Eins og við mátti búast, ber sunnudagsmogginn höfuð og herðar yfir allt prentefni á Íslandi. Tónlistar-, kvikmynda- og almennar umfjallanir eru príma og einstaklega fróðlegt var einkaviðtal Moggans við Gunther Rall, fyrrum flugherforingja í þýska hernum í seinni heimsstyrjöldinni. Sjaldgæft að lesa heiðarlegt viðtal við aðra en stríðshetjur bandamanna. Rall lýsti kynnum sínum af Hitler og Göring (hann kallaði þann síðarnefnda óbeint væskil og hégómagjarna pjáturrófu sem hefði aldrei haft respekt undirmanna sinna). Rall lýsti hugarheim þýsku hermannanna þannig að trúverðugt var, ungir strákar sem urðu að hlýða fyrirmælum en voru undir stríðslok algjörlega búnir að missa trú á yfirvaldið (skiljanlega). Ótrúlegt að lesa sögur af því að hann hafi hitt fyrrum óvini sína, flughermenn sem hann persónulega skaut niður í stríðinu en komust lífs af! Þetta er reynsluheimur sem við X-kynslóðin komumst (sem betur fer) seint inn í og sannarlega ekki með að horfa á þriðja flokks stríðsvellur á borð við Pearl Harbor. Menn á borð við Gunther Rall sem gagnrýna sjálfa sig og yfirvaldið heiðarlega, eru alvöru. Takk Moggi!