Mál Árna Johnsen fyrsta þingmanns Suðurlandskjördæmis hafa verið mikið til umræðu í fjölmiðlum og manna á milli. Upphafið má rekja til fréttar DV á föstudaginn. Þar er því haldið fram að hann hafi tekið efni, sem hann keypti í Byko í nafni Þjóðleikhússins fyrir um eina milljón króna, og látið svo senda sér það á Höfðaból í Vestmannaeyjum.


Eftir það fór boltinn að velta, fyrst rólega en eftir að Ríkisútvarpið birti frétt um kaup Árna á óðalssteinum fyrir Þjóðleikhússið hjá BM-Vallá fyrir um 160 þúsund krónur, steinum sem enduðu í garðinum við hús hans í Reykjavík, varð allt vitlaust. Fréttatímar sjónvarps- og útvarpsstöðva fjölluðu að mestu um Árna og meint svik hans. Sama má segja um blöðin, þar hafa margar síður verið lagðar undir málefni Árna sem meira að segja komust inn í leiðara Morgunblaðsins.
Í þessum tveimur málum hefur Árni viðurkennt sekt sín og ber við mistökum en bæði BM-Vallá og Byko segja slíkt óhugsandi. Þarna er staðhæfing gegn staðhæfingu en fæstir virðast trúa Árna sem verður að njóta vafans á meðan málið er í rannsókn. Í kjölfarið hafa ótal mál, þar sem Árni hefur komið við sögu, verið dregin fram í dagsljósið og fullyrt er að hann hafi óhreint mjöl í pokahorninu.
Andstæðingar Árna, en þeir eru margir, eru ekki í vafa um að sögurnar séu allar réttar og fullyrða að margt eigi ennþá eftir að koma upp á yfirborðið sem þoli illa dagsins ljós.
Það hefur viljað loða við Árna að hann fer stystu leið að hlutunum og ekki sést hann alltaf fyrir. Í bægslaganginum rekst hann á marga sem á eftir telja sig eiga honum grátt að gjalda. En enginn ber á móti því að Árni nær árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur þó aðferðirnar séu ekki hefðbundnar.
Nú er staðan sú að Ríkisendurskoðun hefur hafið rannsókn á embættisfærslu Árna sem formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir það Árna fyrir bestu að öll hans mál verði rannsökuð. Björn Bjarnason menntamálaráðherra tekur í sama streng og gengur jafnvel lengra, segir að Árni hafi brugðist trúnaði sínum en Þjóðleikhúsið heyrir undir menntamálaráðuneytið. Báðir eru sammála um að Árni verði að eiga það við sjálfan sig hvort hann segi af sér þingmennsku eða ekki.
Hvað sem þessu öllu líður er skaðinn skeður. Árni er staðinn að því að ljúga og það oftar en einu sinni í útvarpi. Árni gerir rétt í að segja af sér formennsku í byggingarnefnd Þjóðleikhússins en á hann að segja af sér þingmennsku? Yfirgnæfandi meirihluti svarenda á eyjafrettum.is svarar spurningunni játandi. Fréttir ætla ekki að segja Árna hvora leiðina hann á að velja, að sitja á þingi áfram eða hætta. Það verður hann að eiga við sjálfan sig eins og forsætisráðherra sagði.
Sjálfur er Árni ákveðinn í að halda áfram samkvæmt heimildum sem blaðið telur áreiðanlegar. En spurningin er, hvaða vigt hefur hann sem þingmaður eftir allt sem á undan er gengið. Hann situr í fjárlaganefnd og er formaður samgöngunefndar og forsætisráðherra hefur sagt að seta hans í fjárlaganefnd hljóti að verða skoðuð í haust. Sama hlýtur að gilda um samgöngunefnd.
Talað er um sterka þingmenn og veika og Árni hefur fram að þessu hiklaust verið í hópi þeirra fyrrnefndu. Þess hafa Vestmannaeyjar óumdeilanlega notið og hefur enginn komist með tærnar í þeim efnum þar sem hann hefur hælana. Þar hefur hann látið alla gagnrýni eins og vind um eyru þjóta. En hvernig þingmaður verður Árni Johnsen eftir allt sem nú dynur á honum? Það er spurning sem menn hljóta að velta fyrir sér, ekki síst hans dyggustu stuðningsmenn. Það eru einmitt þeir sem verða að ákveða hvað Árni skal gera. Sjálfur er hann viss um að eiga stuðning síns fólks en er það víst?
Hvað sem öllu þessu líður verður Árni í hópi veikustu þingmanna velji hann þann kostinn að vera áfram. Einn stuðningsmaður hans orðaði það svo, hvort er betra að eiga veikan þingmann eða engan? En kannski á Árni eftir að ná fluginu á ný. Pólitískt minni landans er ótrúlega lélegt og hvenær fer allur þessi fréttaflutningur að vekja upp samúð hjá þjóðinni? Má vera að Árni hugsi á þessum nótum en hann hlýtur að verða að gera nánari grein fyrir sínum málum. Stuðningsmenn hans, félagar og vinir, sem sitja sárir eftir, eiga heimtingu á því en ekki einni lyginni enn.
Einu má heldur ekki gleyma, hvað ef mál Árna fara fyrir dómstóla. Hvaða þýðingu hefur það fyrir stöðu hans sem þingmanns?
Reynt var að fá Árna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri en hann var ekki fáanlegur til þess.

- O.G.