Ég er stelpa í 10. bekk og ég reyki og drekk í hófi. Ég veit vel um skaðsemi reykinga. En engar forvarnir geta bjargað mér frá því að reykja og drekka. Foreldrar mínir vita vel af þessu og þau treysta mér; ég færi t.d. aldrei að drepast á Lækjartorgi eða reykja á skólalóðinni eða eitthvað svoleiðis. Þau reyktu meira segja sjálf á mínum aldri og hefur bara vegnað ágætlega í lífinu. Ég er orðin svo þreytt á þessari umræðu um að unglingar sem drekka og reykja séu dæmdir til þess að verða alkahólistar og höndli ekki að vera í skólanum. Ég veit nákvæmlega hvað ég er að gera þegar ég dett í það, ég veit nákvæmlega hvaða áhættu ég er að taka þegar ég fer í partý og verð “vel í því”. Auðvitað dettur maður ekki í það á miðvikudagskvöldi þegar það er skóli daginn eftir. Maður fer bara í partý um helgarnar og skemmtir sér. Hvað er að því að skemmta sér með áfengi í hófi?
Svo eru þessar forvarnir sem ég held að séu að hjálpa mjög takmörkuðum hópi unglinga. T.d. í mínum bekk (frá því í byrjun 8. bekkjar) hafa verið allavega fimm fyrirlestrar um forvarnir og við vorum í þemaviku um skaðsemi reykinga. SAMT er stór hluti bekkjarins sem reykir og drekkur, það fer enginn að segja mér að krakkarnir viti ekki um skaðsemi reykinga! Eftir allan þennan forvarnar “pakka” sem við erum búin að fara í er krökkunum ekki viðbjargandi ef þau reykja enn og drekka.