Nú loksins er sá áfangi í augsýn að boðað verið til stjórnlagaþingsins langþráða. Á Alþingi hefur náðst samstaða um að boðað verið til þúsund manna þjóðfundar til að marka grófu línurnar fyrir stjórnlagaþingið sjálft, t.a.m. gæti þjóðfundurinn tekið afstöðu til þess hvort ráðherrar megi sitja á þingi, hvort framkvæmdavaldið eigi að vera kosið í beinni kosningu og hvernig þjóðaratkvæðagreiðslna verði krafist í framtíðinni. Þjóðfundarfulltrúar verða valdir með slembiúrtaki.
Stjórnlagaþingið sjálft myndi síðan setjast yfir niðurstöður þjóðfundarins og skrifa stjórnarskrá út úr samþykktum þjóðfundarins.
Stjórnlagaþingið sjálft verður skipað 25-31 fulltrúa, kosnir persónukosningu á landsvísu. Fjöldinn er breytilegur eftir því hver kynjahlutföllin verða. Reikingsaðferðina má sjá í athugasemdum við frumvarpið sem er slóð á hér að neðan.Þrjár fastanefndir verða á þinginu og í hverri þeirra sitja þrír nefndarmenn. Hægt er að kynna sér stjórnlagaþingsfrumvarpið frekar á slóðinni http://www.althingi.is/altext/138/s/0168.html.
Ég er persónulega ánægður með að þjóðfundur eigi að leggja stjórnlagaþinginu línurnar. Frekar en að þjóðfundurinn væri skipaður fólki valinn alveg handahófskennt hefði ég viljað að hægt væri að sækja um sæti á honum. Fimmhundruð af umsækjendunum yrðu dregnir úr „potti“, en þó með tilliti til jafns hlutfalls kynjanna, aldurshópa og búsetu. Aðrir fimmhundruð yrðu svo valin með slembiúrtakinu.
Með því að velja þúsund manns af handahófi er tekin mikil áhætta. Örugglega yrði mikið um það að fólk myndi ekki mæta á fundinn, sumt fólk af landsbyggðinni myndi notfæra sér ókeypis far suður, gistingu og mat. Með því að áhugafólk væri valið sérstaklega á fundinn myndi þessi áhætta minnka mikið, a.m.k. um helming.
Stjórnlagaþingið sjálft finnst mér of smátt í sniðum og ósjálfstætt. Í fyrsta lagi vil ég að aðkoma sérfræðinga að þinginu verði tryggð, ekki einungis sem óháðir ráðgjafar.
Ég vil að forsætisnefnd Alþingis skipi nefnd sem myndi velja sjö helstu sérfræðinga þjóðarinnar sem fastafulltrúa á þinginu. Ég sé fyrir mér fólk eins og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, Sigurð Líndal o.fl.
Auk þessara sjö myndi nefndin velja þrjá erlenda áheyrnarfulltrúa á þinginu, með málfrelsi og tillögurétt. Þessir erlendu fulltrúar myndu njóta góðrar þjónustu við þýðingar og túlkun, og hefðu leyfi til að flytja ræður á ensku á þinginu.
Þetta myndi tryggja sem minnsta aðkomu stjórnmálamanna að stjórnlagaþinginu.
Það að kosið sé á landsvísu getur leitt af sér að einungis fólk sem er þekkt fyrir gæti öðlast talsvert fylgi og náð kjöri. Því myndi ég vilja að sjá að notast yrði við núverandi kjördæmaskipun að vissu leyti. Þrír fulltrúar kæmu frá hverju landsbyggðarkjördæmi, fjórir frá hverju kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu. Það gerðu alls 21 fulltrúi kjörnir af kjördæmunum með persónukjörsaðferðinni.
Þrjátíu og fimm yrðu svo kosnir persónukosningu á landsvísu. Þá væru fulltrúarnir alls 63, jafnmargir og á hinu háa Alþingi, alls væru þó fulltrúarnir 70.
Stjórnlagaþingið myndi kjósa sér forseta og sex varaforseta sem skipa forsætisnefnd. Nefndirnar yrðu fleiri og hnitmiðaðri; hver nefnd hefði nákvæmara umræðusvið. Kosið yrði í nefndir um embætti forseta Íslands og aðra handhafa framkvæmdavalds og samband þeirra við löggjafann, nefndir um Alþingi og starfshætti þess, kosningalöggjöf og þjóðaratkvæðagreiðslur, sjálfstæði dómstóla og starfshætti þeirra, mannréttindi og samband ríkis og kirkju. Nefndirnar geta þó verið fleiri, færri og öðruvísi upp settar. Þó hefðu allir þingmenn tillögurétt í öllum nefndum.
Stjórnlagaþingi yrðu ekki sett nein sérstök tímamörk, en þó beinir Alþingi þeim vinsamlegu tilmælum til stjórnlagaþingsins að uppkast að nýrri stjórnarskrá verði tilbúið fyrir áramóti 2012-2013, í tíma fyrir alþingiskosningarnar sem eiga að fara fram í maí 2013. Ég hef þó góða trú á því að stjórnarskráin verði samin á minna en ári.
Alþingi myndi að lokum samþykkja frumvarpið sem minnst breytt, og ný stjórnarskrá gæti tekið gildi í júní 2013.
Áður en ákveðið var að þjóðfundur yrði haldinn var talið að stjórnlagaþingið myndi kosta á bilinu 2 - 3 milljarða króna. Ég gæti trúað því að sú leið sem ég vil sjá að verði farin gæti slagað í 10. milljarðinn.
En spurningin er hvort lýðræði sé hafið yfir fé, þarf að eyða miklum fjármunum í nýja stjórnarskrá eða þurfum við hana yfirhöfuð?
Það er nefnilega það.