Miðillinn Hafsteinn Björnsson Hafsteinn Björnsson fæddist þann 30. október 1914.

Hafsteinn var mjög skyggn frá fæðingu og sá huldufólk jafnt sem framliðna.

Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir það þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hafsteini hlotnaðist þó loks búðarstarf sem honum líkaði vel. Ein saga er af Hafsteini sem gerðist oftar en einu sinni: Oft var ös fyrir framan búðarborðið hjá honum. Eins og góðum afgreiðslumanni sæmir, beygir hann sig fram yfir borðið og spyr: ,,Hvað get ég gert fyrir ykkur?” Hann fékk ekkert svar en þeir sem voru með honum bakvið afgreiðslu hlógu og spurðu: ,,Ertu að æfa þig?”, enda sáu þeir engann fyrir framan borðið. Þessar verur voru alltaf að þvælast fyrir honum hvert sem hann snéri sér. Í fljótu bragði gat hann ekki greint, hvort það væru látnir eða lifendur, sem stóðu fyrir framan búðarborðið. Kom þetta nokkuð í veg fyrir það að Hafsteinn yrði eftirsóttur búðarmaður.

Margir stóðu á bakvið Hafstein og er þar hægt að nefna menn eins og Einar H. Kvaran, Jónas Þorbergsson, Einar Loftsson og fleiri. Þessir menn sáu meðal annars um þjálfun hans og veittu honum mikinn stuðning.

Hafsteinn hélt fyrsta almenna skyggnilýsingafundinn árið 1938 með aðstoð Einars Loftssonar. Smátt og smátt jók hann við sig og var m.a. fljótlega farinn að halda fjöldafundi í sveitum og þorpum úti á landi. Þessir fundir voru ómetanleg kynning og útbreiðslustarf fyrir spíritismann hér á Íslandi, enda sést það best á því að fjögur sálarrannsóknarfélög voru stofnuð á þessum árum: Á Akureyri, í Hafnarfirði, á Selfossi og í Keflavík.

Hafsteinn var svokallaður transmiðill og féll í dá á fundunum. Í transinum mátti meðal annars heyra hann tala þýsku, ensku og fleiri tungumál reiprennandi, en Hafsteinn sjálfur kunni þau tungumál ekki.

Hér var stiklað á stóru um Hafstein en til eru ótal sögur um skyggnigáfu Hafsteins og hina einstöku miðilsfundi hans og get ég nefnt bækurnar ,,Hvert liggur leiðin”, ,,Sögur úr safni Hafsteins miðils” og ,,Leitið og þér munið finna”.


Hafsteinn lést þann 15. ágúst 1977.