Í Sálfræðibókinni er dulsálfræði skilgreind á þennan hátt: „ Dulsálfræði fæst við rannsóknir á þeim samskiptum einstaklinga og umhverfis sem eiga sér stað, að því er best verður séð, óháð þekktum skynfærum og utan við hreyfikerfi líkama einstaklingsins.“ Dulsálfræði byggir niðurstöður sínar vandvirkum rannsóknum og síendurteknum tilraunum og er mjög náttúruvísindaleg. Það má því segja að hún noti mun vísindalegri aðferðir en aðrar sálfræðigreinar. Mikill miskilningur er fólginn í því hvað sé dulsálfræði og hvað ekki. Spíritismi gerir ráð fyrir því að andar framliðinna valdi yfirskilvitlegum fyrirbrigðum að mestu leyti, tengist andatrú og særingum og snýst um að koma á sambandi við anda framliðinna og taka við skilaboðum frá þeim. Það gerir dulsálfræði ekki. Dulsálfræði fæst við vísindalegar rannsóknir á yfirskilvitlegum fyrirbærum og kannar af hverju þau orsakast. Dulspeki er hins vegar mun víðtækara hugtak, snýst um óþekkt eða leyndardómsfull fyrirbæri og nær því yfir býsna margt. Innan sálfræðinnar er talað um ýmis fyrirbrigði sem má skilgreina sem dulræn, m.a. skyggnigáfu (clairvoyance), hugsanaflutning (telepathy) og framtíðarsýn (precognition) þó að sálfræðinga greini á um hvort þessi atriði séu raunveruleg eða ímyndun. Yfirskilvitlegum fyrirbærum má eiginlega skipta í tvo flokka, dulskynjun og hugmegin. Dulskynjun er þegar einstaklingur virðist geta aflað sér vitneskju úr umhverfinu án þess að nota til þess hin fjögur þekktu skynfæri. Hugmegin er þegar einstaklingur virðist geta komið af stað hreyfingu eða breytingu á efni í umhverfinu án þess að nokkur efnisleg orsök finnst fyrir því. Taka ber fram að þegar atburður er skilgreindur sem yfirskilvitlegur þýðir það að tekist hafi að útiloka allar þekktar leiðir er leitt geti til hans. Það er ekki verið fullyrða að atburðurinn sé „yfirnáttúrulegur“, einfaldlega að ekki hafi fundist nein skýring á honum. Við vitum ekki hvað yfirskilvitleg fyrirbæri eru né hvað veldur þeim. Því eru niðurstöður flestra rannsókna sem benda til þess að um slíkan atburð sé að ræða ekki staðreyndir heldur tilgátur. Tilraunir á hugmegin benda til þess að slíkt sé ekki tengt neinni þekktri orku og dulskynjunin birtist ekki í neinni sérstakri mynd sem er einkennandi fyrir hana eina. Mynd fyrir hugskotssjónum, heyrn og sjón eru allt skynjanir sem koma fram án þess að um dulskynjun sé að ræða. Þar að auki er hefur ekki tekist að kalla fram yfirskilvitleg fyrirbæri hvar sem er og erfitt hefur verið að reyna að ná stjórn á þeim.