Þannig er mál með vexti að ég var að byrja í verklegum ökutímum fyrir stuttu. Eftir fyrsta ökutímann spurði ökukennarinn minn hvort að ég væri laus á fimmtudaginn kl.16 og ég svaraði játandi þannig að það var ákveðið að þá skyldi næsti ökutími vera. Svo á fimmtudeginum þegar klukkan er orðinn 16:20 er hann ekki enn kominn þannig að ég hringi í hann nokkrum sinnum og loksins þegar hann svarar segir hann að hann hafi steingleymt tímanum og svo kom hann. Allt í lagi með það, allir geta gleymt hlutum ef illa stendur á. Eftir þann tíma ákváðum við að næsti tími skyldi vera á mánudaginn kl.16. Svo um mánudagsmorguninn fæ ég sms um að hann geti ekki tekið mig í tíma á þeim tíma sem við ákváðum og að ég skyldi hringja í hann til að við gætum ákveðið hvenær tíminn skyldi vera. Ég hringi í hann og hann svarar og segir að hann sé upptekinn í augnablikinu og hann muni hringja í mig aftur þegar hann geti svo að við gætum ákveðið næsta ökutíma. En svo hringir hann ekkert í mig þennan dag. Þannig að daginn eftir þegar ég var búinn í skólanum ákvað ég að hringja í hann. Þá svaraði ættingi hans og sagði mér að hann væri staddur í útlöndum og kæmi aftur heim næsta mánudag.

Finnst ykkur þetta ásættanleg framkoma ökukennarans í minn garð ?

Mynduð þið finna ykkur annan ökukennara ef að þið væruð í mínum sporum ?