Sæll UFO
Veit ekki til hvaða einstakling þú varst að skrifa en sem gamall flubbi skal ég svara þér.
Flugbjörgunarsveitin er eina sveitin á Íslandi með fallhlífaflokk sem gerir það að verkum að hægt er að henda mannskap og búnaði rétt yfir slysstað og því hægt að koma aðstoð til fólks í hremmingum með mjög stuttum fyrirvara.  Vegna þess að fólk lendir yfirleitt ekki í slysum í heiðskíru og logni um hábjartan dag þá hefur fallhlífaflokkur aldrei komið að gagni í björgunarstarfi sveitarinnar nema þá á tveimur jafnfljótum eins og hinir.  Einhverntíma mun þetta samt koma að gagni.
FBSR tekur inn nýliða á haustinn og er sniðugt fyrir þig að fylgjast með því hvenær það er á heimasíðu sveitarinnar.  Þá taka við 2 ár í nýliðaflokki og eftir að þú ert tekinn inn í sveitina geturðu tekið þátt í starfi fallhlífaflokks og byrjað að hoppa.  Fyrst lærirðu á hringlaga fallhlíf þar sem að flugvélin dregur út fallhlífina og því er ekkert frjálst fall.  Síðar geturðu lært á ferhyrndar-fallhlífar en það er ekki hluti af björgunarpakkanum þannig að flestir gera það í gegnum fallhlífaklúbbinn.
Þannig að ef þú nennir ekki að leggja þetta á þig og vilt bara stunda fallhlífastökk þá er væntanlega betra fyrir þig að ganga í fallhlífaklúbb Reykjavíkur.  Það mun væntanlega verða þér ódýrara þar sem búnaðarkaup í nýliðaflokk eru ansi drjúg:  Gönguskór, bakpoki, Goretex galli, nærföt, áttaviti, skíði….
Kær kveðja
Phoca