Eftirfarandi grein er úrdráttur úr ritgerð um Egilssögu Skalla-Grímssonar, og þó svo að greininni sé ætlað að vera í samhengi, má vel vera að í henni leynist innsláttar villur og að eitthvað vanti. Reynt var að hafa greinina sem stysta, en án þess að sleppa úr nokkru sem skipt gæti máli. Þó var því sleppt úr sem ekki hefði átt erindi inn á þetta áhugamál. Ætlunin með greininni er að fá álit á þeim spurningum sem velt er upp í greininni, og að fá heilbrigða gagnrýni á þær skoðanir sem látnar eru í ljós.

Rúnir og rúnagaldrar skipa sess í Egils sögu Skalla-Grímssonar, og ljóst er að Egill sjálfur kunni vel inn á þær. Hann leiðrétti rúnagaldur er ristur hafði verið á rúmstokk dóttur Þorfinns er bjó við Eiðaskóg. Galdur þennan hafði rist bóndasonur nokkur, sem greinilega var ekki verkinu vaxinn, því dóttir Þorfinns var fársjúk og gat ekki sofið. Egill lítur á táknin, tálgar þau svo af og sker ný tákn á rúmið. Þau tákn hafa nánast samstundis áhrif, og er dóttirin heil þegar Egill á næst leið um. Þegar Egill hefur tálgað gömlu táknin af og rist hin nýju á, kveður hann vísu sem byrjar þannig: “Skalat maðr eigi rúnir rista nema ráða vel kunni” (Egilssaga 74. kafli). Þessi varnaðarorð eiga vel við, enda þótt að rúnir þær eru Egill tálgaði burt hafi kannski verið ætlaðar til ills, þar sem að sá er risti þær vildi hönd bóndadóttur en fékk ekki.
Hver sem tilgangurinn kann að hafa verið, sýndi Egill þarna fram á að hann kunni að fara með rúnir, og skipar sér þarmeð sess með öðrum galdramönnum fornaldar, því hinir heiðnu rúnargaldrar eru engu síðri en kaballah gyðingdóms, eða náttúrulækningar drúídaprestanna. Í rauninni er margt skylt með þessum kerfum, þó svo að athafnirnar séu ekki eins. Rúnir heiðninnar eru galdrar sem stuttan tíma tók að læra, og kröfðust ekki skírlífis þess er beitti þeim, eða algjörrar þjónustu við guðina, en í kaballah er krafist mikillar staðfestu gagnvart guði, og miklar kröfur gerðar um athafnir og aðstæður. Líta má svo á að rúnir séu mun hentugri sem slíkar, því nánast hver sem er gat nýtt þær, og ekki var þörf á margra ára íhugun og einlífi, eins og er raunin með sum önnur galdrakerfi fornalaldar. Ekki var þörf á því að þekkja ganga himintungla, og greinir þar á milli vísindamannsins og galdramannsins. Rammíslenskir galdramenn fornaldar voru ólíkir evrópskum galdramönnum að því leyti að þeir voru ekki fastskorðaðir við stjörnuathuganir og helgiathafnir, heldur var aðeins þekking á goðunum og rúnunum nauðsynleg til þess að geta beitt göldrum sínum. Ekki er nefnt að þeir er ætla sér að beita rúnum þurfi að vera fæddir heiðnir, en í mörgum öðrum kerfum er það skýlaus krafa að lærlingurinn skuli vera fæddur inn í viðkomandi trú. Í kerfi skyldu kaballah sem kennt er við Abramelin (ólíkt kaballah að því leyti að ekki er gerð krafu um það að vera fæddur gyðingur)sem lýst er í riti skrifuðu á 14. öld er ætlast til þess að sá er ætlar að læra þau fræði eyði um hálfu ári í undirbúning sem einkennist af íhugun og helgiathöfnum, miklar kröfur eru gerðar um aldur, en lærlingurinn skal vera á aldrinum 25 til 50, og varað er við því að öðrum muni ekki hlotnast náð guðs. Í kaballah er algjör nauðsyn að sá er ætlar að læra listina sé skilgetið barn foreldra sinna, ellegar getur sá hinn sami ekki numið fræði kaballah. Í fræðum þeim sem kennd eru við Abramelin er einnig ætlast til þess að lærlingurinn skuli hafa sest í helgan stein, og skyldi hann hafa næg fjárráð til þess að þurfa ekki að vinna framar, sem er algjör andstæða við þá er beittu rúnum, sem unnu bústörf fram til dauðadags, og börðust frækilega í orrustum jafnlengi.
Þó svo að margt sé ólíkt með þessum tveim fræðigreinum, rúnum og göldrum kristni, er þó óneitanlega sitthvað líkt með rúnum og stafakerfi kaballah galdra, en rúnir voru ristar á hluti meðan nöfn þeirra voru söngluð, goðin sem hver rún var tengd nefnd, og svo var hluturinn sem rúnirnar voru ristar á kannski brenndur. Í fræðum kaballah er notast við svokallaða ferninga, en þó svo að uppbygging þeirra sé frábrugðin rúnaristum, eru sameiginleg einkenni greinileg, því þar er einnig lögð vinna í að skrifa stafina niður, og nöfn þeirra söngluð með eins og á við um rúnaristur.
Ef ferningar þessir eru skoðaðir, þá sérstaklega ef þeir eru á hebresku, má sjá nokkur sameiginleg einkenni. Margt greinir á milli, en athyglisvert er að líta á það hvernig nöfn rúnanna og stafa ferninganna eru göluð, og þá helst á sem skýrastan og greinilegastan hátt. Ekki er þó hægt að segja að þessi kerfi séu af sama uppruna, en ekki er heldur hægt að útiloka það. Mismunurinn felst meðal annars í því að rúnir hafa afl einar og sér, og eykst aflið þegar mynduð eru orð en ferningurinn er gagnslaus nema hann sé kláraður. Við kaballah galdra er notast við þessa ferninga, og er mikill undirbúningur lagður í þá, miklir útreikningar framkvæmdir fyrir hvern ferning, og ennfremur tekið tillit til stöðu himintunglanna.
Í galdrafræðum þessum eru tilgreindir tveir meginflokkar afla, englar og dárar (í viðbót við heilagan anda) og eru öfl úr báðum flokkunum nýtt við galdra, en þó eru æðri öflin (englar) alltaf látin ákalla hin, svo að galdramaðurinn setji ekki sjálfan sig í hættu. Sá er ætlaði að notfæra sér eitthvað afl gat notfært sér svokölluð innsigli sem eignuð voru hverjum engli eða dára, og átti galdramaðurinn þá að geta komist í beint samband við viðkomandi afl, kynni hann að beita slíku innsigli. Hliðstætt í rúnaristum er nöfn rúnanna, og hvernig þær eru nátengdar einhverju tilteknu goði.
Ef litið er á skiptingu guðdómlegra afla í þessum tveimur annars líku kerfum, sést að þar er einn helsti munurinn á kristni og heiðni, en í heiðni eru goðunum eignaðir bæði góðir og slæmir eiginleikar, en samsvarandi öfl í kristni annað hvort góð eða ill.
Greinilegt er að nokkur atriði eru lík með þessum kerfum, enda hægt að finna sameiginleg einkenni með flestum trúarbrögðum. Af galdrakerfum bera þó rúnakerfið og kaballah af öðrum, því fá önnur kerfi hafa jafn mikla möguleika. Rúnagaldrar virðast þá hentugri, því lítils sem einskis undirbúnings er þörf. Dæmi um slíkt er þegar Egill ristir rúnir í drykkjarhorn sem hann heldur að innihaldi ólyfjan, kvað vísu sem hefst á þessum orðum “Ristum rún á horni, rjóðum spjöll í dreyra.” Þegar hann hefur farið með kvæðið springur hornið og bjargar þarmeð Agli frá vélabrögðum Gunnhildar drottningar og Bárðs.
Við rúnaristu þessa notar Egill eigið blóð, og er ljóst að blóð skipaði stóran sess í slíkum athöfnum. Samsvörun við mikilvægi blóðs við rúnaristu er að finna í mörgum galdraathöfnum, allt frá einföldum fórnarathöfnum frumbyggja til sagnarinnar um hinn heilaga kaleik og það hvernig dreypt er á táknrænu blóði krists í altarisgöngunni.

Unnt er að finna mörg sameiginleg einkenni með rúnaristum (og framkvæmd þeirra) og hinum ýmsustu galdrakerfum fornaldar. Hér að ofan hafa verið talin upp dæmi sem eru að einhverju leyti svipuð, en rannsókn á málefni sem þessu væri erfið viðureignar, einkum sökum þess hve fáar marktækar heimildir eru til um þessa grein trúarbragða.
Unnt er að finna samsvaranir fyrir flestu ef leitað er til hlítar, en ekki er víst að samsvörunin sé að nokkru leyti skýranleg með rökum. Reynt hefur verið að sýna fram á samsvarandi siði og aðferðir, en ljóst er að þessi upptalning er engan veginn tæmandi, og má vel vera að mörg fleiri sameiginleg einkenni finnist. Einnig má vera að þau einkenni sem höfundi hafa fundist skyld með báðum kerfunum séu ekki með nokkru móti lík…