Það er svo skrítið, að vera norn er að breyta um lífstíl. Maður breytir um hugsunarhátt. Ég finn það bara að núna þegar ég byrjaði í háskólanum og gat ekki helgað mig göldrunum jafn mikið og áður að mér finnst ég bara tóm. Þetta er svo mikill hluti af mér og ég held ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en núna nýlega. Ég man þegar ég var smákrakki og lá uppi í rúmi og hugleiddi lífið eftir dauðann, gat ekki beðið eftir því að deyja til að fá að vita hvernig það væri. Það þurfti enginn að segja mér að fólk lifði eftir dauðann, ég vissi það bara. Ég var ekki hrædd við dauðann og fannst hann bara spennandi. Eins fannst mér lífið eins og ég upplifði það, svona óskaplega venjulegt, ekki nóg. Ég vissi að það hlaut að vera til eitthvað meira. Allt þetta sem pabbi hafði lesið fyrir mig úr þjóðsögunum, það hlaut að vera eitthvað til í því. Ég gat einfaldlega ekki ímyndað mér lífið jafn “flatt” og fólk vildi vera láta. Mér fannst alltaf eitthvað vanta. Auðvitað spilaði barnslegt ímyndunarafl mitt eitthvað þarna inn í, en það lá svo mikið, mikið meira að baki því en bara það. Ég fann það bara eftir því sem ég eltist. Ég var alltaf svo ein, svo tóm. Mér fannst ég alltaf öðruvísi, eins og geimvera á plánetunni jörð. Mér fannst ég aldrei passa inn í þessa týpísku unglingaímynd og þó mér væri boðið, þá fílaði ég það ekki að fara í partý, drekka bjór í heitapottinum og leyfa strákunum að káfa á brjóstunum á mér. Jújú, auðvitað langaði mig að vera “in” og auðvitað langaði mig að prófa að eiga kærasta, en mér fannst þetta bara asnalegt. Ég var eflaust það sem flestir myndu kalla nörd og vissi ekkert betra en að loka mig inni í herbergi, sitjandi uppi í rúmi með Þjóðsögur Jóns Árnasonar í hendinni eða eina af þessum tugum dulspekibóka sem ég las á þessum árum. Mér fannst galdrarnir alltaf voðalega spennandi í þjóðsögunum, en fannst ég ekkert geta lært af þjóðsögunum einum saman og mér fannst þeir líka vera fremur myrkir. Ég byrjaði að spá í venjuleg spil eftir að ég fann bók sem kenndi að spá í spil inni hjá mömmu. Ég fann líka bók um Tarot og lófalestur. Ég fékk spáspilin hennar mömmu lánuð og hef þau enn, en ég er hætt að lesa þau, því eftir að ég komst í Tarotið fann ég hvað þau voru miklu, miklu betri. Fyrstu Tarotspilin sem ég fékk átti amma mín og ég hef þau, faktíst séð bara að láni, en hún hefur ekki beðið um þau aftur. Ég notaði þau mikið og oftar en ekki spáðu þau rétt. Ég gat notað þau mér til leiðbeiningar. Ég var ekki hrifin af því að elta uppi einhverjar framtíðarspár, las þær bara og gleymdi þeim svo. Stundum skrifaði ég þær niður og las kannski hálfu ári seinna og komst að því að megnið af spánni hafði þegar ræst, en annars velti ég mér ekki mikið upp úr þessum framtíðarspám. Ég les alltaf reglulega í Tarot, en bara til að spyrja ráða, ég vil ekki vita framtíðina lengur. Að minnsta kosti vil ég ekki spá um framtíðina sjálf, því ég veit ég fer bara að búa eitthvað til sem ég vil að gerist. Ef ég vil vita framtíðina bið ég frekar einhverja aðra norn um að spá fyrir mér. Ég nota ekki lengur spilin hennar ömmu, því vinkona mín gaf mér önnur í jólagjöf, mín eigin. Ég er frekar hjátrúarfull og þori ekki annað en að fylgja reglunum, svona just in case, nema ef mér þykir þær of bjánalegar til að verða trúverðugar. Það er nefnilega sagt að maður megi ekki kaupa spilin sín sjálfur og pabbi vildi ekki gefa mér Tarot, þess vegna notaði ég ömmu spil fyrst. Lófalesturinn fílaði ég í tætlur og var orðin frekar góð í honum, en ég hef ekki lesið í lófa í nokkur ár núna. Allavegna, ég byrjaði að lesa Ísfólkið þegar ég var 12 ára og þá kynntist ég öðru sjónarhorni á galdra, þó auðvitað sé sagan um Ísfólkið bara skáldskapur. En Margit Sandemo þekkir a.m.k. eina norn svo ég viti til og var ekki BARA að bulla, enda studdist hún vil heimildir í fleiru en bara um galdra svo sögurnar hennar yrðu sem raunverulegastar, enda eru þær allar í takt við þann tíma sem þær gerast á, þó þær séu oft ástarsöguklisja meðfram göldrunum. Annars, þá ákvað ég að þetta væri eitthvað sem mér þætti voðalega spennandi og fór að leita uppi allt sem ég fann um galdra. Þrettán ára byrjaði ég að prófa að galdra, fyrst prófaði ég eitthvað rugl upp úr Þjóðsögunum en fannst það alltaf hálfbjánalegt. Ég las bókina Galdrar á Íslandi fram og aftur þegar hún kom út, lærði galdrana í henni sem mér fannst ég geta notað og færði þá í örlítið nútímalegri búning. Þeir virkuðu, ótrúlegt en satt. Ég hélt líka áfram að lesa bækur um dulspeki, miðlun og annað álíka. Ég var farin að geta séð árur af og til og orðin mikið næmari en áður. Ég þurfti oft ekki annað en að hugsa það sem ég vildi og þá fékk ég það, gat séð fram í tímann þó ekki væri það langt og gat skynjað hvernig fólki leið um leið og það gekk inn í herbergið sem ég var í. Auðvitað var það ekki eins og í bíómynd, eitthvað hókus pókus, ég þurfti fyrst að setja mig í gírinn og þá kom þetta allt. Ég veit að flestir myndu kalla þetta tilviljanir og/eða ímyndun og það gerði ég líka fyrst, en þetta var bara oftar en ekki of ótrúlegt og of oft til að vera satt. Mér er sama hvað fólki finnst um þetta og hvað þeim finnst um mig, því ég þarf ekki að sanna neitt fyrir neinum nema sjálfri mér. Mér finnst gaman að deila reynslu minni með þeim sem vilja hlusta, ekki til að monta mig, heldur því mér líður sjálfri betur að geta talað um þetta og ég finn að þeir sem ég næ til eru mjög þakklátir og finnst ég stundum geta hjálpað. Ætli þetta sé ekki allt svona hluti af “að komast út úr kústaskápnum” prósessnum eða eitthvað, ég veit ekki. Allavegna, ég stúderaði allt sem ég fann á íslensku. Ég sá örfáar bækur um galdra á ensku á bókasöfnum borgarinnar, en það var allt saman óskaplega fræðilegt, skrifað af einhverjum sem ekki stunduðu galdra sjálfir og oftar en ekki á það flókinni ensku að ég átti erfitt með að komast í gegnum það. Á endanum fannst mér íslensku galdrarnir ekki henta mér lengur, fannst þeir of myrkir og var farin að finna fyrir neikvæðri orku í kringum þetta. Mér fannst þeir heldur ekki vera “ég”, vissi að það var eitthvað annað sem átti við mig og hélt einfaldlega að það væri bara ekki til. Ég dró mig út úr þessu í smá tíma, eða þar til ég komst að því að stelpa sem var með mér í skátunum var Wicca og að það væri svona galdratrú. Ég fór um leið til hennar og spurði hana út í þetta. Hún sýndi mér hluta af skuggabókinni sinni, vildi samt lítið um þetta segja og benti mér á að leita á internetinu. Þegar ég las þessar síður á netinu hugsaði ég með mér að þetta væri það sem ég var að leita að allt mitt líf. Ég var fyrst voðalega ósátt við að mega ekki vera kristin og Wicca um leið, þar til ég áttaði mig á því að í rauninni væri Wicca það sem ég hafði trúað á alla ævi og hreinlega ekki vitað að það ætti nafn. Ég hélt alltaf að ég væri með mína eigin útgáfu af kristni eða eitthvað. Ég er náttla alin upp við það að biðja bænirnar á hverju kvöldi og hafði lesið biblíuna oftar en einu sinni svo mér fannst mjög erfitt að koma mér út úr því. Það tók meira en ár að segja “Ég er ekki lengur kristin, ég er Wiccatrúar!” og enn lengri tíma að segja það við annað fólk, hvað þá fjölskyldu mína. Öllum finnst ég óskaplega skrítin að vera svona, en mér finnst þetta bara eðlilegt. Ég finn að það er þetta sem ég raunverulega er og ætla ekki að eltast við einhverja stereótýpu til að þóknast öðrum. Mamma spyr mig enn reglulega hvenær ég ætli nú ekki að vaxa upp úr þessu galdrarugli, ég segi við hana að þetta sé eitthvað sem ég muni ekki vaxa upp úr og þá hristir hún bara höfuðið. Amma varð mjög sjokkeruð þegar ég sagði henni að ég væri heiðin, en þegar hún komst að því að Wicca fæli í sér dulspeki var hún óskaplega spennt og fannst þetta bara sniðugt. Ég lánaði henni meira að segja tvær bækur, eina um Wicca og hina um galdra!!! Ég var voðalega hissa yfir hversu spennt hún varð yfir þessu og þá viðurkenndi hún fyrir mér að þetta væri í ættinni. Langamma mín var með gífurlegan áhuga fyrir þessu, amma líka, svo er frændi minn, bróðursonur ömmu, galdrakarl og svo kem ég. Það er víst einn í hverri kynslóð norn eða ofuráhugamaður á dulspeki og ég er komin af nornum og galdramönnum úr Skagafirðinum. Það fannst mér virkilega fyndið, því þannig var það líka í Ísfólkinu, bókunum sem ég var svo hrifin af, og amma er meira að segja með svart hár, skásett og gul augu eins og fólkið í bókinni og eins og fleiri úr minni ætt. Ekki það að ég haldi að þessar bækur eigi eitthvað skylt við raunveruleikann eða mína ætt og ættarsögu, heldur fannst mér bara gaman að því að þegar ég las bækurnar og ímyndaði mér ef þetta myndi vera svona hjá mér að þá var þetta í raun og veru svona hjá mér. Ég vissi það bara aldrei. Ég skil loksins hvaðan þessi áhugi minn kemur og mér líður betur, því mér hefur alltaf fundist þetta vera svo mikill hluti af mér og alltaf haldið að ég væri bara svona skrítin, eða þangað til nú. Mér finnst líka, eftir að ég kynntist Wicca að það sé búið að fylla upp í þetta tómarúm sem alltaf fylgdi mér og ég er ekki lengur jafn ein inni í mér. Ég hef kynnst fullt af nornum sem ég get talað um þetta við og mér finnst ég vera komin heim. Því meira sem ég læri um Wicca því betur kynnist ég sjálfri mér og því meira sem ég stunda það af alvöru og þá meina ég gera ritúöl og galdra, þó ég hafi minni þörf fyrir þá nú en áður, því betur líður mér. Wiccakennarinn minn, sem býr úti í USA, hjálpar mér líka mjög mikið. Án hans held ég að hefði ekki skilið þetta jafn vel jafn fljótt, enda er hann að miðla um 40 ára reynslu til mín. Ég hlakka svo til þegar ég hef efni á því að fara til hans á festival og sjá hvernig nornirnar hafa þetta úti. Við erum svo fá hérna heima og svo ólík að það er erfitt að finna einhvern til að vinna með. Nýlega kynntist ég annarri norn sem er algerlega á sömu bylgjulengd og ég hvað þetta varðar og við höfum unnið mikið saman. Mér finnst ég vera að upplifa nýjan heim, nýja veröld. Það opnar fyrir mér svo margar dyr að vinna með öðrum og ég hef lært ótrúlega margt á liðnum mánuðum sem hefði tekið mig mun lengri tíma að gera ein. Ég er að opna mig fyrir miðilshæfileikum mínum og gengur betur að fá skilaboð hinum megin frá. Ég hef getað talað við verur að handan áður en nú veit ég meira hvað ég er að gera og ég skil betur hvað ég er að gera. Ég hef líka aðra manneskju til að spyrja “sérð þú þetta líka?” þegar ég held að ég sé að ímynda mér eitthvað og þarf ekki lengur að velkjast í vafa um hvort ég sé að verða geðbiluð eður ei. Ég veit að ég verð að halda mig niðri á jörðinni og að ég má ekki tapa mér í þessu, en ég finn það að ef ég held mig frá þessu í of langan tíma í senn þá fæ ég hreinlega fráhvarfseinkenni. Ég fer aftur að finna fyrir þessu tómarúmi. Þá bið ég til gyðjunnar og tengi mig hinni hliðinni, fæ skilaboð eða álíka og líður mun betur. Ég er líka farin að gera hreinsunarritúöl ef mér líður ekki vel, ég þarf ekkert að undirbúa mig lengur, ég kann þau utan að. Nú er ég aðallega að æfa mig að tóna rétt og gera þau kröftugri og þarf ekki lengur að hugsa um hvort ég sé að gera rétt eða rangt. Ég finn líka alltaf betur og betur hvernig hringarnir mínir verða sterkari og ritúölin öflugri, galdrarnir virka fyrr og mun nákvæmar og stundum stend ég bara og gapi og hugsa með mér “Þetta er of ótrúlegt til að vera satt!!!” Og nú þegar ég er farin að halda reglulega upp á sabbötin finnst mér ég tengjast náttúrunni svo miklu, miklu betur og ég finn bara hvernig ég fylgi árstíðunum inni í mér ósjálfrátt, finn á mér þegar það er fullt tungl, meira að segja svo nákvæmt að síðast fattaði ég það einungis 20 mínútum áður en tunglið varð fullt. Hjá mér er þetta ekki eitthvað yfirborðskennt áhugamál, þetta er sú sem ég er, þetta er í blóðinu og í sálinni. Wicca er svo mikill hluti af mér og mér finnst ég svo heil. Nú er ég orðin tvítug, hef stúderað galdra í átta ár, stundað þá í sjö, stundað Wicca í fjögur og haft kennara mér til aðstoðar í þrjú ár. Ég veit að ég veit ekki allt og ég kann ekki allt. Því meira sem ég læri því betur átta ég mig á því. En ég get sagt, án þess að efast og án þess að skammast mín nokkuð, að ég er norn. Ég er ekki einhver “charmed one” úr sjónvarpinu, Hermione Granger úr Harry Potter bókunum eða Sunna úr sögunni um Ísfólkið. Ég er í alvörunni norn.