Hugsunin á bak við fjölgyðistrú í Wicca Wicca er það sem kallað er náttúrutrú eða andatrú. Þeir sem eru Wicca sjá guðdóminn í öllu í náttúrunni. Þeir trúa á almættið, ljósið, tao, alheimsorkuna eða Hið Eina eins og það heitir í Wicca. En Hið Eina er svo flókið að við fáum það ekki skilið. Þess vegna sjá þeir Hið Eina í Guðinum og Gyðjuni, eins og Yin og Yang. Galdrar eru einnig stór hluti af Wicca og í raun visst form trúariðkunar. Hins vegar er ekki nauðsynlegt að galdra til að iðka trúna og eru margar aðrar og hefðbundari leiðir til þess.

En hvernig skyldu Wiccar sjá „guðdóminn“ fyrir sér? Guðinn og Gyðjan eru andstæður en sameinast sem eining í Hinu Eina. Þeir trúa því líka að allir guðir og allar gyðjur séu bara mismunandi birtingarform á Guðinum og Gyðjunni. Tökum sem dæmi að þú sjáir Hið Eina fyrir þér sem köku. Þú skerð kökuna í tvennt og er þá annar helmingurinn Gyðjan og hinn helmingurinn Guðinn. Þetta er samt sama kakan. Skerðu svo helming Gyðjunnar í nokkrar sneiðar. Hver sneið er þá gyðja fyrir sig, eins og t.d. Isis, Artemis, Díana, Freyja o.s.frv. Þetta eru allt mismunandi gyðjur. Eins eru þetta mismunandi sneiðar af kökunni. Þær eru samt hluti af sama helmingnum og þar af leiðandi hluti af kökunni í heild sinni. Eins er farið með guðina. Þess vegna skiptir ekki máli hvaða guð eða gyðju þú dýrkar eða ákallar vegna þess að þú ert alltaf að ákalla sama hlutinn. Hann hefur bara mismunandi hliðar og mismunandi nöfn.

Hvers vegna ekki bara að hafa einn guð eða eina gyðju? Eða þess vegna bara eitt afl? Wiccar trúa því Hið Eina sé svo margbreytilegt og flókið að ómögulegt sé að skilja það, eins og áður var sagt. Þess vegna sjá þeir það fyrir sér sem guð og gyðju. Þeim sem Wiccatrúar eru er mjög annt um jafnvægið í alheiminum og þeir trúa því að karlkyn og kvenkyn standi jafnfætis. Með því að hafa einungis guð myndi hið kvenlega vera bælt niður og öfugt ef aðeins væri gyðja. Ef bæði gyðja og guð eru höfð skapast jafnvægi milli kynjanna og eiginleika þeirra. Gyðjan og Guðinn eru hvorug vond eða góð. Þau eru bæði skapandi og eyðileggjandi. Ef við segðum að Guðinn væri vondur og eyðileggjandi værum við að segja að karlkyns ímynd okkar væri þannig og settum þá ómeðvitað Gyðjuna skör ofar en Guðinum, því öll sækjum við jú frekar í hið góða en hið slæma. Slík túlkun væri röng, því að þá myndi hið svokallaða jafnvægi, sem við sóttumst eftir með því að hafa bæði guð og gyðju, raskast.

Við getum einnig litið á náttúruna, því við sjáum Guðinn og Gyðjuna í náttúrunni líka. Gyðjan er jörðin og Guðinn himininn sem umlykur hana. Gyðjan á sér tákn í tunglinu og Guðinn á sér tákn í sólinni. Náttúran er bæði eyðileggjandi og skapandi í senn. Hún gefur líf og hún tekur líf. Við fáum næringu, súrefni, hita og allt það sem við þörfnumst til að lifa frá náttúrunni. Hins vegar geta orðið þurrkar, flóð, eldgos og aðrar náttúruhamfarir sem geta valdið mikill eyðileggingu. Þú getur hvorki sagt að náttúran sé góð eða vond. Hún er hvorugt. Eins eru guðinn og gyðjan hvorugt. Við þörfnumst líka andstæðna til að öðlast þekkingu. Þú myndir ekki þekkja hvað væri gott ef þú hefðir ekki andstæðuna, slæmt/vont, sem viðmið. Þú myndir ekki vita hvað væri fallegt ef þú vissir ekki hvað væri ljótt. Andstæður geta ekki verið án hvors annars, því í hvert sinn sem þú birtir einhvern hlut verður andstæða hans til í óbirtu formi á sama tíma. Andstæður skapa jafnvægi. Þar af leiðandi er mjög skiljanlegt að til að viðhalda jafnvægi hljóti að þurfa að vera bæði guð og gyðja.

En hvers vegna þá að hafa marga guði og gyðjur? Þeir sem eru Wiccatrúar geta vel ráðið því hvort þeir dýrka Guðinn og Gyðjuna og nefna þau ekki sem einhverja sérstaka guði/gyðjur. Prófaðu hins vegar að hugsa þér goðin (guðina og gyðjurnar) sem sérstaka orkubrunna. Í hvert sinn sem þú biður bæn beinir þú orku þinni í viðeigandi orkubrunn. Þeir sem biðja til ástargyðjunnar Afródítu beina þá hugsunum eða orku tengdri ást í þann orkubrunn sem við Afródítu er kenndur. Þá safnast þar saman fullt af orku sem öll er kennd við ást. Þegar þú biður Afródítu einhvers eða sækir orku til hennar í galdraiðkunum varðandi ást þá ert þú að sækja í mikið hnitmiðaðri brunn en annars. Þetta hjálpar þér líka við að einbeita þér betur að einhverju einu markmiði. Fyrir vikið er árangur bæna þinna og/eða galdra mun hnitmiðaðri og jafnvel meiri en annars hefði orðið. Ekki er heldur ólíklegt að árangurinn komi mun fyrr í ljós. Þess vegna er fjölgyðisdýrkun ekki óalgeng innan Wicca.