Ég er því fylgjandi að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi, en ég vil ekki að þær verði notaðar sem tæki sem stjórnmálamenn beita vegna „ákvarðanafælni“.
Ég held að kvótakerfið uppfylli þessi skilyrði. Það er nokkuð ljóst hvaða stjórnmálamenn og flokkar eru fylgjandi núverandi kerfi og hverjir vilja breyta því. Framsóknarflokkurinn hallast að núverandi ástandi og sjálfstæðismenn þora ekki að hugsa þá hugsun til enda að hróflað verði við þessu kerfi. Hins vegar hefur Samfylkingin lýst sig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og jafnframt lýst því yfir að hún sé á móti núverandi kerfi. Afstaða Vinstri Grænna er svipuð.
Nú er búið að brjóta múrinn og tepruskapurinn við þjóðaratkvæði er blessunarlega í rénun hjá flestum.
En sú atkvæðagreiðsla sem framfæri um kvótann yrði að vera skýrari en sú var haldin hér um Icesave-samninginn. Já þýddi í raun nei og nei þýddi já og allt í graut.
Kostirnir yrðu að vera á kristaltæru: Já - ég vil að nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi sem ríkisstjórnin hefur hannað taki gildi, eða Nei - ég vil að núverandi kerfi haldi sér.
Best væri náttúrulega að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði bindandi, sem er ekki hægt með núverandi stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn notaði allan sinn þunga í febrúar og mars í fyrra til að traðka á lýðræðisumbótum; þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðareign á auðlindum.
Þar sem atkvæðagreiðslan getur ekki verið bindandi verður hún í raun ekkert annað en umfangsmikil skoðanakönnun, en veigamikil þó.
Best væri að ríkisstjórnin semdi frumvarp sem væri alveg skothelt og þyrfti ekki að taka miklum breytingum í meðferð þingsins.
Síðan yrði lagt fram frumvarp um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu vegna frumvarpsins. Spurningin gæti verið á þessa leið: Á Alþingi að samþykkja lög nr. x um breytingu á lögum nr. x um fiskveiðistjórnunarkerfið?
Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna færi frumvarpið fyrir Alþingi og þegar til atkvæðagreiðslu kemur taka þingmenn tillit til útslita atkvæðagreiðslunnar. Ef út kemur stórt já hljóta þingmenn að styðja frumvarpið frekar og hinsegin.
Svo er nú sá möguleiki til staðar að biðja forsetann að synja lögunum. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla yrði bindandi og eftirtilvill markvissari. Þá væri búið að greiða atkvæði um frumvarpið á Alþingi og línurnar skýrar hvað snertir stjórnmálafígúrurnar.
Stjórnarskránni þarf að breyta þar sem hún er úrelt hvað varðar nútíma lýðræði og nútímanum sjálfum, með öllum sínum hraða og möguleikum.

Að lokum megum við ekki gleyma því að einungis tveir þingmenn eru enn á Alþingi sem greiddu atkvæði með setningu kvótakerfisins: Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Það er nefnilega það.