Hér mun ég reyna að útskýra hvað Verndari / Leiðbeinandi er, en öll höfum við Leiðbeinanda, ,,spirit guide”, sem lítur eftir og aðstoðar okkur.

Leiðbeinandi er sál alveg eins og við. Það er hægt að kalla þá mörgum nöfnum, t.d. Kennarar, Leiðbeinendur, Verndarar osfrv.

Það er takmark sálarinnar að ná fullkomnun, að verða eitt með Guði. Hver sál gerir þetta á sínum hraða. Þar kemur hugtakið gömul sál og ung sál inn. Sálir læra á sínum hraða og sumar eru komnar lengra en aðrar.

Glæpamenn, alkohólistar, eiturlyfjafíklar, morðingar osfrv. eru oftast ungar sálir sem eru komnar stutt á veg í lærdóm sínum. Svo eru Heilarar, andlegt fólk ofl. sem eru sálir sem eru komnar mjög nálægt takmarki sínu að fullkomna sálina.

Maður endurfæðist á jörðinni aftur og aftur þangað til maður hefur náð nægum þroska. Leiðbeinendur hafa lifað ótal sinnum á jörðinni og þeir hafa náð slíkum þroska að þeir þurfa ekki að snúa aftur. Þeir fá svo það hlutverk að aðstoða sálir á jörðinni við að ná þessu sama takmarki.

Sálin hefur nokkrar grunnlexíur sem hún þarf að læra, t.d. þolinmæði, ást og kærleika, samúð, skilning, auðmýkt osfrv. Þótt að okkur takist ekki að ná því takmarki sem við höfum sett okkur fyrir þetta líf, þá er okkur alltaf leyft að reyna aftur og aftur þar til að okkur tekst það. Okkur eru skipaðir Leiðbeinendur til þess að hjálpa okkur og reyna stefna okkur á rétta braut. Það þýðir samt ekki að við förum eftir þeirri braut, við höfum jú frjálsan vilja. Þótt við gerum mistök í einu lífi, þá getum við alltaf leiðrétt þau í því næsta.

Okkur er skipaður Leiðbeinandi með tilliti til þess hvað sálin þín er að stefna að læra í þessu lífi. Ekki er til dæmis ólíklegt að læknar eru með Leiðbeinanda sem hefur einnig verið læknir í fyrri lífum sínum.

Við könnumst öll við þessa litlu rödd sem við heyrum stundum í höfðinu sem segir manni að ekki gera þetta, þú átt eftir að sjá eftir þessu osfrv. Það er Leiðbeinandi þinn að reyna koma til þín þessum skilaboðum. Á sama hátt og þú veist að eitthvað sem þú ert að gera er algerlega rétt, þá er það Leiðbeinandi þinn að láta þig vita að þú átt að halda þig við þetta og hlusta og hjartað þitt.

Leiðbeinandi þinn mun aldrei stefna þér í ranga átt, hann mun ætið stefna þér í rétta átt. Það er undir þér sjálfum komið hvort þú hlustar á það eða ekki. Leiðbeinandi þinn getur aldrei þröngvað þér til þess að gera eitthvað, þeir geta það ekki.

Einnig getur maður haft nokkra Leiðbeinendur í einu, en þá er þó alltaf einn sem er í forsvari hverju sinni. Það fer eftir því hvaða lærdóm sálin er að ganga í gegnum á þeirri stundu.

Ég vona að þessi litla grein nái aðeins að varpa ljósi á hvað Leiðbeinendur eru, en það hafa stundum komið upp spurningar hér um þetta mál.

Kveðja,
Íva