Sælt veri fólkið.

Upphaflega átti þetta að vera svar við greininni “Jesú bar byrðar þínar og dó þín vegna”, en varð svo að ritverki um trúarbrögð yfir höfuð. Fyrstu greinaskilin eru svar við röksemdarfærslum manns sem svaraði áðurnefndri grein, þar sem hann byggir rök sín á að setningin “guð er ekki til” geti ekki verið sönn því þá hlýtur að vera til fullkomnari vera sem VÆRI guð…

Nú hefst greinin.


Meira bullið þessi “röksemdafærsla” hjá þér finnst mér… skrefið “ef guð er ekki til þá hlýtur að vera til fullkomnari vera…”…. nú af hverju í fjandanum? Af hverju VERÐUR að vera til fullkomnari vera og fullkomnari vera en hún og fullkomnari vera en hún sem endar í al-fulkominni veru? Af því að þig langar það??

Fullkomninn/fullkomnari eru nú hvort sem er bara skoðanir bundnar manninum. Ég er sammála manninum sem deildi við þig áðan, trú byggist á hreinni óskhyggju, í bland við ótta reyndar oft, öll útbreyddustu og lífseigustu trúarbrögðin eru með boðorð/klausu um það að ef þú trúir ekki og lifir samkvæmt trúarbrögðunum, þá gerist eitthvað slæmt við þig ™. Þessi slæmi hlutur á þá náttúrulega að koma fyrir þig eftir að þú deyrð (brenna í helvíti, missa af einhversskonar himnaríki eða alsælu/upplýsingu)… þannig að það sé ekki hægt að afsanna það.

Ég held að trú hafi nú bara verið eitt mesta eitur mannsins gegnum aldirnar. Þau hafa komið illum mönnum til valda sem stjórna með ótta og hegða sér ótrúlega illmannlega í bókstafstrúarsannfæringu sinni (VERÐA í raun bara illir af bókstafstrúarsannfæringu sinni og völdunum sem staða þeirra sem trúarleiðtogi færir þeim). Þeir fangelsuðu, pyntuðu og tóku fólk af lífi í trúarsannfæringu sinni. Stóðu í vegi fyrir þróun vísinda og mannréttinda (vegna þess að allt sem braut í bága við bíblíuna, eða bara kirkjuhefðir var ekkert nema dauðasynd… trú leiðir af sér stórhættulega, kæfandi og jafnvel banvæna íhaldssemi)…

Oft hugsa ég: Hvar væri mannkynið ef trú hefði ekki haldið okkur í fjötrum svo lengi? Ef fólk hefði hugsað óheft og treyst á sjálft sig og haft hugrekkið til að kanna og hugsa frjálst um heiminn og náttúruna, þróa vísindin, í staðin fyrir að kúra í þeim ábyrgðarfrelsandi hugsunarhætti að “þetta sé guðs vilji”, “guðs vegir séu órannsakanlegir” og að “aðeins guð viti þetta og hitt”. Hvar væri mannkynið ef sannir frumkvöðlar og snillingar sem létu ekki bindast af þessum gömlu kreddum sem samfélögin voru sýkt af, hefðu ekki verið teknir af lífi í nafni trúarbókstafs?

Best væri líklega ef Forn-Grísku snillingarnir hefðu fengið að halda áfram að þróa stærðfræði, rökfræði, heimspeki og náttúruvísindi (o.s.frm) í staðin fyrir að trúin hefði ekki gert fólkið uggandi fyrir að í allri þessarri vísindadýrkun þá væri “hinn *óútskýranlegi* máttur guðanna” hunsaður og þegar náttúruhamfarir skullu á þá kenndi fólkið vísindamönnum um og sögðu að þetta væri reiði guðanna…

Þá hafði mannkynið náð hápunkti sem myndi líða laaaaangur tími þangað til við myndum ná aftur.

En það þýðir svo sem ekkert að sýta fortíðina. Bara læra af sögunni og hafna trúarbrögðum. Vera sterk og opin í hugsun, fagna vísinda- og mannréttindaframförum mannkynsins. Vísindin auðga líf okkar og auðvelda dagleg störf. Og sem dæmi um mannréttindaframfarir er að nú er þrælahald að mestu afnumið (eitthvað sem biblían studdi og lagði blessun sína 100% yfir eins og sést þegar maður les boðorðin 10) og að nú loksins er fólk að kasta af sér gömlu bíblíufordómunum og hatrinu og farið að koma fram við samkynhneigða eins og manneskjur. Mikilvæg framför og merkilega lengi að koma!

Enn fremur þurfum við að hafa kjarkinn til að viðurkenna að þegar við deyjum þá hættum við að vera til og að við VITUM Í RAUN EKKERT um hvernig tíminn og alheimurinn varð til… ef hann hefur þá ekki bara alltaf verið til… (jújú það var Big Bang en hvað var á undan því? Hvað olli Big Bang?) hugsunin sem leiddi til þess að fólk fann upp guði var sú að fólk hugsaði með sér: “OK hver skapaði okkur? Einhver guð. Hver skapaði þann guð? Einhver annar guð…. einhversstaðar verður fólk að áætla að eitthvað eða einhver ”hafi alltaf verið til“… sem sagt eilífðin aftur í tímann, óendanleg fortíð.

En kannski er uppruni tímans og alheimsins (ef það var þá eitthvað upphaf) bara eitthvað allt annað en við höldum. Eða jafnvel bara ofar okkar takmarkaða skilningi. Málið er við þurfum að viðurkenna að við vitum það í raun ekki, í staðinn fyrir að grípa í örvæntingu til einhverra mörg þúsund ára gamalla þjóðsagna og draugavitleysu sem ber þann stimpil á sér að vera heilagur sannleikur og að hver sem ekki trúi hann muni líða fyrir það í lífinu eftir dauðann (sem við trúum auðvitað í örvæntingu og sjálfsbjargarhvöt okkar að VERÐI að vera til).

Það á að hafa hugrekki til að sætta sig við að það er enginn guð og að það er ekkert líf eftir dauðann, og þá fyrst getur maður virkilega byrjað að LIFA fyrir lífið sjálft… ekki sóa lífi sínu í að tryggja okkur vist í einhverju himnaríki eða nirvana sem er ekki til. Það er náttúrulega BARA tragic irony, að mínu mati… að kasta lífi sínu á glæ til að tryggja eitthvað líf eftir dauðann, sem er ekki til.



Að lokum vil ég benda þér á eitt sem mér datt í hug og mér þykir færa nokkuð sterk rök fyrir því að guð sé ekki til: Það eru og hafa einhverntíman verið til *ARAGRÚI* af mismunandi trúarbrögðum… þúsundir, kannski jafnvel milljónir gegnum alla mannkynssöguna tekin sem heilagur sannleikur og ekkert múður með það. Ekkert þeirra er hægt að sanna eða afsanna. Nú ert þú með einhverja slíka trúarsannfæringu (þú talar um Jesú krist og allann þann pakka, án þess að vegsama dýrlinga eða páfann… ennfremur ertu Íslendingur. Ég giska því að þú aðhyllist einhvers konar lútherstrú/mótmælendatrú.)… allavega, málið er:

Hverjar eru líkurnar á að þinn ”heilagi sannleikur“, af öllum þeim óteljandi fjölda ”heilagra sannleika“ sem eru/hafa verið til gegnum mannkynssöguna, sé réttur? Harla litlar, eða einn deilt með fjölda mismunandi trúarbragðanna. Sem gæti verið einn á móti milljón eða 10 milljónum eða einhver andskotinn.

Auk þess gæti ég bætt við núverandi runu af trúarbrögðum sem mannkynið hefur fundið upp næstum óendanlegum fjölda af mínum eigin trúarbrögðum sem ég get leikið mér að því að spinna upp. OK kristnir menn trúa á norræna hippann sem fór til Palestínu, hindúar trúa á helling af guðum auk karmalögmálsins, búddistar trúa á hina eilífu hringrás endurfæðinga auk karmalögmálsins, ásatrúarmenn trúa að sköpun heimsins (eða var það mannsins?) hafi orðið til þegar einhver belja sleikti saltið af einhverjum steini, ættbálkur indíána gæti trúað því að menn fari á ”hinar eilífu veiðilendur“ ef menn sýni hinum ósýnilegu öndum náttúrunnar virðingu….. og svo LENGI framvegis… …. en þá hlýt ég að mega bæta við eftirfarandi óafsannanlegu hlutum sem ég segi hér með að séu heilagur sannleikur og stofna þar með nú sem trúarbrögð:

1) Tölvumúsin mín hefur sál og sú sál er fullkomin og veit allt. Hún tilkynnti mér einhver boðorð og allir skulu lifa eftir þeim. Vegir hennar eru órannsakanlegir og hún birtist aldrei né hefur samband (ekki frekar en ímyndaður guð kristinna manna) þannig að þið þið verðið bara að TRÚA, já TRÚA segi ég, án allra sannana. Amen (eða nei annars, í mínum trúarbrögðum endum við runur af órökstuddum staðhæfingum á ”Jaman“… það hljómar nettara. Svona eins og Jamaiku menn segja. Jaman.)

2) Í hvert skipti sem ég set ostinn minn í sokkinn minn og geng með hann á fæti mínum í 177 daga þá skapa ég nýjan kynstofn af vitsmunaverum í hinum enda alheimsins eða annarri vídd. Þar með er ég guð.

3) Það er ósýnilegt afl… nokkurs konar náttúrulögmál, sem stýrir afleiðingum í alheiminum. Þeir sem ekki hlýða lögmálinu munu verða fastir í eilífri hringrás endurfæðinga. Þetta er ekki ósvipað búddisma en í staðinn fyrir að þurfa að hreinsa hugann og lifa góðu munklífi til að ná Nirvana og sleppa úr hringrás endurfæðinganna, þá þurfa menn að uuuhhhh BORÐA MIKIÐ SKYR til að ná því andlega stigi sem ég kalla ”Skyrvana“ sem er stig andlegrar fullkomnunar og þar menn lifa í alsælu með nóg skyr.

4) Allt í alheiminum, þar á meðal allar lífverur sem fyrirfinnast í honum voru skapaðar af risastórum blendingi hamsturs og nashyrnings sem sat hreyfingarlaus og boraði í nefið þangað til hann ákvað allt í einu að skapa allt (svona svipað og biblían gerir ráð fyrir að guð hafi verið þessa eilífð sem hann á að hafa verið til… borandi í nefið þangað til að hann allt í einu hrökk upp og ákvað að skapa, og seinna meir, refsa mannkyninu).

5) Tilvera okkar í þessum heimi eins og við þekkjum hana er ekkert nema draumur sem okkur dreymir öll samtímis. Ekki hægt að afsanna þetta.

Ég, eða fólk yfirleitt í raun, gæti haldið næstum endalaust áfram að bulla upp mismunandi óafsannanleg trúarbrögð… og þar með er fjöldi mismunandi óafsannanlegra trúarbragða kominn upp í NÆSTUM óendanlegt… eða jafnvel óendanlegt ef þú hugsar um möguleikana sem til eru, en ekki bara möguleikana sem mannkyninu gæti dottið í hug áður en það deyr, og líka möguleikana sem er kannski ekki hægt að detta í hug með okkar hugsanagerð.

Þar með eru líkurnar á að trúarbrögð þín séu sönn komnar niður í einn deilt með óendanleikanum eða einhverri tölu svo hárri að hún gæti allt eins hljómað óendanleg í okkar eyrum (ef við gefum okkur að fjöldi óafsannanlegra hluta sé endanlegur). Og einn deilt með óendanleikanum eða einhverju sem stefnir á óendanleikann er núll, eða næstum núll… svo nálægt núll að munurinn á því og núll er næstum óendanlega lítill.

Sem sagt: Líkurnar á að trúarbrögð þín séu sönn eru núll eða næstum óendanlega nálægt núll.

Það er kannski ekki hægt að sanna eða afsanna trúarbrögð þín. En má auðveldlega færa rök fyrir því að líkurnar á að þinn ”heilagi sannleikur“ sé sannur, og allt hitt sé rangt, eru næstum engar.

Ætli það hafi ekki verið eitthvað í þessum dúr sem hann Stephen Roberts átti við þegar hann sagði:

”Ég leyfi mér að halda því til streitu að báðir séum við trúleysingjar. Í trúi bara á einum guði færra en þú. Þegar þú áttar þig á því hvers vegna þú hafnar öllum öðrum guðum en þínum muntu skilja hvers vegna ég hafna þínum."

þessa tilvitnun fann ég á www.vantru.net

Takk fyrir og lifið heil.