Fimmtudaginn 13. febrúar munu Slugga Thuggaz standa fyrir drum'n'bass uppákomu í hinu frábæra hljóðkerfi á skemmtistaðnum Astró.

Það er löngu kominn tími til að junglistar landsins fái eitthvað fyrir sinn snúð. Upprunalega átti rússneska ungstirnið STA að koma og trylla landann en landvistarleyfi gekk ekki eftir í tíma, en uppstillingin er samt sem áður glæsileg:

/dj Tryggvi
/dj Bjöggi
/dj Gunni
//VDE-066 [live]
//Junglizt [live]

Tryggvi er 19 ára Reykvíkingur. Hann er ekki bara grjótharður og sætur plötusnúður, heldur gerði hann líka nokkur lög á Bent & 7Berg plötunni. Ef við þekkjum Tryggva rétt á hann eftir að lauma nokkrum stuðlögum með harðneskjunni þann 13. febrúar.

Bjöggi [Náttsokkurinn] er einnig 19 ára borgarbarn, hefur spilað m.a. í útvarpsþáttum eins og Breakbeat.is á Radio-x og á kvöldum eins og Breakbeat.is á Sportcafe og Batterý í kjallara Menntaskólans við Sund. Hann spilar grjótharða trommu og bassatakta sem koma líkamanum af stað!

Gunni hefur verið í senunni frá því að elstu menn muna, hann á ófáa geisladiskana sem hann í dag hefði óskað að eiga á vínyl. Hann er ófeiminn við að gera tilraunir á dekkunum og við búumst svo sannarlega við því að þetta kvöld verði engin undartekning.

Svo munu íslensku drum'n'bass goðsagnirnar Junglizt og VDE-066 vera með eftirminnilegar live endurkomur. Dóri Junglizt var alræmdur fyrir nokkrum árum þegar hann einokaði Músíktilraunirnar með stæl. VDE-066 vöktu einnig athygli á Músíktilraunum undir ýmsum nöfnum. Þeir hafa hitað upp fyrir ekki ómerkari menn heldur en Paradox og Yoga og spilað á Stefnumótum Undirtóna.

Tjúttið hefst kl. 21 og stendur yfir til kl. 1 eftir miðnætti. Aðgangseyrir er aðeins 300 krónur fyrir 11 en 500 eftir þann tíma, svo mætið snemma.