MARCUS INTALEX (UK) Á ÁRAMÓTATJÚTTI BREAKBEAT.IS
gamlárskvöld | gaukur á stöng| húsið opnar 00:45 | 1.000 krónur í forsölu


Breakbeat.is ætlar að fagna nýju ári og halda upp á það liðna með stæl 31. desember næstkomandi með áramótatjútti á Gauknum. Aðalstjarna kvöldsins er ekki af verra taginu, en það er Marcus Intalex sem mun manna plötuspilara Gauksins á álagstímum þetta kvöldið. Herra Intalex þykir með allra bestu drum & bass plötusnúðum heims! Hann spilar allar tegundir drum & bass tónlistarinnar og lumar oft inn í settinn sínum eigin remixum af eldri hardcore/jungle/drum & bass klássíkum. Marcus hefur áður sótt landann heim við góðar undirtektir, árið 2000, og er það Breakbeat.is mikill heiður að kynna hann aftur til leiks á áramótatjútti Breakbeat.is á Gauknum.

Marcus Intalex hefur verið eitt af stærstu nöfnunum í drum & bass senunni allt frá árinu 1999, þegar hann skaust fram á sjónarsviðið með laginu “How You Make Me Feel” sem hann samdi með félaga sínum ST Files. Síðan hafa þeir félagar átt hvern slagarann á fætur öðrum, endurhljóðblandað hina ýmsu listamenn og unnið með mörgum af stærstu nöfnum drum & bass heimsins. Marcus rekur tvær af virtari plötuútgáfum bransans; Soul:r og Revolve:r þar sem High Contrast, Calibre, Total Science og D-Bridge hafa m.a. látið til sín taka.

Marcus Kaye, eins og hann heitir fullu nafni, ólst upp í Manchester borg og komst í kynni við danstónlistina í gegnum fjölbreytt tónlistarlíf borgarinnar í lok níunda áratugarins og í upphafi þess tíunda. New Order, Factory Records, plötusnúðurinn Dave Haslam og Hacienda klúbburinn komu Marcus á bragðið en drum & bass varð sú tónlist sem hann tók síðar ástfóstri við. Hann hóf lagasmíðar fyrir rúmum áratug en frægðarstjarna hans tók fyrst að rísa þegar hann tók höndum saman við áðurnefndan ST Files, e.þ.s. Lee Davenport. Saman áttu þeir félagar stóran þátt í að rífa drum & bass upp úr harðneskjukreppu sem ríkti undir lok aldarinnar og voru þeir í forsvari nýrrar bylgju af mýkri og dansvænni drum & bass tónlist sem í dag er þekkt undir nafninu “liquid funk.”

Ásamt Marcus Intalex koma fram fastasnúðar Breakbeat.is, þeir Kalli, Lelli og Gunni Ewok og í kjallaranum verða þeir Ozy og Earl Mondeyano bak við spilarana og sjá um að kokka fram mikla stemningu. Miðaverð er verulega stillt í hóf, einungis 1.000 kr í forsölu sem er þegar hafin í plötubúðinni Þrumunni, Laugavegi 69. Nánari upplýsingar er að finna á www.breakbeat.is

____________________________________________
texti tekinn úr emaili fréttabréfi Breakbeat