjalla um allt sem kom fram í rannsóknum Gauquelins. Hann komst á endanum að því að pláneturnar virtust ekki hafa áhrif á örlög fólks; það væri persónuleikinn sem á einhvern hátt mótaðist af áhrifum himintunglanna. Hver er sinnar gæfu smiður - stendur einhversstaðar, og persónuleikinn hefur auðvitað mestu áhrifin á það hvert örlögin leiða mann. En samkvæmt Gauquelin hafa ekki allar pláneturnar áhrif á karakter fólks, það eru fyrst og fremst Mars, Satúrnus, Júpíter og tunglið sem skipta máli í stjörnukortinu.

Rannsóknir Gauquelins leiddu í ljós að persónueiginleikar fólks sem fæðist með einhver þessara fjögurra himintungla nýrisin eða nýlega farna fram hjá miðhimni, eru eftirfarandi: Júpíter er metnaðargjarn, tækifærissinnaður, málglaður, hamingjusamur, sjálfstæður og fyndinn; Satúrnus er formfastur, samviskusamur, kaldur, íhugull, feiminn, nákvæmur og iðinn; tunglið er vinalegt, einfalt, góðhjartað, gestrisið, utan við sig, rausnarlegt, dreymandi og hefur gott ímyndunarafl; Mars er á hinn bóginn ákafur, fífldjarfur, baráttuglaður, árásargjarn, sterkur og líflegur.

Eins og gefur að skilja sendi Gauquelin niðurstöður sínar til annarra vísindamanna. Þar á meðal til hóps af lýðfræðingum, tölfræðingum, stjörnufræðingum og annarra vísindamanna í Belgíu sem saman gera vísindalegar rannsóknir á meintum dulrænum fyrirbærum. Þeir nefna sig Committee for the Scientific Investigation of Alleged Paranormal Phenomena - á Íslensku útleggst það sem Nefnd fyrir vísindalegar rannsóknir á meintum yfirnáttúrulegum fyrirbærum. Slagorð nefndarinnar mun vera “við höfnum engu; við viðurkennum ekkert án sannana.” Hún reyndi að afsanna kenningar Gauquelins með eigin rannsóknum, en þvert á móti fékk hún sömu niðurstöður og Gauquelin. En í stað þess að birta niðurstöður sínar eins og venjulega er gert ef tekist hefur að afsanna eitthvað yfirskilvitlegt, þögðu vísindamennirnir þunnu hljóði. Og í heild reyndu vísindamenn víða um heim að þaga rannsóknir Gauquelins í hel. Ástæðan er ekki ljós; kannski er það vegna þess að það er ekki nokkur leið að útskýra hvernig plánetur lengst úti í geimi geti haft áhrif á persónuleika fólks. Það stangast á við vísindalega heimsmynd nútímans - og væntanlega eru vísindamenn alveg jafn fordómafullir og aðrir, þó margir þeirra segjast vera með opin hug.

Rannsóknir Gauquelins leiddu í ljós að flestar kenningar hefðbundinnar vestrænnar stjörnuspeki standast ekki. Þó virðast útlistanir á áhrifum tunglsins og a.m.k. þriggja pláneta vera réttar. Mars stendur t.d. fyrir bardaga, kraft og íþróttir, eins og hefðin segir til um. En samkvæmt vestrænu stjörnuspekinni er Mars mjög sterkur í fyrsta húsi, en veikur í því tólfta. Gauquelin sýndi fram á að það er öfugt; Mars í tólfta húsi er miklu algengari hjá afburðaíþróttamönnum en Mars í því fyrsta. Þrátt fyrir þetta eru áhrif himintunglanna fyrir hendi þó stjörnuspekingar á vesturlöndum hafi rangt fyrir sér varðandi túlkun á stöðu plánetanna í stjörnukortinu.

Getur verið að austræn stjörnuspeki, sérstaklega sú indverska sé nær sannleikanum? Allavega er dýrahringurinn í indverska stjörnukortinu stjarnfræðilega rétt staðsettur, en ekki bara táknmál fyrir árstíðirnar, eins og í vestrænu stjörnuspekinni. Nú veit ég ekki til þess að indversk stjörnuspeki hafi verið rannsökuð vísindalega, en verði það einhverntíman gert kæmi mér ekki á óvart að margt merkilegt myndi koma í ljós. Þeir sem til þekkja segja að hún sé ótrúlega mögnuð og með henni sé hægt sé að spá fyrir atburðum í lífi fólks með mikilli nákvæmni.

Til gamans verður nú Ólafur Ragnar Grímsson skoðaður út frá indverskri stjörnuspeki. Því miður er engin af áhrifaplánetunum á þeim stöðum sem Gauquelin uppgötvaði í lykilstöðu - en hann rannsakaði reyndar aldrei indverska stjörnuspeki, bara þá vestrænu. Í öllu falli virðist stjörnukort Ólafs Ragnars passa ágætlega, eins og kemur í ljós hér fyrir neðan.

Reyndar gat enginn sagt mér klukkan hvað forsetinn var fæddur, svo stjörnukortið sem hér er birt er í rauninni ófullkomið. Á Indlandi eru alltaf reiknuð út a.m.k. tvö stjörnukort fyrir einn einstakling; annað út frá rísandi merkinu, hitt frá tunglmerkinu. Ekki þarf að vita fæðingarstundina nákvæmlega til að gera síðara kortið, og verður því stuðst við það hér.

Tunglmerkið er mjög mikilvægt í indverskri störnuspeki. Ólafur Ragnar er með tungl í Ljóni, og má segja að Ljónið sé viðeigandi merki fyrir forseta. Í indverskum ritningum segir m.a. um einstakling með tungl í Ljóni eða Ljón rísandi að hann komist auðveldlega til æðstu metorða. Þetta er undirstrikað með sterkri stöðu sólarinnar í korti Ólafs Ragnars; hún er í Hrút, og sólin er sterkust í Hrútsmerkinu, þar sem hún er “upphafin” eins og fyrr var greint frá. Sólin er mikilvæg í korti forsetans, því hún “stjórnar” rísandi merki hans, Ljóninu. Plánetan sem stjórnar rísandi merkinu er alltaf talin mikilvægust; ef hún er vel staðsett blómstrar viðkomandi; ef hún er veik er lífið oft erfitt.

Sól Ólafs Ragnars er í níunda húsi. Samkvæmt Indverjum á sól í Hrút í níunda húsi að vera algeng meðal andlegra leiðtoga. Ólafur Ragnar er samkvæmt því með guðlegt eðli, sem stangast óneitanlega á við meint trúleysi hans. Betur passar að hann er með Satúrnus í tíunda húsi, sem mun vera algengt meðal stjórmálaleiðtoga, forseta og einræðisherra. Hitler, ásamt mörgum öðrum valdamönnum, var með Satúrnus í tíunda húsi.

Ólafur Ragnar er með tungl í fyrsta húsi, sem gerir hann myndarlegan; tunglið er arkitýpa - eða frummynd móðurinnar, og óneitanlega er eitthvað kvenlegt við ljósu lokkana og tvíræða brosið. Tunglið myndar líka jákvæða afstöðu við sjöunda húsið, hús hjónabandsins, þar sem Mars er staðsettur. Mars í sjöunda húsi þýðir að Ólafur Ragnar á líflega, hugrakka og sterka konu. Það merkir líka að hann á volduga óvini, því sjöunda húsið táknar stundum þá sem eru á móti manni. En tunglið beint á móti sigrar þá.

Eiginlega er þetta eitt besta stjörnukortkort sem ég hef séð. Aðeins Arnold Swarzenegger á betra kort. Ólafur Ragnar er einstaklega heppinn að vera með samstöðu Júpíters og Venusar í ellefta húsi. Saman tákna þessar plánetur mikla heppni og gæfu, og voru þær einmitt virkar í forsetakosningunum í vor. Það var nánast eins og stjörnurnar vildu að Ólafur Ragnar yrði forseti.

Og afhverju ekki? Það er a.m.k. EITTHVAÐ að marka þessi fræði eins og rannsóknir Gauquelins hafa sýnt fram á. Út af hverju er svo önnur saga. Kannski kemur það í ljós einhverntímann í framtíðinni.

(Heimildir: Eysenck: ASTROLOGY - SCIENCE OR SUPERSTITION?; Braha: ANCIENT HINDU ASTROLOGY FOR THE MODERN ASTROLOGER; Ojha: PREDICTIVE ASTROLOGY OF THE HINDUS; Braha: ASTRO-LOGOS; Parasara: HORA SHASTRA; Magee: TANTRIK ASTROLOGY; Choudhri: SYSTEM'S APPROACH FOR INTERPRETING HOROSCOPES)