Í dag, í tíma í skólanum í dag varð ég vitni að ótrúlegustu samræðum sem ég hef heyrt.
Þannig var mál með vexti að kennarinn var að ræða hátekjuskatt og var að tala um að það væri ekki alvitlaust að hafa hátekjuskattsmörkin í þrepum, þannig að eftir því sem maður fær
hærri laun, þá hækkar hlutfallið af þeim sem þú þarft að borga í þennan hátekjuskatt.
Einn af nemendunum í bekknum vildi endilega koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Greip fram í fyrir kennaranum og sagðist ekki geta verið sammála þessum hátekjuskatti. Það væri bara út í hött að þeir sem væru “duglegir” myndu þurfa að borga einhvern hærri skatt en aðrir sem væru kannski bara með brotabrot af þeirra ráðstöfunartekjum.
Ég hef nú heyrt ýmislegt en þetta tók bara út fyrir allt. Ég get bara engan veginn fallist á það að þeir sem eru hátekjufólk í þessu samfélagi okkar sé eitthvað duglegara heldur en allir hinir.
Þessi nemandi hélt áfram að koma með þau fáránlegustu rök sem ég hef nokkurn tímann heyrt.
Samkvæmt honum getur fólk bara sjálfum sér um kennt ef það er með lágar tekjur, það eru allir aðilar í þessu landi jafnir og hafi jafna möguleika til að mennta sig, fá góða atvinnu og koma sér vil fyrir í lífinu.
Hvernig getur fólk verið svona blint ? Mér finnst þetta dálítið týpískt fyrir aðila sem hefur ekki þurft að hafa fyrir neinu og fær allt upp í hendurnar. Ég varð svo gapandi hissa á þessu samræðum að ég kom bara ekki upp nokkru orði. Kennarinn reyndi árangurslaust að sýna honum fram á að svona einfalt væri þetta bara ekki en fékk engu tauti við hann komið.
Er þetta svona að fólk gerir sér ekki grein fyrir stéttaskiptingunni hérna á Íslandi eða vill það bara ekki horfast í augu við hana meðan það sjálft hefur það gott ? Á meðan það kemur ekki niður á þeim hvernig þetta er í raun og veru ?