Í þessari grein ætla ég að fjalla um rúnastafina Reið, Kaun, Hagal og Nauð, en þeir tveir síðastnefndu voru mjög mikið notaðir í galdra hér áður fyrr.

REIÐ

Norska kvæðið
Reið kveða hrossum versta;
reyinn sló sverðið besta.

Íslenska kvæðið
Reið er sitjandi sæla
og snúðug ferð
og jórs erfiði.
[Íter ræsir.]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún mikla stjórn á hlutum. Þessi rún er eingöngu andleg og er hún tákn fyrir þá “yfirnáttúrulegu” krafta sem býr í fólki (Persónulega hef ég aldrei viljað kalla þetta yfirnáttúrulega krafta því allir fæðast með eitthvað af þessu í sér og því vil ég kalla þetta náttúrukrafta en set hitt með þannig að fólk skilji betur hvað ég meina). Rúnin merkir að með þessum kröftum muni koma í ljós það sem spyrjandinn er að leita að. Sjá þarf í gegnum hlutina og einnig horfa á málin frá mörgum sjónarhornum.

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún andlega ögrun. Læra þarf að treysta eðlisávísun sinni frekar en úthugsuðum skoðunum.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr rétt merkir hún að með gjöf skal gjöf gjalda.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr öfugt merkir hún illsku. Rúnin er að benda á að spyrjandinn sé á villigötum vegna eigin geðþótta. Varast skal að vera með ruddaskap gagnvart óvinum sínum, það gerir bara illt verra.

KAUN

Norska kvæðið
Kaun er barna bölvan;
böl gerir ná fölvan.

Íslenska kvæðið
Kaun er barna böl
og bardaga för
og holdfúa ás.
[Flagella konungur.]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún kraft, þor og visku. Þótt hindranir verði á vegi þínum munt þú geta yfirstigið þær auðveldlega.

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún óvissum og vanmat á eigin getu. Hálfnað verk þá hafið er.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr rétt merkir hún sóun á bæði hæfileikum og peningum. Varast skal að falla í gryfju hvers konar vímugjafa, þó sérstaklega áfengi.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr öfugt merkir hún sjálfseyðingu og afturför andlega, jafnvel geðræn vandamál.

HAGALL

Norska kvæðið
Hagall er kaldastur korna;
Kristur skóp heiminn til forna.
(Hér má sjá greinilega hvernig kvæðin breyttust eftir kristnitöku)

Íslenska kvæðið
Hagall er kaldakorn
og krapa drífa
og snáka sótt.
[Grando hildingur.]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún að kosta þurfi mikið til að ná árangri sem erfiðis. Þessi átök eru óumflýjanleg.

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún óumflýjanlegan ósigur. Vandræði vegna eigin fávisku. Lærdómur mun þó koma af þessu öllu.

Þessi rún hefur enga merkingu þegar hún er á hvolfi.

NAUÐ

Norska kvæðið
Nauð gerir knappa kosti;
kaldan kelur í frosti.

Íslenska kvæðið
Nauð er þýjar þrá
og þungur kostur
og vássamlegt verk.
[Opera niflungur.]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún óstöðvandi velgengni. Grípa skal tækifærin þegar þau gefast.

Þessi rún getur ekki snúið öfugt.

Þegar rúnin er á hvolfi merkir hún erfiðan andstæðing sem mjög erfitt er að sigra en hægt þó. Þolinmæði þrautir vinnur allar.