Einn frægasti og merkilegasti miðill sem upp hefur verið er eflaust Skotinn Daniel Dunglas Home. Það sem gerðist í námunda við hann átti sér ekki stað í myrkri eins og oftast á miðilsfundum heldur í björtu og að mörgum aðsjáandi. Á fundum hjá honum varð fyrst eins konar jarðskjálfti, síðan áttu þung húsgögn það til að hreyfast úr stað, hlutir liðu um í lausu lofti, hendur mynduðust og struku fólki, hljóðfæri svifu um og spiluðu af sjálfsdáðum, Home tókst sjálfur á loft og sveif stundum um og gat handfjatlað rauðglóandi kolamola sér að skaðlausu svo að dæmi séu tekin. Annað hvort hefur maðurinn verið fjári snjall svikari og öll þau hundruð eða þúsunda manna sem sátu fundi hans í yfir 20 ár og allir þeir vísindamenn sem rannsökuðu hann og skráðu atburðina niður verið trjúgjarnir og fávísir eða verið dáleiddir eða þá að í öll þau þúsunda skipta sem hann hélt fundi hafi átt sér stað múgsefjun eða þá að hann var í raun og veru svona góður miðill og allir þessir furðulegu atburðir raunverulegir, eflaust mörgum efahyggjumanninum til mikils ama.
Ekki er þó hægt að segja að allir miðlar hafi verið svona góðir og ekki voru heldur allir þar sem þeir voru séðir og komst upp um fjöldan allan af svikamiðlum. Margir þeirra reyndu líka að komast hjá því að vera rannsakaðir enda heilmikinn pening hægt að fá í gegnum svona starfsemi. Eitt íslenskt dæmi um slíkan svikamiðil er Ingibjörg Lára Ágústsdóttir heitin:

Í október árið 1940 var flett ofan af einum frægasta miðli landsins. Lára miðill hafði um árabil haldið óteljandi miðilsfundi þar sem hún annaðist samskipti milli tveggja heima. Það var því mikið áfall fyrir landann og þá sem fundi hennar höfði sótt þegar upp komst að hún hafði staðið fyrir stórfelldum svikum. Hún var síðan fundin sek fyrir fjársvik og dæmd í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Þeir sem sækja miðilsfundi í dag eiga sjálfsagt erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig svik fara fram. Nútíma miðlar halda yfirleitt fjölmennar skyggnilýsingar þar sem þeir segjast sjá framliðið fólk og miðla upplýsingum frá þeim til eftirlifandi ættingja og vina. Fundir Láru voru allt öðruvísi. Ljós voru slökkt og framandi raddir heyrðust, „líkamningar“ gengu um gólf ásamt framliðnum dýrum og ástvinir höfðu samband að handan. Lára setti á svið heilmikla sýningu eins og fram kemur í dómsskjölunum:
„Þau [Lára og Þorbergur] ákváðu að kaupa hvíta slæðu úr þunnum vefnaði og var það framkvæmt. Einnig útbjuggu þau grímur og andlitslíkön. Tæki þessi notaði svo ákærða til að sýna útfrymis- og líkamningafyrirbrigði. Hélt hún tækjum þessum uppi og hreyfði þau með höndum sínum á fundunum, þegar við átti. Ákærði Þorbergur setti fjalabotn í stól þann er ákærða sat á fundunum, þannig að hólf myndaðist undir stólsetunni, og einnig útbjó hann lok framan á stólnum, sem hægt var með hægu móti að opna og loka, og var ekki áberandi að sjá þegar það var lokað. Notaði ákærða þetta til að geyma svikatækin í og opnaði það svo í dimmunni á fundunum og tók úr því tæki og setti aftur í það að notkun lokinni.“
Sigurður Magnússon, kennari og lögreglumaður, afhúpaði svikin. Hann fór að sækja fundi til Láru vegna þess að hún sagði honum að kona hans heitin vildi tala við hann, en hún hafði einmitt sagt Sigurði, meðan hún lifði, að hún teldi Láru vera svikamiðil. Hann fór því að rannsaka þessi mál og sótti stöðugt fundi og kannaði aðstæður. Loks kom að því að Sigurður þótti vera orðinn svo „góður fundarmaður“ að hann fékk að sitja fremst, næst stól miðilsins. Eitt kvöldið mætti hann nokkuð fyrr á fund og rannsakaði hann herbergið hátt og lágt án þess að Lára vissi og fann hann böggul, sem innihélt gardínuefni og feykistóra gasslæðu, undir skápnum. Sýndi hann öðrum fundargestum þetta og bað þá að leggja á minnið hvernig búið var um böggulinn. Að fundinum loknum var böggullinn ekki lengur á sama stað og öðruvísi búið um innihaldið. Lára þóttist aðspurð ekkert vita um þetta. Hún var handtekin og síðar vistuð á Kleppi þar sem hún gekkst undir geðrannsókn. Hún var reyndar ekki talin vera geðveik heldur aðeins lítt menntuð, félagslega lágt sett, siðferðislega ágölluð, talhlýðin og lygin, fátæk og óhamingjusöm. Þar að auki var hið svokallaða miðilsástand hennar ekki talið vera annað en einkenni á flogaveiki hennar sem hún hafði haft frá barnæsku.

Þeir miðlar sem ég hef tekið dæmi um voru allir svokallaðir efnismiðlar. Þeir eru mikið sjaldgæfara fyrirbrigði í dag heldur en þegar spíritismi var sem vinsælastur. Til eru margar kenningar um hvers vegna þeir eru ekki jafn áberandi og sú algengasta er eflaust sú að þeir hafi flest allir verið svikamiðlar og má deila um það. Ég ætla hins vegar ekki að gera það að mínu hlutverki heldur fel ég það ykkur lesendum í hendur. Ástæðan fyrir því að ég minnist lítið á hugmiðla er sú að þeir eru mun meira áberandi nú heldur en hin tegundin og vita líka flestir nokkurn veginn hvernig fundir hjá þeim ganga fyrir sig. Flestir hafa eflaust líka heyrt fjöldan allan af sögum frá ömmum sínum eða frænkum af því þegar þær fóru til miðils.

Þrátt fyrir að mörg dæmi megi nefna um svikamiðla má ekki gleyma öllu því fólki sem hefur unnið heiðarlega að miðlun. En vegna þess að myndir fyrir hugskotsjónum og margt fleira sem miðlar nota í sínu starfi og túlka sem skilaboð að handan geta ekki einungis verið dulskynjun heldur einnig ímyndun er erfitt að greina þar á milli. Þar af leiðandi er miðillinn ekki óbrigðull og fer það því oft eftir andlegu og líkamlegu ástandi hans hve vel gengur á fundum. Fyrir suma miðla og spámenn er erfitt að viðurkenna fyrir viðskiptavininum, sem lagt hafði á sig sérstaka ferð til að hitta þá, að því miður geti þeir ekki skynjað neitt þann daginn og freistast því jafnvel til svika. Þess vegna mæli ég með því að þeir sem hafa áhuga á að leita til miðils fari einungis til þeirra sem mælt hafi verið með og þá helst þeirra sem geta sýnt fram á að þeir hafi verið rannsakaðir af viðurkenndu sálarrannsóknafélagi, t.d. Breska Sálarrannsóknafélaginu, og staðist próf sem segja til um hvort miðillinn sé svikari eða ekki.


Kveðja,
Divaa