Ágæti smáborgari!
Stjórnvöld hafa, fyrir hönd tónlistarmanna, tekið að sér að innheimta skatt af af tómum geisladiskum, skrifurum og tölvum. Allir fagna þessu og vonandi verður þetta fordæmi til þess að aðrir fái réttlátan skerf af viðskiptum og viðskiptaleysi á Íslandi. Eftirtaldir aðilar eru að undirbúa málið og væntum vér undirritaðir þess að allir taki undir sanngjarnar kröfur þeirra:

1. Rithöfundar fái að leggja skatt á auð pappírsblöð.
2. Ljóðskáld fái að skattleggja ljósritunarvélar
3. Bakarar fái að leggja skatt á litlar brauðvélar til almenningsnota.
4. Lögfræðingar fái að leggja skatt á handbækur um lögfræðileg mál.
5. Læknar fái að leggja skatt á handbækur um læknisfræðileg mál.
6. Blaðamenn fái að leggja skatt á innflutt blöð og tímarit.
7. Konur fái að leggja skatt á karla því þeir hafa útbúnað sem leitt getur til nauðgunar.
8. Konur fái að leggja skatt á karla því þeir kljást ekki við mánaðarlegan vanda
9. Bændur fái að leggja skatt á farmiða til útlanda því ferðamenn geta þar neytt erlendra landbúnaðarafurða.
10. Sköllóttir fái að leggja skatt á hærða því hér er um greinilega mismunun að ræða, það er hlýrra að vera með hár.
11. Hærðir fái að leggja skatt á sköllótta því hér er um greinilega mismunun að ræða, það kostar meira að vera með hár.
12. Gleraugnaglámar fái að skattleggja þá sem ekki þurfa á gleraugum að halda.
13. Eigendur hópferðabíla, strætó og leigubíla fái að skattleggja einkabíla.
14. Olíufélögin fái að leggja skatt á reiðhjól.
15. Ríkisútvarpið fái að skattleggja alla sem eiga útvarp og sjónvarp……… úps, þetta er svona!
16. Ríkisvaldið fái að skattleggja vexti, … úps þetta er svona
17. Arkitektar fái að skattleggja reglustikur og blýanta.
18. Efnalaugar fái að leggja skatt á þvottavélar og þurrkara.
19. Ferðaskrifstofur fái að skattleggja netnotkun.
20. Tónlistarmenn fái að skattleggja notkun útvarps í verslunum, ……… úps, þetta er svona!

Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að skjóta styrkari stoðum undur efnahagslíf þjóðarinnar. Það verður aðeins gert með því að allir hugsandi þjóðfélagsþegnar sjái og skilji nauðsyn þess að vanræktir meðbræður okkar og systur fái sinn eðlilega skerf af þjóðarkökunni og að bestu manna yfirsýn verður það til þess að auka gleði og ánægju í landinu, fjölga kaffihúsum, menningarmiðstöðvum, galleríum og þétta byggð í Reykjavík með
því að afleggja Vatnsmýrarflugvöllinn og bora göng í gegnum Esjuna (fram og til baka) til að stytta leiðina í Kjós.

Með kveðju,
Samtök sértækra hagsmuna

P.s. Vinsamlegast látið þetta ekki fara lengra því þetta er liður í
gjörbreytingu á íslensku hagkerfi, þ.e. felubyltinging.