eftir Jónas Sen

Vúdú er nafn á fjölgyðistrú sem stunduð er á eyjunni Haiti. Afbrigði af þessari trú fyrirfinnast líka annarsstaðar, svo sem í Brasilíu, Kúbu, Jamaica og víðar, en þá undir öðrum nöfnum. Vúdútrúin kemur aðallega frá Afríku og er ansi flókin í eðli sínu. Flestir tengja hana samt eingöngu við ógeðslega seiðskratta og svartagaldur, enda hefur ameríski kvikmyndaiðnaðurinn og ýmsir rithöfundar aðrir alið á þeirri ímynd. Allir vita hvað vúdú-dúkka er, enda er vúdú-dúkka af Kolbeini kafteini í Tinnabókinni “Fangarnir í sólhofinu”. Því má segja að fólk hafi fengið svona neikvæða hugmynd af þessum trúarbrögðum með móðurmjólkinni. Það signir sig í skelfingu ef minnst er á vúdú, og sér þá fyrir sér óhreina anda og blóðugar dúkkur með prjónum í…

Vúdútrúin er þó alls ekki svona neikvæð. Eins og ég sagði áðan er hér um fjölgyðistrú að ræða; ótalmargir guðir koma við sögu og eru þeir af öllum stærðum og gerðum. Þessir guðir eru tilbeðnir með vægast sagt kröftugri aðferð. Sú aðferð byggir á þeirri hugmynd að hver einstaklingur hafi bæði líkama og sál. Sálin yfirgefur líkamann þegar maður deyr, en hún getur einnig farið burt um stundarsakir. Þetta eru engin nýmæli. Flestir kannast við allt dulræna fólkið sem heldur því fram að það geti “farið út úr líkamanum”. Stundum virðist ekki þurfa dulræna hæfileika til, því margar venjulegar manneskjur virðast hafa upplifað sálfarir. Í vúdú-athöfnum, er einmitt reynt að aðskilja sálina frá líkamanum, án þess þó að viðkomandi deyi. Sál þess sem tekur þátt í athöfninni skreppur bara frá af fúsum og frjálsum vilja. Á meðan koma hinir yfirskilvitlegu guðir og taka sér bólfestu í hinum sálarlausa, en lifandi líkama. Þannig geta guðirnir talað við fólkið, gefið allskyns ráð og jafnvel sagt brandara. E.t.v. hljómar þetta eins og ósköp venjulegur, íslenskur miðilsfundur, en þó er munur þar á. Hann felst í því að verurnar sem “koma í gegn” eru ekki amma gamla sáluga eða Jónas Hallgrímsson, heldur ægilegir kraftar. Þessir guðlegu kraftar eru fjölmargir eins og áður sagði, og heita oft kostulegum nöfnum. Nægir þar að nefna “Laugardagsbaróninn, ”Mánudagsdverginn“, ”Geidei-fimm-óhappadaga“ og ”Litla-Jón-Zombí“. Einnig er ekki bara einn miðill á ”fundinum“, heldur getur nokkurnvegin hver sem er gegnt því hlutverki. Tónlist er mikið notuð, sérstaklega bandbrjálaður trumbusláttur og ýmis konar söngvar eða áköll. Tónlistin skapar rétta andrúmsloftið og framkallar trans hjá þeim sem guðirnir síðan heltaka, en líka hjálpar trylltur dans þar til. Alltaf er einn prestur eða ”vúdú-biskup“ sem stýrir athöfninni og getur hún tekið marga klukkutíma.

Eins og gefur að skilja, er mikið um andatrú í þessum sið. Vúdú-biskuparnir eru náttúrulega galdrakarlar í leiðinni, og í vúdú-göldrum er sóst eftir hjálp andanna. Í því tilviki er um ósköp venjulegt framliðið fólk að ræða, sem þó þarf að nálgast á ákveðinn hátt. Sérstaklega lituðum kertum er raðað upp, bænir sagðar og fleira í þeim dúr. Vúdú-biskuparnir eru auðvitað aðal sérfræðingarnir í þessu, en samt getur hver sem er gert slíkt hið sama, ef hann kann reglurnar.

Í Chicago í Bandaríkjunum er félagsráðgjafi sem heitir Michael Bertiaux. Á yfirborðinu er hann á engan hátt frábrugðinn öðrum félagsráðgjöfum. Samt er hann Vúdú-biskup. Upphaflega hafði hann þó ætlað sér að gerast venjulegur prestur í kristinni kirkju. Hann lauk meira að segja guðfræðiprófi með glæstum árangri og fékk brauð í Seattle. Svo var hann sendur til Haiti í einhverjum kirkjulegum erindum. Þar hitti hann vúdú-áhangendur og heillaðist gjörsamlega uppúr skónum. Að endingu var hann skírður inn í söfnuðinn, vann sig síðan upp metorðastigann og tók að lokum vígslu sem vúdú-biskup. Að sjálfsögðu sagði hann sig úr hefðbundinni kristni í leiðinni! Í staðinn hóf hann nám í félagsfræði þegar hann sneri aftur heim til Bandaríkjanna, og í fyllingu tímans útskrifaðist hann svo sem félagsráðgjafi og fékk starf í Chicago.

Einn góðan veðurdag kom maður nokkur inn á skrifstofuna til hans, og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hafði unnið hjá einhverju stórfyrirtæki í sjö ár, en nú var búið að reka hann. Yfirmaður hans var hið mesta svín. Hann hafði reynt við eiginkonu hins, en þegar hún vildi ekki þýðast hann var eiginmaðurinn rekinn í hefndarskyni. Hvað átti hann að gera? Bertiaux horfði á hann nokkra stund, og sagði svo: ”Tja, við hjá félagsmáladeildinni getum nú ekkert gert fyrir þig, en komdu á fund hjá vúdú-söfnuðinum mínum í kvöld, og við kippum málunum í lag!" Svo var málunum kippt í lag með hjálp dularfullra afla, og sagan barst um hverfið. Á stuttum tíma varð Bertiaux svo vinsæll að heilu biðraðirnar fóru að myndast fyrir utan dyrnar hjá honum í félagsmáladeildinni. Að endingu komust yfirvöldin að öllu saman, og vúdú-biskupinn var kærður. Í framhaldi urðu málaferli, og þó Bertiaux væri sýknaður, voru sérstök lög sett á í Chicago-borg. Þau hljóðuðu á þá leið að félagsráðgjafar megi ekki nota vúdú til að hjálpa viðskiptavinum sínum!!!

En vúdú-biskupinn var ekki af baki dottinn. Þó hann mætti ekki lengur nota Vúdú til að hjálpa lítilmagnanum gaf hann bara út bók í staðinn. Í bókinni er venjulegu fólki sagt hvernig framkvæma megi einföld vúdútöfrabrögð. Í næstu grein mun ég svo birta úrdrætti úr þessari bók. Þá geta lesendur farið að stunda vúdú og prófað sig áfram í göldum…