Þó enn sé langt í Verslunarmannahelgina eru eflaust nokkrir byrjaðir að hugsa um hvað á að gera um þá blessuðu helgi og býst ég fastlega við að margir hér ætli að skella sér á Þjóðhátíð. En ástæða þess að ég skrifa hérna er til að tala aðeins um hina frægu Halló Akureyri sem síðast var haldin almennilega árið 1999 með 15000 gestum í bænum og þvílíku stuði að margir sem komu þá muna ekki eftir öðru eins. Eftir þá helgi ákváðu stjórnendur Akureyrarbæjar að þessi frábæra hátíð yrði lögð niður og í staðinn fyrir hana kæmi fjölskylduhátíðin Ein með öllu (engu). Sú hátíð er náttúrulega bara til að hlæja að. Í fyrra vildu hátíðarhaldarar halda því fram að það hefðu komið á bilinu 5000 - 8000 manns í bæinn. Ég get sagt það sem bæjarbúi þar að það komu í mesta lagi 3000 manns í bæinn ef ekki færri. Hátíðin var einfaldlega hræðilega misheppnuð og Akureyrarbær græðir ekkert á að halda þessa hátíð. Ég veit um virkilega marga hérna sem vilja alveg endilega fá Halló Akureyri aftur. Vissulega voru fíkniefnamál, nauðganir og fólk dautt út um allt en er það ekki eins og gerist á flestum þessum stóru útihátíðum? Vil ég taka það fram að auðvitað er ég á móti dópi og nauðgunum en svona er heimurinn bara. Það dugar ekkert að hætta að bara við eina útihátíð. Málið er einfaldlega að þá fer þetta bara annað. Ég held að það sé ekkert verra að dreifa þessu eitthvað niður. Halló Akureyri var hátíð fyrir þá sem vildu skemmta sér, fólk sem kom saman á einn stað til að djamma fram undir morgun og fram á næsta dag. Krakkarnir fengu sitt yfir daginn og svo tók djammið við um kvöldið og maður gat auðveldlega forðast það ef maður hafði ekki áhuga. Ég veit ekki með ykkur hin hérna en ég mæli eindregið með að Halló Akureyri verði haldin núna 2003, það má alltaf bæta hana. Með gæslu og öllu saman. Við vitum það alveg að það er allt hægt…