Sæl öllsömul.

Þessi grein er kannski ekki beint tengd dulspeki en mér fannst ég verða að segja eitthvað. Ég hef ekki verið mjög dugleg við að heimsækja Huga.is undanfarinn mánuð eða svo en tók mig til í kvöld og ákvað að ná aðeins upp lestrinum þar sem oftar en ekki hef ég lært margt nýtt af því að lesa þetta áhugamál.
Ég verð að segja að mér brá meira en lítið. Ekki svo að skilja að greinarnar væru ekki eins áhugaverðar og þær hafa áður verið. Það var aðallega mórallinn sem mér finnst hafa hrakað síðan ég var hér síðast. Ég ætla ekki að fara að tala um einhverja ákveðna einstaklinga þó að ég vilji segja að mér finnist pannox hafa orðið fyrir óverskuldaðri gagnrýni fyrir greinar sýnar sem eru vandaðar og mjög fróðlegar.
Það má vel vera að ég sé að misskilja eitthvað en ég vil halda að flestir þeir sem heimsækja þetta áhugamál séu hér til að reyna að læra og skiptast á hugmyndum og upplýsingum við aðra sem hafa svipuð áhugamál og þeir sjálfir. Það er allavegana ástæða þess að ég er hér. Það virðist ekki vera að virka í augnablikinu því við lærum ekki mikið á því að vera að rífast og vera með dónaskap.
Að sjálfsögðu eru trúmál oft mjög viðkvæm og það hefur sýnt sig í gegnum aldirnar að fátt er jafn vænlegt til að valda erjum en mismunandi trúarbrögð. Þess vegna er þessi grein kannski algjörlega tilgangslaus en það má alltaf reyna.
Það sem mig langar að biðja um er að fólk sem kemur hingað á dulspeki geri það með opnum huga og geri sér grein fyrir því að hér er fólk af ýmsum trúarbrögðum. Það ætti flestum að vera ljóst hverskonar umræða er í gangi hér fyrst áhugamálið ber titilinn “dulspeki”. Það er ekki tilgangur þessa áhugamáls að reyna að snúa neinum til einhverra ákveðinna trúarbragða eða að gera lítið úr neinum trúarbrögðum.

Virðum rétt fólks til að trúa því sem það vill, hvort sem það er Guð, Djöfullinn, Gyðjan, Náttúran, Díana, Isis, Pan eða hvað sem fólk vill kalla það.
Virðum líka rétt fólks til að skrifa um það sem það vill, ef þið eruð ekki sammála er hægt að segja það á kurteisislegan hátt og þá gæti jafnvel skapast uppbyggileg umræða sem allir gætu lært af og myndi víkka sjóndeildarhringinn hjá fólki.
Ég held að allir geti eytt tíma sínum í eitthvað uppbyggilegra en að skrifa og lesa dónaskap.

Kveðja
Nishanti
www.blog.central.is/runin