All hallows/Hallowmas… o.s.frv.

Mig langaði að skjóta hérna inn grein þar sem höfundur hinnar fyrr er algerlega úti að aka og er að fara með rangt mál. Ég held ég ætti nú að vita þetta aðeins betur þar sem ég er búin að vera að stúdera Samhain núna stíft í heilan mánuð vegna þess að við vinkona mín vorum að búa til ritual til að halda upp á þetta sabbat. Við erum nefnilega Wicca. Þegar ég skrifa þessa grein er klukkan hálf átta og ég er nýkomin heim af sabbatinu svo þetta er allt saman í fersku minni. Við vorum að í alla nótt. Tíminn leið svo hratt að okkur fannst kvöldið enn vera að byrja þegar kominn var morgunn, enda er Samhain utan alls tíma.

Hátíðin Samhain var upphaflega ekki bara keltnesk. Vitað er til þess að Egyptar og spánskt ættaðir mexíkanar til dæmis hafi einnig haldið upp á þessa hátíð. Rómverjar tóku þetta líka upp á sínum tíma.

Samhain þýðir lok sumars. Samkvæmt fornu tímatali kelta stóð sumarið yfir frá Beltane (Kyndilmessa, 2. febrúar) til Samhain og veturinn frá Samhain til Beltane. Síðar var árstíðunum skipt í fernt og markaði Samhain þá mót hausts og vetrar. Samhain táknar svo ekki aðeins lok haustsins heldur einnig áramót og byrjar nýja árið við sólarlag.

Kveikt var á bálköstum á hverri hæð í Bretlandi o g Írlandi um leið og sólin settist 30. október. Þessir eldar áttu að geyma orku hins deyjandi guðs, lýsa upp myrka nóttina, reka burtu illa anda, hreinsa helgiathafnasvæðið og heimili og vera miðpunktur helgiathafna. Í mörgum hlutum Bretlands eru þessir eldar enn kveiktir. Þar sem Samhain markar lok þriðju og síðustu uppskerunnar var það keltneskur siður að öll uppskera varð að vera komin inn fyrir sólarlag 30. október. Ef maður náði í hana eftir það hætti maður á mikla ólukku, þar sem geðillir dríslar eignuðu sér allt það sem varð eftir á ökrunum eftir þennan dag.

Sem hátíð hinna dauðu var því trúað að hinir dauðu gætu snúið aftur til lands hinna lifenda þessa einu nótt til að fagna með ættbálki sínum og fjölskyldu. Hin stóru grafhýsi Írlands voru opnuð og veggirnir lýstir með kyndlum svo hinir dauðu mættu rata sína leið. Aukadiskar voru lagðir á borð og matur borinn út fyrir þá sem dáið höfðu um árið. Sögur eru einnig sagðar af írskum hetjum sem riðu inni í undirheima meðan hlið álfanna stóðu opin. Þeir þurftu þó allir að snú aftur áður en haninn galaði við sólarupprás.

Sem hátíð spádómsgáfa voru skilyrðin til spádóma eina best á þessum tíma. Í nútíma tímatali sem er línulaga eru áramótin oft hugsuð sem áfangi á löngum vegi sem teygist frá fæðingu til dauða. Keltar til forna, hins vegar, hugsuðu tímatal sitt í hringi og í þeim skilningi er Samhain utan alls tíma, þegar náttúruleg skipun alheimsins leysist aftur inn í frumstæða óreiðu, sem undirbúningur fyrir endurkomu í fyrri mynd. Þar af leiðandi stendur Samhain fyrir utan tímann og er því hægt að sjá allan annan tíma þaðan, bæði fortíð, nútíð og framtíð. Aldrei er jafn líklegt að tarorspilaspá, kristalspá eða jafnvel telaufaspá gangi vel og einmitt á þessum tíma.

Þar sem hulan milli heimanna tveggja rofnar þessa nótt átti fólk von á því að rekast á álfa, drísla eða aðrar kyndugar verur. Álfar notuðu þessa nótt til að flytjast frá sumarhíbýlum sínum til vetrarbústaðar. Þess vegna notaði fólk oft grasker og skar í þau grettileg andlit til að fæla burtu álfana svo það yrði ekki numið á brott eða álíka. Upp úr því hófst svo siðurinn að ganga grímuklæddur, þannig að ekki yrði hægt að greina á milli hverjir væru venjulegt lifandi fólk og hverjir ekki svo álfarnir vissu ekki hverjum þeir ættu að gera grikk. Með tímanum hefur þetta þróast í þann skrípaleik sem hrekkjavakan er nú og flestir ef ekki allir vita hvernig gengur fyrir sig og því ætla ég ekki að fara nánar út í það hér.

Í Wicca er Samhain stærsta og mikilvægasta hátíðin. Á síðasta sabbati, Mabon sem er var 22. september á haustjafndægrum, var gyðjan orðin öldru (Crone Goddess) og guðinn farinn að veikjast. Á Samhain “deyr” guðinn og fer þar með yfir móðuna miklu yfir í Sumarlandið (sem er eins konar himnaríki). Hin aldraða gyðja syrgir hann svo þangað til á Yule (um jólin) þegar hún fæðir guðinn á ný. Fyrir þá sem ekki vita vex guðinn svo og dafnar og um vorið verða guðinn og gyðjan ástfangin. Svo verður hún ófrísk eftir guðinn af guðinum, guðinn deyr og fæðist svo aftur gegnum gyðjuna. Þannig er þetta eilíf hringrás, guðinn endurfæðist aftur og aftur. En semsagt, þegar guðinn fer til Sumarlandsins rofnar hulan milli heimanna eitt andartak og það er þá sem hinir framliðnu fara á kreik. Þess vegna er Samhain tilvalinn tími til að minnast látinna ástvina og jafnvel reyna að hafa samband við þá, því enginn tími er betri til þess arna en einmitt þá.

Jæja… ég ætti nú kannski að fara að sofa áður en ég fæ alvarlegan svefngalsa. Ég vona að þetta hafi verið fróðleg og skemmtileg lesning. Þið, hin vantrúuðu, ekki böggast í mér yfir þessari grein, það er algerlega tilgangslaust þar sem ég get ekki breytt mannkynssögunni, enda fjallar þessi grein bara um sögu Samhain.

Kveðja,
Divaa

P.S. Já, svo ef þið eruð að velta því fyrir ykkur hvaðan nafnið Shadowfeast kemur þá er það nafnið sem ítölsku nornirnar (Strega) kalla Samhain.