Í sambandi við könnun sem er í gangi á Deiglunni varðandi hvort stjórnvöld eigi að minnka straum innflytjenda til Íslands, þá segir meirihlutinn já. Mín spurning hins vegar hvar er þessi straumur eiginlega?

Annars vegar höfum við innflytjendur frá EES löndum og skv. samningi við EES höfum við engan rétt til að neita þeim um að koma til Íslands og leita sér að vinnu. Þetta er gagnkvæmur samningur sem á móti gerir Íslendingum auðvelt að fara til EES landa og leita sér að vinnu þar án þess að þurfa að sækja um atvinnuleyfi.

Hins vegar höfum við innflytjendur frá löndum utan EES og það er mjög erfitt fyrir þá að fá atvinnuleyfi vegna þess að atvinnurekandi þarf að sýna fram á að hann hafi auglýst starfið á Íslandi og innan EES og finni engan sem hefur áhuga. Þessi leyfi eru tímabundin og þeir þurfa að sýna aftur fram á að þeir finni engan í starfið áður en það fæst framlengt.

Þannig að hvernig ættum við að takmarka þennan “straum” eitthvað meira?