Ég bara verð að tala aðeins um verndarengla, eða hvað maður á nú að kalla það, fyrst að þessi skoðanakönnun um þá er í gangi!

Mér finnst, og hefur alltaf fundist einhver vaka yfir mér.
Það er eiginlega alveg sama hvað ég geri… ef ég óska mér eitthvað, eða vona eitthvað alveg rosalega mikið þá yfirleitt fæ ég það. Oftast ekki nákvæmlega alveg eins og ég vildi, en nálægt því. T.d. ætlaði ég að panta tíma hjá Kírópraktor um daginn, og þar sem ég var mjög tímabundin alla vikuna eftir, vildi ég reyna að fá tíma samdægurs. Ég hringdi og fékk ekki tíma á þeim tíma sem ég vildi. Svo um kl. 5 leitið (sem var tíminn sem ég ætlaði að panta), var ég að keyra nálægt staðnum þar sem kírópraktorinn minn vinnur, og þá hringir kíró í mig og segir að maðurinn sem átti að vera á þeim tíma sé fastur úti á landi, og ég gat brunað beint til kíró.

Eða bara ef ég kannski sit inní stofu og hugsa alltíeinu, mig vantar nú eiginlega nýjan lampa! og 2 dögum seinna tilkynnir mamma mér að hún hafi verið að taka til í geymslunni og hafi fundið þennan fína fína lampa fyrir mig.

Og þetta er alltaf að koma fyrir mig (ég er reyndar ekki búin að vinna í lottóinu ennþá, híhí - þyrfti kannski að kaupa miða fyrst líka!), en aðrir hlutir, mig vantar vinnu - ég fæ vinnutilboð. Mig vantaði maskara um daginn, var á leiðinni að kaupa mér og svo fékk ég 3 gefins, frá mismunandi fólki, án þess að vera búin að segja neinum að mig vantaði þá.

Svo koma stundum hlutir ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér þá. T.d. ég var að spá í hvort ég ætti að kaupa alvöru jólatré um jólin, en þar sem ég var að spara ákvað ég að sleppa því. Ég var samt frekar leið yfir þessu þar sem ég er algjör jólabarn. Svo ca 4. janúar er alltíeinu komið stórt jólatré fyrir utan gluggann minn, ekki notað, alveg grænt og fallegt, í svona neti (eins og þau eru sett í á jólatréssölum). Bara aðeins of seint!

Auðvitað er ekkert allt lífið mitt eintómur dans á rósum, en það er æði að fá stundum óskir sýnar uppfylltar af einhverjum sem vakir yfir manni.

Kveðja,
Ljúfa