Eftirfarandi grein um femínisma fann ég inni á tölvunni minni og ég hef ekki hugmynd um hvernig hún komst þangað (Ég er ekki að grínast). Hún er ekki merkt neinum höfundi, ef hann les þetta mætti hann gefa sig fram. Ég sendi hana inn vegna þess að mér finnst þörf á vitrænni umræðu um þessi mál.

Ég ætla að fjalla almennt um hugtakið „femínismi“ og hvað það stendur fyrir. Femínismi er afar margrætt hugtak og má segja að sem einangrað fyrirbrigði, sé hann varla til. Innan hans rúmast svo ólíkar hefðir að það getur orðið erfitt að sjá, hvað sameinar alla þá hugmyndafræði sem kennir sig við femínisma.
Femínismi, sem barátta, á rætur sínar að rekja til 19. aldar, en rekja mætti hugmyndir þær sem hann byggir á lengra aftur og þá einkum til þeirra hugsjóna um frelsi einstaklingsins sem lágu frönsku byltingunni til grundvallar. Upphafleg markmið kvenfrelsishreyfingarinnar voru að borgarleg réttindi kvenna, svo sem kosningaréttur yrðu viðurkennd. Sú barátta stóð vel fram yfir aldamótin 1900, t.d. var kosningaréttur kvenna ekki samþykktur í Sviss fyrr en 1981. Skemmst er frá því að segja, að það er langt í frá búið að tryggja öllum konum þessum réttindi, sbr. stöðu kvenna í þriðja heiminum.
Þótt þessi réttindi hafi að mestu verið tryggð á Vesturlöndum, ef ekki á borði þá í orði, hefur það ekki leitt til þess að femínismi hafi misst skriðþunga sinn. Þvert á móti hefur gróska og fjölbreytni aldrei verið meiri í það minnsta á fræðilega sviðinu, þótt margir femínistar myndu ekki samþykkja að slík gróska væri meðal almennings. Það hefur nefnilega verið einkennandi fyrir femínisma að hann hefur þróast út í að vera fræðigrein innan háskólanna.
Í okkar nánasta umhverfi birtist femínismi okkur nefnilega ekki að neinu ráði. Ef litið er yfir umræður í fjölmiðulum er nánast ekkert talað um réttindi kvenna, að því er manni finnst. Að vísu heyrir maður að það er til jafnréttisráð á vegum ríkisins, háskólans og sveitarfélaganna(?). Árið 1994 var stjórnarskránni breytt þannig að allur vafi var tekinn af um að ekki má mismuna fólki eftir kynferði, né heldur öðrum líkamlegum eða félagslegum einkennum. Þetta er svo sem gott og blessað. Það breytir því hins vegar ekki að laun kvenna eru enn mun lægri en karla og að launamunurinn eykst í réttu hlutfalli við menntun! Á sama tíma virðast margir á því að kvennabaráttan sé tímaskekkja þar sem þær njóti jafnréttis! Það er vissulega rétt að konur njóta lagalegs jafnréttis, en það er langt í frá að þær njóti jöfnuðar á við karlmenn í þjóðfélaginu. Það eru ekki bara launin sem eru lægri. Konur bera enn hitan og þungan af heimilisstörfum og umönnun barna. Konur eru einnig í miklum minnihluta í valdastöðum, það er til dæmis bara einn hæstaréttardómari kona! En mismunun kvenna birtist líka með mun lúmskari hætti sem lítill vilji virðist til að ræða af nokkurri alvöru.
Sú mismunun beinist að líkama kvenna. Kröfur á hendur konum eru afar miklar, það þarf ekki annað en að skoða nokkur tímarit um tísku eða horfa á einn þátt af t.d. Friends, til að sjá að fyrirmyndir kvenna eru gjörsamlega óraunhæfar og ekki til þess fallnar að ýta undir sjálfstraust og sjálfstæði ungra kvenna. Þrýstingurinn um fullkomið útlit er nú samt einungis toppurinn á ísjakanum: Á útihátíð sem haldin var á Eldborg síðasta sumar voru fjórtán nauðganir. Að vísu voru nokkrir strákar í hópi fórnarlambanna, en þeir voru í miklum minnihluta. Í hópi gerenda voru eingöngu strákar. Konum er svo sem misþyrmt á fleiri stöðum en útihátíðum, en við vitum að í hvert einasta skipti, sem verslunarmannahelgin nálgast, þá mun þó nokkuð stór hópur stúlkna, verða fyrir misþyrmingum sem þær munu þurfa að kljást við allt sitt líf. Af hverju leyfum við þá útihátíðir í sinni mynd?
Femínismi er því síður en svo óþarfur, ef eitthvað er hefur vangeta laganna til að koma í veg fyrir ójöfnuð kynjanna, sýnt fram á nauðsyn þess að þeim sem annt er um réttlætið, haldi úti kraftmikilli baráttu og umræðu. Femínisminn hefur, eins og áður sagði, í auknu mæli snúist um rannsóknir sem, þótt ólíkar séu, fást með einum eða öðrum hætti við (tilvitnun hefst) „heiminn kvenna megin frá og leitast við að gera kynjamisrétti sýnilegt í því augnamiði að aflétta því, báðum kynjum til góðs“ (tilvitnun líkur) (S.Þ. Kvenna megin, bls. 17), samkvæmt inngangi að bók Sigríðar Kvenna megin. Þetta hefur tekið á sig ýmsar myndir, t.d. hafa orðið til hugtök eins og kvennasiðfræði, en samkvæmt kenningum Carol Gilligan er grundvallarmunur á milli kynjanna í siðferðilegu tilliti. Hún telur að meðan karlar meti siðferðileg vandamál út frá algildum, ósveigjanlegum lögmálum, séu konur mun næmari fyrir aðstæðum og sérkennum hvers og eins. Þær séu því umhyggjusamari, enda kallar hún siðferði kvenna umhyggjusiðferði og lætur hún í veðri vaka að það sé hinu kantíska karlasiðferði æðra. Þessar kenningar Gilligan eru því dæmi um kenningu sem vill halda í greinarmun kynjana og jafnvel nýta hann konum til framdráttar, þær séu þannig betri en karlmenn að einhverju leyti. Þetta er þó tvíbent vopn, því það býður heim hættunni á að það sama gildi um karla á öðrum sviðum og því sé réttlátt að hafa skíra verkaskiptingu milli kynjanna og þar með viðhalda þeim viðhorfum sem hafa nýst karl- og kvenrembum vel. Gilligan er þó afar umdeild og vilja menn fremur nýta úr kenningu hennar sjónarmið umhyggju og fella það saman við réttlætissjónarmið til að bæta hvort annað upp, í stað þess að álíta að þau útiloki hvort annað. Það er líka langt í frá almennt viðhorf innan femínískra fræða að kynin séu svona ólík. Þeir eru einnig til sem vilja leysa kynhugtakið upp og taka í staðinn upp kyngervi eða gender. Samkvæmt hugmyndum „uppleysnarsinna,“ eins og Judith Butler er sjálft kynið afurð orðræðunnar, það eru engin tvö kyn eða kynferði, heldur kyngervi sem menningin mótar. Frá sjónarhóli slíkra kenninga verður orðið „kona“ merkingarlaust og ástæða til að gagnrýna harðlega alla orðræðu sem reynir að troða fólki í fyrirfram ákveðin „gervi.“ Það samt litlu betra út frá sjónarmiðum jafnréttisbaráttu að hafna alfarið kvenleikanum, því ef ekki eru til nein kyn getur heldur ekki verið um neina kynjamismunun að ræða.
Þrátt fyrir allt á nefnilega helmingur mannkyns, konur, það sameiginlegt hvor með annari að vera settar skör lægra en hinn helmingurinn. Meira að segja þar sem ástandið er best, s.s. eins og á Norðurlöndunum, er launamunur, ofbeldi og niðrandi kynlífsiðnaður dæmi um þessa stigskiptingu kynjanna. Miðað við hversu hægt hefur gengið er ljóst að full þörf er á gróskumiklu fræðistarfi, sem rýnir í ástæður og birtingarmyndir mismunarins, til þess að endurhlaða vopnabúr kvennabaráttunnar. Það breytir því þó ekki að eigi eitthvað að gerast verður femínisminn að gæta að því að lokast ekki inni í háskólunum. Þau vopn sem þar verða til þarf að nota úti í samfélaginu.