Umræðan um Ísland og aðild að Evrópusambandinu verður smám saman háværari. Fólk verður meira og meira vart við hvað er í gangi og hvað er framundan. Í ljósi þess að þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin um samninginn þá fara flestir landsmenn aðeins að velta fyrir sér um hvað málin snúast og hvaða kostir og gallar eru fyrir hendi. Og auðvitað á fólk að spurja sig: „Hvað græði ég á þessu persónulega“ „Af hverju á ég að samþykkja eða neita þessum samningi? En flestir vita að enginn samningur er kominn á blað ennþá. Þannig að fólk veit ekki nákvæmlega hvað það er að kjósa um ennþá. En sum atriði er nánast hægt að vera viss um að standi í samningnum, ekki alveg upp á hár auðvitað. Mig langar að velta fyrir mér því, sem nokkuð bókað er að muni standa í samningnum, og pæla í kostum þess og göllum.



1. Krónan verður bundin við Evruna.
Þ.e.a.s. krónan verður stöðugari gjaldmiðill. Það er ekkert bókað mál að taka upp Evruna, Danir og Svíar til dæmis eru innan ESB og tóku hana ekki upp, en samt hafa þau fínustu gjaldmiðla. Ef ég man rétt þá eru þeirra gjaldmiðlar bundnir Evrunni, sem er að eðli sínu stöðugur gjaldmiðill vegna þess hversu stór hann er og þá haldast gjaldmiðlar Danmerkur og Svíþjóðar stöðugri en ella. Það gæti tekið mjög mörg ár fyrir Ísland að taka upp Evruna ef þeir skyldu gera það. Þetta fæ ég t.d. frá aðalsamningamanni Íslands varðandi aðild.



2. Landbúnaðarvörur innan ESB verða tollfrjálsar.
Þ.e.a.s. matarverð lækkar talsvert. Allur matur frá nánast allri Evrópu lækkar töluvert í verði, neytendastofan gefur til kynna að lækkunin yrði 15-20% en það er erfiðara að spá um það svona langt fram í tímann. Á móti fá bændur ekki jafn háa styrki þar sem styrkir Íslands til bænda eru hærri en styrkir ESB, samt sem áður fara rúmlega 40% af útgjöldum ESB í Landbúnaðarstefnuna.


3. Evrópuþingið ákveður æðstu lögin sem Ísland og hinar 27 þjóðirnar þurfa að taka upp.
Andstæðingar ESB aðild virðast vera mikið á móti þessu, því að „Ísland tapi fullveldi sínu“. Fólk verður að velta fyrir sér hvort að það sé gott eða slæmt fyrir Íslendinga ráða ekki nánast öllu sjálfir. Ég er til dæmis á þeirri skoðun að ef Ísland væri í ESB fyrir hrun þá hefði Evrópski Seðlabankinn aldrei leyft Davíð að gera það sem hann gerði, til dæmis að afnema bindisskylduna. Fólk þarf að spurja sig: „Vitum við betur en Evrópuþjóðirnar?“


Síðan eru fullt af öðrum hlutum sem hægt er að tala um eins og tollmúrinn, styrki, sjávarútveginn og margt fleira en ég vil helst ekki hafa þetta of langt. Ég vil endilega fá að vita hvað fólki finnst um aðild Íslands og af hverju.