Ég vil byrja að þakka herrflik fyrir mjög áhugaverða og skemmtilega grein um rúnaristur og kaballah og mæli ég með að fólk lesi þá grein. Til gamans ætla ég að láta vísu Egils Skallagrímssonar fyglja hér um þegar hann finnur rúnirnar og eyðileggur:

Skalat maðr rúna rista,
nema ráða vel kunni.
Það verðr mörgum manni,
er of myrkvan staf villist.
Sá eg á telgdu tálkni
tíu launstafi rista.
Það hefr lauka lindi
langs oftrega fengið

Í þessari grein og næstu 3 ætla ég að fjalla um 16 stafa rúnaletrið og tek ég 4 stafi í senn. Mun ég eingöngu fjalla um spádómshlitiðina á þeim. Styðst ég við bækurnar “Galdrar á Íslandi” eftir Matthías Viðar Sæmundsson og “Rúnir” eftir Tómas V. Albertsson.
Kvæðin sem fylgja hér með eru merkingar hverrar rúnar fyrir sig.



Norska kvæðið:
Fé veldur frænda rógi;
fæðist úlfur í skógi.

Íslenska kvæðið:
Fé er frænda róg
og flæðar viti
og grafseiðs gala.
[Aurum fylkir] (þessi viðauki hefur komið síðar)

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún frjósemi og aukna velmegun.

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún slæma stjórn á fjármálum og ófrjósemi.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr rétt merkir hún að það sé ekki hægt að stjórna öflum náttúrunnar, maður verður að fylgja straumnum.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr öfugt merkir hún að stundum þurfi að fara krókaleiðir til að komast á áfangastað, og að nú sé gott að hagnast á aðstæðum.

ÚR

Norska kvæðið
Úlfur er af illu járni;
oft hleypur hreinn á hjarni.

Íslenska kvæðið:
Úr er skýja grátur
og skara þverrir
og hirðis hatur.
[Umbri vísi]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún innblástur andans og mikla sjálfstjórn.

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún hina slæmu hluti mannsins, vanþroska hugans og óöryggi.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr rétt merkir hún mótlæti heimsins og að náttúruöflin séu þér andsnúin. Brátt munu erfiðir tímar ganga í garð.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr öfugt merkir hún stöðnun hugans og að andagiftir minnki til muna. Læra þarf af mistökunum.

ÞURS

Norska kvæðið
Þurs veldur kvenna kvillu;
kátur verður fár af illu.

Íslenska kvæðið:
Þurs er kvenna kvöl
og kleta búi
og varðrúnar ver.
[Satúrnus þengill]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún einhvers konar ferðalag. Brátt hefst nýtt tímabil.

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún stöðnun og aðvörun um að breyta þurfi um lífstíl. Ekki skal búast við að hlutirnir gangi upp.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr rétt merkir hún að ekki skuli breyta til breytinganna vegna. Fólk sem stendur þér nálægt gætu reynt að vinna þér skaða á einn ea annan hátt.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr öfugt merkir hún tál, lygar, svik og blekkingar.

ÓSS

Norska kvæðið:
Óss er flestra ferða
för; en skalpur er sverði.

Íslenska kvæðið:
Óss er aldingrautur
og Ásgarðs jöfur
og Valhallar vísi.
[Júpíter oddviti]

Þegar rúnin snýr rétt merkir hún að hlusta skal á þá sem eru eldri og vitrari. Þessi rún er sterklega tengd goðunum og krafti þeirra (minnir líka að hún sé mjög tengd Óðni).

Þegar rúnin snýr öfugt merkir hún að vanmat hafi átt sér stað í ákvarðanatöku. Breyttar aðstæður krefjast breyttra hugsana.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr rétt merkir hún andlegan styrk til að söðla um og breyta lífi sínu til batnaðar. Hæfileiki til að taka réttar ákvarðanir og horfast í augu við hætturnar.

Þegar rúnin er á hvolfi og snýr öfugt merkir hún mikla ógæfu og mikil vandræði í ástarmálum.