Ég og kærastinn minn við búum í lítilli íbúð í miðbænum. Við leigjum hana bara tímabundið vegna þess að eigandinn er að reyna að selja hana. Hann þ.e. eigandinn hefur ekki sagt okkur hvers vegna hann vill selja íbúðina en stelpa sem þekkir hann sagði okkur að það væri vegna draugagangs. Við erum búin að vera í þessari íbúð í dálítinn tíma en ekki orðið vör við neitt fyrr en í fyrrinótt. Ég trúi á drauga og tel mig hafa séð a.m.k. einn en ég hef aldrei verið hrædd við drauga fyrr en þessa nótt. Ég og kærastinn minn lágum upp í rúmi og vorum bara að spjalla þegar allt í einu heyrðist eitt stakt píp í símanum hans. Við skildum ekkert í þessu! Batteríið var fullhlaðið og enginn skilaboð eða hringing heyrðist bara þetta furðulega píp. Okkur fannst þetta nú frekar óhugnalegt og það tók okkur smá tíma að sofna. Svo allt í einu hrekk ég upp um 5 leytið við einhvað skrjáf og klór frammi í eldhúsinu. Ég var að pissa á mig af hræðslu eftir fyrri atburðinn og vakti kærastann minn nötrandi og skjálfandi. Hann kallaði fram og þá sá ég lítinn svartan skugga skjótast um ganginn og inn í stofuna. Þetta var þá lítið kattargrey sem hafði laumað sér inn um stofugluggann í von um að ná sér í eitthvað ætilegt. Mér leið eins og fábjána fyrir að vera svona hrædd við köttinn en var samt ekki rótt það sem eftir var næturinnar, mér fannst ég alltaf vera að heyra einhver skrítin hljóð og finna einhvern kaldan gust þó að ég hafi verið búin að loka stofuglugganum. Ég er kannski bara orðin eitthvað ímyndunarveik en núna er ég orðin hálfhrædd við að vera ein í íbúðinni og er farin að hlakka til þegar eigandinn selur hana og við verðum að flytja út. Ég er kannski að gera úlfalda úr mýflugu en ég hef bara aldrei verið svona taugaveikluð út af svona litlu atviki.