Sæl öll,

Þetta er að finna á Mbl.is:



Erlent | AP | 16.08.2002 | 17:07

Svíar vilja að sænskukunnátta sé skilyrði ríkisborgararéttar
Flestir Svíar eru þeirrar skoðunar að þeir sem vilji fá sænskan ríkisborgararétt verði að kunna undirstöðuatriðin í sænsku. Sænskupróf fyrir innflytjendur voru aflögð fyrir þremur áratugum en leiðtogi sænsku stjórnarandstöðunnar hefur lagt til að slík próf verði tekin upp að nýju.
Könnunin sýndi, að 71% af þúsund manna úrtaki taldi eðlilegt að gera þær kröfur að þeir sem vilji gerast sænskir ríkisborgarar kunni einhver skil á sænsku. 22% voru andvíg þessu en 6% voru óákveðin.

Könnunin var gerð fyrir Frjálslynda flokkinn en Lars Leijonborg, formaður flokksins, lagði til í síðustu viku að tekin yrðu upp sænskupróf á ný fyrir þá sem sækja um ríkisborgararétt. Jafnaðarmenn, sem halda um stjórnartaumana í Svíþjóð, tóku þessari hugmynd fálega en lífleg umræða hefur í kjölfarið verið í sænskum fjölmiðlum um málið. Kosið verður til þings í Svíþjóð í september.

Um 12% af þeim 8,9 milljónum manna sem búa í Svíþjóð hafa fæðst í öðrum löndum. Innflytjendur geta sótt um ríkisborgararétt ef þeir hafa dvalið í landinu í 5 ár og hafa óflekkað mannorð.



Þetta er síðan ekkert einsdæmi en sömu hugmyndir eru uppi víða annars staðar í V-Evrópu, s.s Þýzkalandi, Noregi og Bretlandi svo ekki sé minnzt á Ísland en frá og með næstu áramótum verður það skilyrði fyrir íslenzkum ríkisborgararétti að viðkomandi geti gert sig vel skiljanlegan á íslenzku.
<br><br>Með kveðju,

Hjörtur J.

“Fylkið ykkur jafnan undir merki þeirra er vilja vernda og efla íslenzkt þjóðerni og íslenzka tungu og reynið ávallt að fylgja málstað þeirra sem berjast fyrir því sem er rétt, gott og fagurt.” -Margrét Jónsdóttir skáldkona (1893-1971), höfundur ljóðsins “Ísland er land þitt”.
Með kveðju,