eftir Jónas Sen

Fyrir einhverjum árum síðan birtist forsíðugrein í Vikunni um Nornir. Þetta var æsifrétt um íslenskan nornasöfnuð sem átti að stunda iðju sína í skjóli nætur. Viðtal var við einn meðlim safnaðarins, auðvitað ónafngreindan, sem lýsti athöfnum nornanna í hinum subbulegustu smáatriðum. Ef ég man rétt voru einhver tengsl við Kirkju Satans sem var stofnuð í San Francisco árið 1966 og er enn við lýði í dag. Kenningar kirkjunnar eru til umfjöllunar í tveimur eða þremur bókum sem lengi hafa fengist í íslenskum bókabúðum. Þar eru einnig ítarlegar leiðbeiningar í svartagaldri. Íslenski nornasöfnuðurinn hafði framið seið eftir formúlum svörtu kirkjunnar, fórnað ketti og drukkið blóð hans. Og fyllst af “satanískum krafti” - hvað sem það nú er.

Greinin í Vikunni vakti nokkra athygli, en leið fyrir það að enginn var nafngreindur. Lýsingarnar á iðju nornanna voru jafnframt svo yfirgengilegar að erfitt var að trúa þeim. Niðurstaðan var sú að þetta hlyti allt saman að vera uppspuni, og til þess eins að selja blaðið.

En það er reyndar alveg satt að nornir eru til á okkar dögum og greinilega líka á Íslandi ef marka má það sem er skrifað á Huga.is. Svo er auðvitað einnig gnægð platnorna á börunum sem hafa lesið fáeinar bækur um lófalestur og stjörnuspeki, og halda að þær gangi í augun á karlmönnum með því að þykjast vera nornir. Reyndar hafa þær rétt fyrir sér upp að vissu marki, svo framarlega sem karlmennirnir séu eitthvað inn á þessari línu sjálfir. Kona sem sér árur, getur lesið í lófa, framið seið og er mikið máluð í svörtum, aðskornum fötum er óneitanlega voða spennandi…

Nornir eru til víðsvegar um heim. Í Bandaríkjunum er talið að til séu um 200.000 nornir og annað fólk sem ástundar heiðna trú. Rétt er að fram komi að nornir eru ekki bara kvenkyns, karlmennirnir í nornasöfnuðunum eru álíka margir og konurnar. Fleiri en nornir ástunda heiðni, munurinn á nornum og öðrum heiðingjum er að nornirnar fremja galdur líka. Hinir eru bara í einhverjum trúarpælingum og ákalla heiðna guði. Galdrar eru reyndar hálfgerð trúarbrögð útaf fyrir sig, og ef marka má internetið eru sífellt fleiri í heiminum í dag sem fikta við galdra og fjölkynngi. Sem þykir merkilegt fyrirbæri á þessum upplýstu tímum tölvuvæðingar og vísinda.

Trúarbrögð nornanna kallast Wicca. Þetta orð kemur úr Engilsaxnesku, wicca (karlkyn) og wicce (kvenkyn) var haft um þann sem stundaði galdur, hugsanlega eru þarna tengsl við íslenska orðið vitki, sem merkir töframaður. Nútíma nornir trúa á marga guði og gyðjur, sem þær segja reyndar vera bara hliðar eða birtingar á hinum eina Guði. Guð er einn eða ein, hvorki karl né kona, en þó bæði. Nornir telja hann vera alltumlykjandi, allsstaðar og eilífan, og aðeins sé hægt að skynja lítið brot af honum í einu. Þess vegna taki hann á sig mörg gerfi, bæði kvenkyns og karlkyns. Gyðjur og guðir hinna mörgu trúarbragða eru samkvæmt þessu ólíkar birtingarmyndir hins eina Guðs, hálfpartinn synir og dætur hans rétt eins og Kristur.

Kvenpóll Guðs er dýrkaður í líki hinna ýmsu gyðja, svo sem Ishtar, Isis, Hekötu, Venus, Aþenu og fleiri. Margar nornir nema staðar þarna, og halda sig við Gyðjudýrkun. Aðrar nornir vilja hafa karlpólinn líka, og er karlkyns nornaguðinn þá venjulega öllu skuggalegri, gjarnan í geitarlíki eða blanda af geit og manni (OFURGEIT?). Er þetta aðalástæðan fyrir því að margir halda að nornir séu djöfladýrkendur, því á miðöldum sáu menn djöfulinn fyrir sér með geitarhöfuð - a.m.k. með horn og klaufir. Geitarmaðurinn sem nornirnar dýrka er þó enginn annar en gríski guðinn Pan, sem er hálfur maður, hálfur dýr. Hann táknar einingu manns og náttúru, náttúruna í manninum, kynorku og hamsleysi dýrsins. Þess má geta að enska orðið “panic” er komið frá Pan. Pan er hinn eiginlegi andkristur, hann er allt það sem Kristur er ekki. Kristur er - samkvæmt Biblíunni - eingetinn sonur Guðs, hálfur maður, hálfur guð; Pan er á hinn bóginn hálfur maður, hálfur dýr. Nornatrúin er náttúrutrú, og því er eðlilegt að nornir dýrki Pan, en vilja samt meina að með því séu þær ekki að dýrka djöfulinn. Til að vera djöflatrúar þarf maður að vera kristinn, því það er helst kristið fólk - aðallega kaþólikkar - sem trúir á djöfulinn. Djöfullinn er fyrst og fremst kristið fyrirbæri; hann er ekki til í heimsmynd nornanna. Eðlilegar hvatir manns og konu, sem í Kristninni hefur gjarnan tengst djöflinum, eru einmitt eðlilegar og á engan hátt illar. Þess vegna, segja nornirnar, er myrkrahöfðinginn sem slíkur ekki til og náttúrukraftarnir engin öfl myrkursins.

Trúarsiðir nornanna eru með ýmsu móti. Algengt er að þær hefji athafnir sínar með því að “helga sér vé”, þ.e. gera hring á jörðina eða gólfið, stundum er fimmhyrnd stjarna eða pentagram inni í hringnum. Þeir sem kunnugir eru tarotspilunum kannast við pentagram inni í hring, sem táknar jarðarkraftinn. Nornatrúin byggir mikið á jarðarkraftinum sem er ákallaður og beislaður. Jarðarkrafturinn er mikilvægastur í göldrum, því án hans verða guðirnir ekki áþreyfanlegir og galdurinn ekki að veruleika. Fyrst eru samt allir hinir kosmísku kraftar dulspekilegrar heimsmyndar vaktir upp, þ.e. jörð, vatn, loft og eldur. Nornirnar sjá kraftana í viðeigandi höfuðáttum, algengast er að jörðin sé í norðri, vatn í vestri, eldur í suðri og loft í austri. Oftast er byrjað með viðeigandi ákalli í austri, síðan snúið sér til suðurs og þannig allan hringinn. Þetta er til að halda jafnvæginu - ekki dugir að vera bara með jarðarkraftinn einan og sér. Þess má geta að höfuðskepnurnar fjórar eru tákn fyrir mismunandi orku mannsins. Jörðin táknar líkamann og efnisheiminn, vatnið er tilfinningarnar og sá hluti ósýnilega heimsins sem næstur er jörðinni, loftið er hið vitsmunalega og eldurinn stendur fyrir viljann og innsæið.

Er höfuðskepnurnar hafa verið ákallaðar og jafnvægi komið á milli þeirra, er venjulega einhver guð eða gyðja ákölluð. Síðan er framinn galdur, þ.e. ímyndunaraflinu er beitt til að orsaka breytingar í vitundarástandi eða hinum veraldlega heimi. Ímyndunaraflið, sem nornin notar í halfgerðum transi og í einingu við eitthvert goðmagn, er afar sterkt afl eins og allir vita sem hafa prófað. Galdur er samt ekki alltaf stundaður í nornaseremóníu, stundum er eini tilgangurinn að komast í snertingu við almættið. Hápunkturinn er þá Í lok athafnarinnar, þegar blessun viðkomandi guðs eða gyðju er “dregin niður” i ákveðin mat, oftast köku og öl, og hann síðan borðaður og drukkinn, eins og í kristinni altarisgöngu.

Rétt eins og árlegar hátíðir eru í kristni, halda nornir upp á sína hátíðsdaga. Það eru átta slíkir og er þeim dreift jafnt yfir árið. Þetta eru vor - og haustjafndægur, sumar - og vetrarsólstöður, og líka 31. október, 31. janúar, 30 apríl og 31 júlí. Allt saman gamlar, heiðnar hátíðir sem tengjast uppskerunni og gangi sólar. Nornir eru líka meðvitaðar um gang tunglsins og galdrar eru venjulega framdir undir heppilegri tunglsstöðu. Þegar tungl er vaxandi er betra að gera “skapandi galdur”, þ.e. breyta aðstæðum til betri vegar, en á dvínandi tungli er heppilegra að gera “eyðandi galdur”, þ.e. hreinsa til og líka opna fyrir innblástur.

Nú mætti ætla af ofangreindu að nornir í dag séu bestu grey, nokkurskonar dóplausir hippar sem eru að reyna að lifa í takt við náttúruna og komast í breytt vitundarástand. Víst er að það er rétt að miklu leyti. Margt meðvitað og andlega leitandi fólk sem finnur sig ekki í kirkjunni, stundar galdra sem andlega iðkun. Síðustu hundrað árin hefur galdur nefnilega verið að sækja í sig veðrið sem vinsælt andlegt iðkunarkerfi, og margar nornir nútímans iðka einfaldaða útgáfu af göldrum þeim sem kenndir voru í frægustu galdrareglu allra tíma. Þetta var The Order of the Golden Dawn sem var við lýði um aldamótin, leið síðan undir lok en skaut aftur upp kollinum í breyttri mynd fyrir ekki svo löngu síðan. Galdrameistarinn frægi, Aleister Crowley, nam þar sín fræði og hafði ómæld áhrif á nornahreyfinguna í dag. Margar nornir eru þó svo vitlausar að vita þetta ekki, og halda fram að trúariðkanir þeirra séu einungis endurreisn ævagamalla trúarbragða. Fræðin hafi varðveist í munnlegri geymd, og vígslum mann fram af manni allt frá steinöld. Einnig er óljóst minnst á dularfulla “bók skugganna”, nokkurskonar biblíu nornanna sem geymir hin leyndu fræði, og nornir á ýmsum tímabilum mannkynssögunnar eiga að hafa skrifað í. Öðrum þykir þetta þó vafasöm sagnfræði, og ganga svo langt að segja að margt bendi til að nornatrú nútimans hafi einfaldlega ekki verið til fyrir seinni heimsstyrjöld.

Vísbending um þetta mun vera að finna í gyðjudýrkuninni sem er eitt aðaleinkenni nornasiðs nú á dögum. Heldur hefur gengið erfiðlega að finna dæmi um gyðjuátrúnað meðal norna á miðöldum; að vísu mun vera til einhver kirkjubók frá tíundu öld þar sem segir að “nokkra illgjarnar konur, spilltar af djöflinum og lokkaðar af árum, trúa því og halda fram að þær ríði ákveðnum skepnum í skjóli nætur með Díönu, gyðju heiðingjanna… og eru kallaðar til þjónustu hennar.” En í játningunum sem auðmjúkir þjónar kirkjunnar kreistu út úr nornunum með þumalskrúfum á tímum galdrafársins á árunum 1484 til 1692, kemur ekkert fram sem bendir til gyðjudýrkunar. Nornir sem voru pyntaðar á hroðalegan hátt hefðu örugglega sagt frá gyðjunni sem þær eiga að hafa dýrkað, ef um einhverja gyðjudýrkun hefði verið um að ræða.

Reyndar var ekki allur vitnisburðurinn fenginn með pyntingum. Sumir telja samt að engar nornir hafi verið til á miðöldum; norna - og galdrafárið hafi verið ofsóknarbrjálæði sem greip um sig, og játningar nornanna aðeins afleiðing glóandi tanga og leiðandi spuninga. Þetta er of mikil einföldun, því þess ber að geta að sumar játningarnar voru algerlega sjálfviljugar. Isabel nokkur Goudie, nornin af Aulderne eins og hún var kölluð, játaði fúslega að hún hefði átt samskipti við djöfulinn, og þekktur rithöfundur, J.W. Brodie Innes, skrifaði afar áhugaverða skáldsögu, The Devil's Mistress, sem byggð er á vitnisburði hennar. Margar fleiri miðaldanornir munu hafa sagt frá svipuðum hlutum af frjálsum vilja, og því er ekki allskostar rétt að nornaiðkun miðalda hafi aðeins verið móðursýki rannsóknarréttarins. En jafnvel þó nornir hafi í raun og veru verið til stunduðu þær flestar ósköp meinlausa heiðni, þar sem djöfullinn og aðrir árar komu hvergi við sögu. Þessi trúariðkun hefur að öllum líkindum verið leifarnar af heiðnum trúarbrögðum fornaldar, ásamt ýmiskonar alþýðuspeki. Kannski hefur eitthvað af þessari iðkun varðveist, og nútímanornasiður að hluta til þá endurreisn hennar. Nornir í dag eru þó undir mun meiri áhrifum af Aleister Crowley, eins og síðar verður vikið að.

Ef fáeinar nornir miðalda á borð við Isabel Goudie voru í tygjum við djöfulinn - sem nútímanornir trúa ekki á, hvernig áttu þessi samskipti sér þá stað? Safaríka kenningu um það má finna í bókinni Practical Magic and the Western Mystery Tradition eftir einn þekktasta galdramann þessarar aldar, Walther Ernest Butler. Butler, sem nú er látinn, er kunnur fyrir að hafa stofnað einn af vinsælustu galdraskólum nútímans, sem ber heitið Servants of the Light (www.servantsofthelight.org). Hann var einnig prestur í kaþólsku fríkirkjunni, rammskyggn og hvaðeina. Kenning hans um nornir er sú að fáeinir nornasöfnuðir á miðöldum hafi verið með ægilegar, yfirskilvitlegar svallveislur. Þar var drukkið sérstakt vín, sabbat-vínið svokallaða, sem var hið ægilegasta dóp. Það hafði þá náttúru að gera hvern þann sem neytti að líkamningamiðli! Nú er nauðsynlegt að útskýra að til eru miðlar, að vísu afar fátíðir, sem hafa þann hæfileika að gefa frá sér svonefnt útfrymi. Þetta útfrymi er einskonar efni sem streymir út um munn miðilsins, og framliðinar verur geta klæðst því, og gert sig sýnilegar og áþreyfanlegar venjulegu fólki. Svoleiðis miðlar eru kallaðir líkamningamiðlar, og einn slíkur, danski miðillinn Einar Nielsen, kom reglulega í heimsókn til Íslands á meðan hann lifði og hélt hér magnaða miðilsfundi. Hinir framliðnu birtust þar, klæddir draugslegum, hvítum slæðum, og voru jafnvel teknar ljósmyndir af fyrirbærunum. Venjulegt fólk gat meira að segja snert draugana, enda urðu þeir nánast holdi klæddir, og þess voru dæmi að einstaka fundargestur lyftist hátt upp í loft…

Undir áhrifum sabbat-vínsins breyttust miðaldanornirnar í svona líkamningamiðla, en verurnar sem holdgerðust hjá þeim á samkomunum voru engar venjulegar vofur, heldur árar og djöflar úr einhverjum hliðarvíddum. Upphófst nú hið ægilegasta kynsvall þar sem allir voru með öllum, menn og konur með púkum og árum. Það hlýtur að vera augljóst að svona veislur voru ekki beint heilsusamlegar.

Butler heldur því fram að í gegnum aldirnar hafi starfað svokallað hvítbræðralag, meistarar í hvítagaldri, sem börðust gegn nornunum og gerðu allt til að leysa upp nornasöfnuðina. Uppskriftina að sabbat-víninu höfðu nornirnar skrifað niður í handbækur sínar, og voru þær jafnan gerðar upptækar og þeim eytt hið snarasta. Þess vegna veit enginn lengur hvernig sabbat-vínið var framleitt, og það er líka eins gott, því svoleiðis sukk er forboðið með öllu. Engin meðferð er til við því; sá sem notar sabbat-vínið, segir Butler, er glataður að eilífu um aldir alda.

Wicca, trúarathafnirnar sem nornir í dag iðka eru í engri líkingu við sabbat-veislur miðaldanornanna. Samt vara margir galdramenn við nornaathöfnum samtímans, og þekktur nútímagaldramaður, Michael Bertiaux, hefur haldið því fram að margar nornir séu ekkert annað en illgjarnir klaufar sem ekkert kunna fyrir sér. Seremóníurnar sem þær iðka séu svo klunnalega samansettar að heil hersing af ljótum púkum komi svífandi og setjist á nornirnar eins og mý á mykjuskán. Sem betur fer ná þeir ekki að líkamnast, en geta valdið allskyns vandamálum þrátt fyrir það. Margir miðlar taka í sama streng, og einn erlendur miðill sem var hér í heimsókn fyrir nokkrum árum síðan vakti töluverða athygli er hann sagði blákalt að margar íslenskar fjölskyldur yrðu fyrir miklum óþægindum af völdum myrkraaflanna; töluverður fjöldi unglinga væri á kafi í nornakukli, og vekti óvart upp illgjarnar verur að handan, sem gerðu usla á íslenskum heimilum.

Wicca kemur óbeint frá mesta galdrameistara aldarinnar, Aleister Crowley, þó margar nornir haldi fram aldagamalli hefð, eins og fyrr var greint frá. Fyrir þá sem ekki vita fæddist Crowley í Englandi árið 1875. Hann var ósköp venjulegt barn og unglingur, en var svo óheppinn að foreldrar hans tilheyrðu kristnum sértrúarsöfnuði. Þetta var örugglega ein af ástæðum þess að hann gerði uppreisn um síðir og fór að leggja stund á hina forboðnu list.

Crowley nam galdur í Order of the Golden Dawn, eins og áður sagði. Fljótlega fór hann þó sínar eigin leiðir, og gerði reglusystkyni sín ævareið er hann gaf út leyndarmál reglunnar. Hann var samt óhræddur við reiða galdramenn, og hann var líka hvergi banginn við að gera allskonar dulspekitilraunir. Hann ferðaðist um heiminn og kynntist ýmsum iðkunarhefðum, hélt því sem gott var, og þróaði sitt eigið iðkunarkerfi sem hann kenndi og margir telja afar áhrifaríkt.

Aðalástæðan fyrir því að Crowley hefur verið bendlaður við djöfladýrkun, er sú að hann blandaði saman kynlífi og göldrum; hann taldi að þannig virkuðu galdrar best. Fyrir utan það að hann gaf út dónalegar ljóðabækur, sem þóttu hið hroðalegasta guðlast fyrr á öldinni. Svo var hann líka mikið fyrir sýndarmennsku, og hafði gaman af að hræða fólk. Húmor hans var oft misskilinn, eins og þegar hann tók að skrifa áróður á móti Bretum á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Áróðurinn birtist í þýsku þjóðernisblaði sem hét The Fatherland, og var það gefið út í Bandaríkjunum. Margir urðu reiðir þegar hann skrifaði: “Af einhverjum ástæðum ákváðu Þjóðverjarnir í síðust Zeppelin-árásinni á London að dreifa skaðanum sem mest, í stað þess að einbeita sér að einu hverfi. Hús nálægt skrifstofu lögfræðingsins míns í Chancery Lane eyddist algerlega… Töluverður usli varð í Croydon, sérstaklega í úthverfinu Addiscombe, þar sem frænka mín býr. Því miður hittu Þjóðverjarnir ekki húsið hennar. Zeppelin greifi er virðingarfyllst beðinn um að reyna aftur. Heimilisfangið er Eton Lodge, Outram Road.”

Crowley stýrði galdrareglu sem ber heitið Ordo Templi Orientis, eða OTO. Í efstu gráðunum er kenndur kynlífsgaldur, þ.e. trúar - og galdraathafnir í bland við ýmsar tegundir kynmaka. Meðan Crowley lifði var töluverður fjöldi fólks í reglunni, þar á meðal hinn alræmdi L. Ron Hubbard, er síðar stofnaði Vísindakirkjuna sem John Travolta og Tom Cruise eru í. Einnig vísindamaðurinn John W. Parsons, sem varð þess heiðurs aðnjótandi að gýgur á tunglinu var nefndur eftir honum. OTO er ennþá starfandi í dag, þó reglan hafi klofnað eftir dauða Crowleys árið 1947.

Allir trúarleiðtogar verða að eiga eftirmann, og þegar Crowley var orðinn gamall tók hann skiljanlega að huga að þessu. Varð meðal annars fyrir valinu Gerald nokkur Gardner, sem hafði unnið sig upp einn þriðja af metorðastiganum í OTO. Gardner var Englendingur eins og Crowley, og hafði komst í enska fræðafélagið með stolinni grein um malayíska hnífa. Hann var opinber starfsmaður og vann sem tollvörður í Malaysíu, síðar varð hann ríkur sem gúmmíbóndi.

Gardner var áhugamaður um nornatrú og galdra, og líka um flengingar. Crowley gaf honum leyfi til að stofna deild innan OTO og vígja fólk inn í fyrstu þrjár gráður reglunnar. Gardner virðist þó ekki hafa gert þetta, heldur stofnaði sinn eigin söfnuð þar sem nornatrú var ástunduð. Hann borgaði Crowley stórfé til að semja seremóníur og leiðbeiningar fyrir söfnuðinn, allt þetta var síðan kallað Skuggabókin, og styðjast margar nornir við hana enn þann dag í dag. Gardner bætti þó ýmsu við frá sjálfum sér, þar á meðal að nornir ættu að vera naktar í trúarathöfnunum og væru flengdar í bak og fyrir…

Árið 1954 gaf Gardner út bók sem hét Witchcraft Today, og þar var staðhæft að fjöldinn allur af nornum væru enn við lýði nú á dögum. Þetta var ekki rétt, en bókin vakti samt mikla athygli, og bréfum frá ólíklegasta fólki sem vildi verða nornir líka, rigndi yfir Gardner. Gardner var þar með orðinn norna-gúrú, og vígði fjölda fólks inn í söfnuð sinn. Þessar svokölluðu nornir vígðu svo aðra, og eftir nokkur ár voru nornasöfnuðir komnir út um allt Bretland, og síðar um gjörvöll Bandaríkin. Það má því segja að nornatrú samtímans sé byggð á gabbi - eða að minnsta kosti á stórfelldum ýkjum.

Af Gardner er til skemmtileg saga sem gerðist ári eftir að bók hans kom út. Kona nokkur sem hét Clanda var í nornasöfnuðinum, og átti hún sér þann draum heitastan að gerast “norn mánans”. Nú er dálítið óljóst hvað hún átti við með því; hún þóttist vera “vatns-norn” sem er álíka skrýtin nafngift, kannski hafði hún hæfileika til að stjórna ósýnilegum verum hafsins, var skyggn og annað sem í dulspekihefð tengist náttúrukrafti vatnsins. Hjá Gardner fann hún enga útrás fyrir hæfileika sína, og gekk því í annan söfnuð sem þá var nýstofnaður. Hann hét New Isis Lodge, og höfuðpaurinn þar var Kenneth nokkur Grant , lærisveinn Crowleys og höfundur einhverra geggjuðustu og skemmtilegustu bóka um galdra sem skrifaðar hafa verið. Tilgangur meðlima New Isis Lodge var að gera hrikalegar svartagaldurstilraunir þar sem hugarfóstur hryllingsrithöfundarins H.P Lovecrafts komu mikið við sögu. Clanda gekk í söfnuðinn og undi glöð við sitt.

Gardner vildi fá Clöndu aftur. Hann sá samt enga aðra leið en að nota galdur, og í stað þess að fremja hann sjálfur réð hann annan enskan galdramann til verknaðarins, Austin Osman Spare, en hann málaði myndirnar sem prýða þessa grein. Spare var einn af fáum alvöru nornum sem uppi hafa verið á þessari öld, og hann var rammgöldróttur. Hann málaði einhver galdratákn á disk, magnaði hann upp og lét Gardner fá töfragripinn gegn þóknun. Tilgangur gripsins var að “ná stolinni eign aftur til eiganda síns.”

Er Gardner byrjaði að nota töfragripinn samkvæmt leiðbeingum Spares, voru meðlimir New Isis Lodge að gera seremóníu þar sem ákveðin birtingarmynd egypsku gyðjunnar Ísis var ákölluð, hin svonefnda Svarta Ísis. Sterk reykelsisangan lá í loftinu, og eina lýsingin kom frá tveimur risastórum kertum sem voru staðsett sitthvoru megin við altar. Ofan á altarinu lá svo Clanda. Clanda átti að vera miðill fyrir gyðjuna Ísis, og galdramennirnir umhverfis hana voru með allskyns handayfirlaggningar og galdraþulur, og var Clanda í þann mund að falla í djúpan trans. Allir bjuggust síðan við að gyðjan myndi tala í gegnum hana. En öllum að óvörum settist hún skyndilega upp, starði út í loftið og virtist skelfingu lostin. Síðan lagðist hún aftur niður og galdramennirnir fundu þá kaldan vindgust blása um herbergið. Frá glugganum heyrðist eitthvað sem helst líktist klóri; Clanda sagði síðar að hún hefði séð risastóran fugl steypa sér að henni, hann hrifsaði hana upp með klónum, flaug með hana út um gluggann og svo svifu þau yfir borginni á ógnarhraða. Auðvitað lá líkami hennar kyrr á altarinu á meðan þetta var að gerast, hér var um sálfarir að ræða - og það af verstu tegund. Á endanum tókst Clöndu að losna úr klóm óvættsins, og komst hún til baka heilu og höldnu. Þess má geta að leiðtogi New Isis Lodge, Kenneth Grant, var mikill vinur Spares, sem ekki haft neina hugmynd um hvað málið snerist. Seinna sagði hann Grant að hann hefði vakið upp einhverskonar draug og bundið í töfragripinn sem hann lét Gardner fá. Draugurinn leit út eins og ugla með leðurblökuvængi og risastórar klær.

Hvað varðar Clöndu, þá drukknaði hún skömmu seinna er hún var á ferð með skipi. Grant segir í einni bók sinni að kannski gerðu vatnsvættir hafsins tilkall til Clöndu - sem var “vatns-norn” eins og fyrr var greint frá, og náðu henni að lokum í hafið. Þar með hafði galdur Spares virkað…

Gardner lést árið 1964. Hreyfingin hans klofnaði þá í þrjár meginstefnur, þó áhrifa Crowleys gæti þar allsstaðar. Stærsta hreyfingin samanstendur af svokölluðum Alexander-nornum, kenndar við mann að nafni Alec Sanders, sem hefur vígt ótölulegan fjölda norna. Sanders segir sjálfur að amma hans hafi vígt hann inn í aldagamla leyndardómana í eldhúsi í Manchester þegar hann var níu ára gamall. Það sem hann lærði af ömmu gömlu er þó ósköp keimlíkt því sem Crowley kenndi. Hinar tvær greinarnar á nornahreyfingu Gardners eru annarsvegar þeir sem viðhalda siðum Gardners í sinni hreinustu mynd. Það eru einkum furðufuglar sem finnst gaman að stunda seremóníur og vera flengdir. Hinsvegar eru nýaldarnornirnar, sem halda öllum dónaskap utan við trúarathafnirnar, klæða sig í flotta kufla og dýrka Móður Náttúru. Sumar þessara norna eru femínistar og vilja ekkert sjá inni í hringnum eða utan hans sem minnir á karlmann.

Hér hefur verið gerð tilraun til að gera úttekt á nornasið nútímans. Eins og sjá má eru nornir í dag mun fleiri en uppi voru á miðöldum. Enda engin kirkja og rannsóknarréttur til að brenna fólk á báli; nú ríkir trúfrelsi, og nornatrúin er síst verri en önnur trúarbrögð. Kannski eru nornir til á Íslandi; ef sterk nornahreyfing nær að myndast hér væri það helst meðal unga fólksins sem liggur á internetinu daginn út og daginn inn. Á veraldarvefnum úir og grúir af upplýsingum um Wicca, nornir og nýheiðinn sið, og andlega leitandi fólk rekst á þessar upplýsingar fyrr eða síðar.

Fyrir ekki svo löngu síðan auglýsti ég eftir barnapíu í hverfinu. Nokkrar stúlkur um sextán ára aldur svöruðu auglýsingunni, og tvær eða þrjár þeirra skiptust síðan á að passa fyrir mig af og til. Kvöld nokkurt þegar ég var að fara út, sagði ég við eina barnapíuna að ef henni leiddist gæti hún alltaf farið inn á internetið úr tölvunni minni. Hún þáði það, en bætti svo við að hún væri reyndar mikið á veraldarvefnum heima hjá sér. Jæja? - sagði ég. Og hvað ertu helst að skoða? Þá kom undarlegur svipur á andlit hennar, hún leit snöggt á allar Crowley-bækurnar mínar, glotti svo og svaraði: Wicca.

(HEIMILDIR: Kenneth Grant: IMAGES AND ORACLES OF AUSTIN OSMAN SPARE; Kenneth Grant: THE MAGICAL REVIVAL; Gerald Gardner: WITCHCRAFT TODAY; W.E. Butler: PRACTICAL MAGIC AND THE WESTERN MYSTERY TRADITION; Michael Bertiaux: THE VOUDOUN GNOSTIC WORKBOOK; David Griffin: THE RITUAL MAGIC MANUAL; E.E.Rehmus: THE MAGICIAN'S DICTIONARY; John Symonds: THE KING OF THE SHADOW REALM; Nema: MAAT MAGICK. Þess má geta að athyglisverða lýsingu á íslenskum seið til forna er að finna í bók Þorsteins Antonssonar um Jón Norðmann í Selnesi, SKYGGNI)