Þarf ég að taka það sérstaklega fram að hér er aðeins um pælingu að ræða, og ekkert meira en það?

Sú trú virðist vera fremur algeng (ehe - a.m.k. á meðal þeirra sem stunda þetta áhugamál … kannske gegnir öðru máli meðal eðlisfræðinga við HÍ?) að okkur flestum fylgi einhvers konar verndarandar - hvað svo sem þeir kallast: Fylgjur, andar, englar (ég er a.m.k. viss um að fæstir trúi á engla eins og þeir ættu að vera samkvæmt nafni sínu (eða titli) og rótum þess: Orðið “engill” er runnið af gríska orðinu “angelos”, sem þýðir “sendiboði”, þ.e. englar eru sendiboðar Guðs). Þetta eru þá einhvers konar verur - óefnislegar, væntanlega - sem fylgja okkur og halda verndarhendi yfir okkur, passa upp á að engir illir andar séu að gera okkur mein, og svo framvegis.

Nú má auðvitað fyrst nefna, að þetta er frábært uppeldistæki, til að tryggja að börn hegði sér vel. Einhver fylgist alltaf með öllu sem maður gerir og verndar mann; hagi maður sér illa þá gæti þessi vernd horfið, og jafnvel gæti verið sagt að engillinn skrái hjá sér allt sem barnið gerir og segir síðan Guði frá því (einkum er þetta vel brúklegt og gagnlegt ef barnið efast sterklega um það, að Guð geti nú verið að fylgjast með öllum, alls staðar). Semsagt; ekki galin leið til að reyna að láta óstýriláta gríslingana hegða sér almennilega þótt maður bregði sér út í búð eða að tefla við páfann…

Þó held ég að fæstir noti englana í þessum tilgangi, en aðallega til að róa myrkfælin börn. Barnið heldur að það sé skrýmsli í skápnum eða púki undir rúmi, ófreskja sem er þeim eiginleika gædd að geta orðið ósýnileg að vild, þannig að það skiptir engu máli hve oft foreldrarnir taka allt úr skápunum og lýsa með vasaljósi undir rúmið; Hið hryllilega er þar áfram. Og þá er auðvitað gott til þess að hugsa að einhvers konar andi haldi verndarhendi yfir manni, svo maður geti fengið sinn svefn og haldið áfram að leika sér á morgun.

Hins vegar var ég að velta fyrir mér hvort að foreldrarnir séu að ljúga að barninu. Eða ekki beint ljúga, heldur að fara ansi frjálslega með staðreyndir. Englarnir og andarnir eru þarna áfram, en eðli þeirra er bara allt annað en foreldrarnir gefa í skyn, og trúa jafnvel sjálfir. Þeir segja að þetta sé einhver sjálfstæð vera, óháð barninu og alveg gífurlega máttug, líka. Ég vil hins vegar meina, að þessi vera og allur hennar máttur sé í barninu sjálfu - og auðvitað hinum fullorðnu, líka, hluti af þeim á sama hátt og t.d. árur. Veran er ekki sjálfstæð, hún gæti alls ekki verið til án þess sem hún “verndar”. Hún er hluti þess sem hún verndar, en hvaða barn gæti trúað því að það hafi sjálft þann kraft og styrk sem þarf til að sigrast á drekum? Til að gera þetta trúanlegra og auðvelda barninu að sjá þetta fyrir sér er því sagt að þetta sé fyrir utan það. Þessi trú loðir svo við menn þegar þeir vaxa úr grasi - hugmyndin verður svo samdauna manni, að jafnvel þeir sem sjá engla sjá þá fyrir utan manninn sinn (þ.e. engilsins) án nokkurra tengsla.

Hvað segiði, spaka fólk: Er eitthvað vit í þessu?
All we need is just a little patience.