Um leið og biskup tjáir sig óbeint að hann sé á móti því að samkynhneigðir fái réttindi til þess að ganga í hjónaband þá breytist strax andrúmsloftið hjá alþingismönnum sem margir hverjir tala nú um að “gefa full réttindi” en undir öðru nafni en hjónabandi, til þess að koma til móts við þjóðkirkjuna. Biskup segir kirkjuna ekki vera tilbúna til þess að úrksurða strax um hvort blessa eigi slík hjónabönd og því biður hann um að málinu verði frestað, annars sé verið að stilla kirkjunni upp og þvinga hana til þess að taka ákvörðun.

Afsakið en hvað heldur hann að þjóðkirkjan sé? Næsta valdið á eftir Alþingi? Það er eingöngu verið að tala um að gera hjónabönd lögleg samkvæmt lögum, ef það kemur þeim í óþægilega stöðu að geta ekki falið sig lengur bakvið landslög þá verður bara að hafa það. Sýna smá kjark og taka afstöðu í stað þess að sópa málinu undir teppið! Ég veit ekki betur en að þjóðkirkjan hafi ekki einkarétt á hjónabandi, sem getur bæði verið undir öðrum trúfélögum og trúarbrögðum ásamt því að vera borgaraleg. Þetta er ekki í anda trúfrelsis sem á samkvæmt stjórnarskrá Íslands að vera í gildi hér á landi. Ég vona innilega að frumvarpið verði samþykkt án breytinga fyrir þjóðkirkjuna enda er þá ekki aðeins verið að gefa skít í samkynhneigða heldur alla þá sem eru utan þjóðkirkjunar.