Þetta er alveg fáránlegt að Bandaríkin og önnur vestræn lönd skuli elta einræðisherrann með gjafir af því hann sé kominn með kjarnorkuvopn. Hvaða skilaboð sendir slíkt? Nú er ekki samið við hryðjuverkamenn af því slíkt hvetur aðra til þess að gera það sama. Þetta er nákvæmlega eins með þjóðarleiðtoga. Þegar maður mútar einræðusherra til þess að falla frá kjarnorkuáætlun sinni, þá hvetur það aðra til þess að gera það sama. Þetta er eins og að gefa svöngum ketti, ef þú gerir það einu sinni þá kemur hann aftur. Þeir gátu ekki einu sinni verið sáttir lengur en í 1 dag áður en þeir komu með fleiri kröfur.

Jafnvel þó þeir myndu útrýma vopnum sínum þá gætu þeir tekið upp á þessu bragði næst þegar þeir eru ósáttir. Finnst eins og að vestræn ríki ættu að hafa það að reglu að múta ekki þjóðarleiðtogum, nákvæmlega eins og hryðjuverkamönnum. Þar sem það hvetur aðra til þess að gera það sama. Best væri að hefja innrás inn í landið á meðan vopn hans eru í lágmarki. Betra núna en seinna þegar kjarnorkuvopnin eru orðin fleiri og þróaðri.

Mbl.is…
Sendimaður Norður-Kóreustjórnar, Kim Gye-gwan, sagði í dag að stjórn sín myndi ekki leggja niður kjarnorkuáætlun sína fyrr en hún hefði fengið eitthvað fyrir snúð sinn, þ.á m. kjarnaofna til orkuvinnslu. „Bandaríkjamönnum gefst nú tækifæri til að sýna og sanna að þeir hafi horfið frá fjandsamlegri stefnu sinni gegn DPRK [N-Kóreu] með því að láta í té kjarnaofna,“ sagði Kim við fréttamenn á flugvellinum í Peking.

Í gær bárust fregnir um að þáttaskil hefðu orðið í sex-ríkja viðræðum er staðið hafa undanfarin tvö ár og miðað að því að fá Norður-Kóreustjórn til að hverfa frá kjarnorkuáætluninni og eyða kjarnavopnum. Var tilkynnt að N-Kórea hefði fallist á þetta gegn því að fá vestræna aðstoð og friðaryfirlýsingu frá Bandaríkjamönnum.

Fyrr í dag barst tilkynning frá n-kóreska utanríkisráðuneytinu þar sem kvað við svipaðan tón og hjá Kim, sem er aðstoðarutanríkisráðherra. Í gær höfðu ríkin sem eiga aðild að viðræðunum, auk N-Kóreu, Suður-Kórea, Rússland, Kína, Japan og Bandaríkin, samþykkt skjal það sem sagði að kjarnaofnar til orkuframleiðslu til handa N-Kóreu yrðu ræddir síðar.

Sendifulltrúi Bandaríkjanna, Christopher Hill, sagði í gær að kjarnaofnarnir yrðu ekki ræddir fyrr en N-Kóreumenn væru búnir að eyða kjarnavopnum sínum og undirrita alþjóðlega yfirlýsingu um bann við útbreiðslu kjarnavopna.