Nú þegar er byrjuð umræða um framtíð embættis forseta Íslands og ég hygg að hún muni magnast eftir væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu - hvort sem hún verður eða ekki.
Verði hún ekki hljóta fræðimenn að velta fyrir sér hvað svokallað synjunarvald forseta eða málskotsréttur þýði í dag. Þegar stjórnarskráin var skrifuð var í raun aldrei búist við því að þessu valdi yrði beitt.
Fari svo að stjórnvöld taki Icesave-frumvarpið úr þeim þjóðaratkvæðisfarvegi sem það er í getum við litið á sem svo að forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi skapað sér neitunarvald líkt og við þekkjum í Bandaríkjunum og fleiri löndum.
Forsetinn okkar er að móta embættið eftir sínu eigin höfði. Mig langar því að benda á ummæli Ólafs fyrir forsetakosningar 2004 um það að forsetaembættið ætti eftir að taka meiri þátt í umræðunni en það hafði áður gert.
En ég er samt ekki að segja að þessi mótun Ólafs sé slæm, frekar að þessi háttum mála gefi hættulegt fordæmi. Við getum tekið það sem dæmi að eftir að Ólafur lætur af embætti taki við af honum maður sem er á þeirri skoðun að forsetaembættið ætti að skipta sér meira af stjórnmálunum.
Gott og blessað, það verður bara hver forseti að meta fyrir sig. En í stjórnarskránni er ekki kveðið á um það hversu langan tíma forsetinn hafi til að hugsa sig um áður en hann undirritar lagafrumvarp. Þess vegna gæti hann dregið það um nokkra mánuði og skapað óvissu. Svo gæti það gerst að hann hvorki skrifi undir né tilkynni að hann hyggist beita synjunarvaldi - einfaldlega gerir ekki neitt.
Það hlýtur að teljast neitun. Þannig að mjög strangt til tekið hefur forseti Íslands neitunarvald.
Ríkisstjórnin hefur kynnt áform um ráðgefandi stjórnlagaþing sem á að taka á öllum þáttum íslenskrar stjórnskipunar og öðrum tengdum málum.
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því; hvort þingið láti embættið eiga sig eða ákveður að breyta því, jafnvel lagt til forsetaræði en ekki þingræði.
Það sé ég þó ekki fyrir mér enda við Norðurlandabúar afar íhaldssamir á okkar þingræðisfyrirkomulag.
Einnig hafa verið hugmyndir um að forseti Alþingis taki við hlutverki forsetans. Það vil ég þó ekki því mér finnst að æðsti maður þjóðarinn ætti að vera kosinn í beinni kosningu.
Lítið hefur verið talað um embætti varaforseta enda myndi það gegna litlu hlutverki. En eins og flestir vita þá eru handhafa forsetavalds í hans fjarveru; forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.
Mitt álit er það að það sé óheppilegt, sérstaklega vegna þess að forsætisráðherra og forseti Alþingis eru oftar en ekki úr sama flokki. Það eru dæmi þess að teknar hafi verið ákvarðarnir fyrir hönd forseta í hans fjarveru, ákvarðarnir sem ættu að koma frá forsetanum sjálfum. Ég vil nú ekki nefna neitt nákvæmt en ég held að flestir viti hvað ég er að tala um.
Stofnun embættis varaforseta gæti komið í veg fyrir að svona lagað gerist. Svo hef ég líka heyrt að best væri að forseti Alþingis færi með forsetavald í fjarveru forsetans, það kemur til greina fyrir mitt leiti.
Hvað sem öllu þessu líður þá langar mig að eins að koma aftur að komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er almennt fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum en ég er einn af þeim sem telja að Icesave-frumvarpið henti ekki í svoleiðis ferli vegna þess að það snertir fjármál ríkisins.
Eigum við að láta fjárlög í þjóðaratkvæði? Til þess að þau yrði samþykkt þyrfti að hafa sem lægstan skatt og sem hæst ríkisútgjöld.
En kvótakerfið, það er eitthvað sem á heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það sé ekki mjög flókið og flestir vita í aðalatriðum hvað það er og flestir hafa skoðun á því.
En við þurfum að horfast í augu við það að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki farið fram á lýðveldistímanum og það er kominn tími að láta reyna á þetta tæki sem er okkur svo framandi - enda full seint í rassinn gripið að taka þjóðaratkvæðið af nú þegar rúmar þrjár vikur eru í Icesave-atkvæðagreiðsluna.
Það er nefnilega það.