Ég er rosalega óánægður með núverandi “kerfi” í miðbænum og væri til í að sjá miklar breytingar í þessum málum, en eins og staðan er í dag þá er mannfjöldinn að dreifast of mikið. Bæði þegar kemur að staðsetningu og tímasetningu, en það þýðir minni hagnað fyrir staðina og verri stemmningu fyrir gesti. Ég vil samt ekki gamla góða “allir staðir loka kl 3” og enginn getur fengið sér leigubíl, heldur eitthvað á milli þess sem er í dag og gamla kerfið. Það er algengt í mörgum erlendum borgum að það séu mörg mismunandi leyfi um opnunartíma eftir því hvernig staðirnir eru, og væri ég til í að sjá svona kerfi á Íslandi. T.d. …..

Kaffihús loka kl 02:00.
Pöbbar / sérstakir vínv.staðir loka kl 03:00.
Næturklúbbar loka kl 07:00.

Þetta er bara hugmynd, er ekki að segja að þetta á að vera nákvæmlega svona. Bara að það þarf eitthvað svipað kerfi.

Þetta myndi hafa þau áhrif að hver staður þyrfti að hafa opnunartímann styttri, en í staðinn fá fleira fólk í einu. Sem að bætir stemmninguna og skilar inn sama hagnaði eða jafnvel meira, þó að staðurinn sé opinn í styttri tíma. Þá væri hægt að fara í bæinn snemma fyrir þá sem vilja, af því að þá væri kominn ágætur fjöldi af fólki á pöbbana/kaffihúsin strax um kl 23-00. Svo geta þeir sem að vilja vera lengur röltað yfir á aðra staði, á meðan sumir fara heim. Þetta dreifir mannfjöldanum vel yfir miðbæinn, en samt þannig að það bitni ekki á stöðunum. En eins og staðan er í dag þá eru næstum allir staðir dauðir til kl 2. Þetta er leiðinlegt og niðurlægjandi fyrir þjóðina þegar útlendingar koma og ætla að reyna að djamma eins og í öðrum borgum, en margir þeirra vilja byrja snemma og fara jafnvel bara heim kl 3.