Hvert ætlar þú að fara um Verslunarmannahelgina? Þar sem ég sjálfur hef ekki hugmynd hvert ég ætla að fara hef ég ákveðið að taka saman stærstu hátíðirnar og setja þær inn ásamt dagskrá á viðkomandi stöðum. Hefjum leikinn á…


Atburður: Neistaflug

Staðsetning: Neskaupsstaður

Dagskrá:

Föstudagskvöld:

Í Egilsbúð mun svokallað Queen-show vera haldið til að heiðra minningu hins mikla meistara Freddy Mercury en þessi frábæri og magnaði söngari og lagasmiður hefði orðið fimmtugur núna 5. september [ég veit ekki afhverju það er verið að heiðra hann svona snemma]. Að því loknu munu eiturhressu drengirnir Í Svörtum Fötum spila og koma fólki í blússandi gír eins og þeim er einum lagið. Það má búast við sveittu balli og það er nánast loforð [ekki frá mér þó] að Jónsi verði hálfber þegar ballið er yfirstaðið.

Í íþróttahúsinu mun langbesti plötusnúður landsins þeyta skífum fyrir skemmtanaglatt fólk. Við erum að tala um engan annan en DJ Páll Óskar. Drengurinn hefur, án efa, mestu reynsluna og besta lagavalið þegar kemur að því að skemmta bæði ungum og öldnum. Hver veit nema hann taki sínar frægu Eurovision-syrpur. Palli hefur þann skemmtilega hæfileika að geta fengið fólkið til að rennbleyta gólfið á aðeins nokkrum mínútum. Þú mátt búast við að þurfa að skipta um föt allavega 2 sinnum á meðan á ballinu stendur. Endilega dragðu mömmu þína með á ballið, hún gæti átt þá „hættu“ að eiga eftir að skemmta sér betur en þú og hver veit nema hún endist lengur ;) Mæli með að þið kíkið í ræktina fram að verslunnarmannahelgi svo þið getið djammað allt vit frá ykkur. Ég mæli einnig með að þið sturtið vel í ykkur á ballinu enda verður mikill hiti í húsinu og ekki viljum við að þið deyjið úr þorsta. Passið ykkur á einu, veggirnir geta verið sleipir því svitinn mun leka niður af öllum veggjunum!

ATH! Nú geta ALLIR djammað og engin afsökun um að þú sért of ung/ur þar sem um er að ræða ball fyrir 16 ára og eldri! (ég veit að krakkar yngri en 15 ára komast ekki inn enda eiga þau að vera löngu farin að sofa á þessum tíma)

Laugardagskvöld:

Það skal enginn vera með leiðindarmóral þetta kvöld því Skítamórall mun halda uppi stuðinu í Egilsbúð. Eins og allir vita þá er aldrei skítamórall á böllum hjá þeim, heldur þvert á móti! Dúndur band með dúndur lög, kvöldið getur ekki klikkað!

Sunnudagskvöld:

Ein reyndasta og besta ballhljómsveit bæði í dag og síðustu ára mun halda stórdansleik í Egilsbúð. Við erum að tala um hljómsveitina Sálina Hans Jóns Míns. Lög eins og Ábyggilega, Sódóma, Orginal og fleiri lög koma öllum í frábært skap og heldur þér gangandi langt fram undir morgun eða þar til þakið á kofanum rifnar af. Þetta ball mun toppa helgina hjá þér, bókað mál og það í tvíriti!

Allir dansleikir í Egilsbúð eru með 18 ára aldurstakmark svo það má búast við vel sóttum böllum og því ættu allir að hafa með sér nægan pening svo fólk verði ekki þyrst útaf öllum hitanum.


Atburður: Þjóðhátíð

Staðsetning: Vestmannaeyjar

Dagskrá:

Föstudagskvöld: Á kvöldvökunni munu hljómsveitirnar Á Móti Sól og Stuðmenn hita mannskapinn upp með sýnum frægustu smellum. Eftir hina margfrægu brennu munu þrjár hljómsveitir spila fyrir heimafólk og aðra gesti á Brekkusviðinu. Sveittasta hljómsveit landsins, Dr. Spock, trylla líðinn og koma öllum í brjálað stuð.

Við þeim munu Á Móti Sól taka við og halda uppi svipuðu fjöri og til að slá botninn í kvöldið munu Stuðmenn halda fólki í stuði langt fram undir næsta dag! Lög eins og Betri Tíð, Taktu Til Við Að Tvista og Ofboðslega Frægur fær engan til að verða kalt.

Á Tjarnarsviðinu munu hljómsveitirnar Hálft Í Hvoru og Dans Á Rósum halda feiknafjöri handa þeim sem ekki líkar ofangreindar þrjár hljómsveitir. Af eigin reynslu þá get ég lofað ykkur að litla sviðið (Tjarnarsviðið) er ekkert síðra en hið stóra!

Laugardagskvöldið:

Hin landsfrægra og stórmagnaða flugeldasýning hefst á slaginu 00:00 með tilheyrandi látum sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Eftir flugeldasýninguna munu hin frábæra partý-hljómsveit Jet Black Joe spila sveitta tónlist til að hita upp kroppinn hjá þeim sem sátu stjarfir og kaldir í brekkunni á meðan flugeldasýningunni stóð. Lög eins og Higer & Higer, Rain, Freak Out og fleiri koma öllum í frábæran gír og það verður ekkert gírað niður eftir það.

Drengirnir Í Svörtum Fötum koma fljúgandi beint frá Neskaupsstað með stútfullan og frábæran lagalista sem enginn verður svikinn af. Þrátt fyrir um 4° hita verður Jónsi ber að ofan, rennandi sveittur.

Á Móti Sól slá svo botninn í þetta frábæra kvöld sem einkennst hefur af mikilli skemmtun og drykkju en hvað um það, kvöldið er „rétt“ að byrja þegar það kemur að þessum tímapúnkti.

Sunnudagskvöld:

Kvöldið hefst á svokallaðari kvöldvöku þar sem hinir ýmsu tónlistarmenn og hljómsveitir munu koma fram. Þar ber að nefna Bubba Morthens, Dans Á Rósum, Á Móti Sól og Í Svörtum fötum en þær þrjár síðast nefndu munu sýna þjóðhátíðargestum hvað koma skal seinna um nóttina enda um algjöra upphitun að ræða.

Árni Jónsen tekur sinn stórfenglega (mjög misjafnt hvað fólki finnst) brekkusöng sem svíkur engan. Notar sín frábæru 3 grip og spilar um 40 lög, flest 30 sekúndna löng. Það gerir stemmninguna bara betri. Hver nennir að vera sótölvaður og syngja 3-4 mínútna löng lög? Flestir munu missa áhugan eftir nokkur lög…

Eftir að hann hefur þanið raddböndin út í eitt kemur að stórdansleikjunum á sitthvoru sviðinu. Á Móti Sól, Í Svörtum Fötum og Hoffman munu hoppa og skoppa á stóra sviðinu þar til það lætur undan og á litla sviðinu munu Dans Á Rósum og Hálft Í Hvoru sjá til þess að fólki leiðist ekki!

Um 7 leytið um morgunin er mjög sniðugt að taka smá pásu frá dansinum og kíkja við tjörnina til að horfa á „einhvern“ mann synda yfir tjörnina, en hann gerir það á hverri Þjóðhátíð [ég held ég hafi alltaf misst af því]. Ef einhver getur gefið upplýsingar um þennan dularfulla mann, er viðkomandi beðinn um að skrifa um hann hér að neðan…


Atburður: Sumargleði Fjölskyldunar

Staðsetning: Galtalækur

Dagskrá: Skítamórall, Paparnir, Nylon, Ízafold, Stuðmenn ásamt haug af Idol-stjörnum sjá um að rokka upp svæðið eins og þeim er einum lagið. Að sjálfsögðu verður haugur af viðburðum að gerast á daginn og því ætti yngsta liðið ekki eiga á þá hættu að leiðast sem og fjölskyldufólki og öðrum.


Atburður: Ein með öllu

Staðsetning: Akureyri

Dagskrá:

Föstudagskvöld: Þeir félagar í Sálinni hækka vel í græjunum og slá bæði á strengi og húðir ásamt að þenja raddböndin til helvítis í Sjallanum fyrir alla þá sem hafa aldur til að kíkja við. Sálin hefur verið þekkt fyrir að halda fólki á gólfinu langt fram undir morgun og á því verður engin breyting!

Greifarnir munu halda stuðinu langt fram eftir nóttu á Rocco og spila Frystikistulagið af sinni alkunnu snilld.

Stuðgrúbban Sixties munu halda uppi feiknafjöri í Vélsmiðjunni og koma bæði ungum sem öldnum úr dansskónum sökum mikillar djamms og dans. Munið að setja hælsærisplástra á ykkur áður daginn eftir svo þið getið haldið áfram í gleðinni út helgina.

Á Græna Hattinum mun KK Blúsband stíga á stokk og spila vel valin blúslög fyrir alvöru blúsara…

Laugardagskvöld: Sama dagskrá og á föstudeginum að einni breytingu undanskilinni.

Eurobandið, með stórsöngvurunum Regínu Ósk og Friðriki Ómari í fararbroddi, koma öllum Eurovision aðdáendum í gott skap með Eurovision lögum beint í æð. Fyrir þá sem vilja prufa það er bent á að kíkja við á Græna Hattinum.

Sunnudagskvöld: Selfossdrengirnir í Skítamóral munu fleyta gólfið með svita frá æstum aðdáendum í Sjallanum og mun dansleikurinn verða fram á rauða nótt.

Í Vélsmiðjunni verður tekið Eitt Lag Enn þar sem Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson spila af sinni alkunnu snilld og halda öllum í góðum tjútt-gír.


Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvert ég fer en hvert ætlið þið að kíkja?